Það má með sanni segja að kappræðna varaforsetaframbjóðendanna Kamala Harris og Mike Pence hafi verið beðið með afspyrnu takmarkaðri eftirvæntingu. Eftir flugeldasýninguna sem Donald Trump og Joe Biden settu á svið í þar síðustu viku var ljóst að Harris og Pence myndu aldrei „toppa“ það.
Það varð jú raunin. Kappræðurnar snérust að mestu, ef ekki öllu leyti um málefnin, hæfni og getu frambjóðendanna fjögurra til þess að takast á við þau stóru verkefni sem fylgir æðstu embættum Bandaríkjanna.
Alla jafna vekja kappræður varaforsetaframbjóðenda litla athygli, en það gæti þó breyst að þessu sinni. Forsetaframbjóðendurnir eru 74 og 77 ára gamlir. Óháð því hver sigrar kosningarnar, verður aldursmet slegið í næstu innsetningarathöfn. Þykir þetta auka til muna mikilvægi varaforsetans í kosningunum nú, enda tekur varaforseti við ef forseti getur ekki sinnt störfum sínum sökum veikinda eða ef hann lætur lífið í embætti. Þá hefur talsverð athygli beinst að Pence í kjölfar greiningar Covid smits Donalds Trumps, en Trump er 74 ára gamall karlmaður í yfirþyngd.
Enn fremur er hugsanlegt að þetta verði síðustu kappræður sem haldnar verða í þessari kosningabaráttu. Til stóð að Donald Trump og Joe Biden myndu hittast tvisvar í viðbót. Eftir ævintýralegan fyrsta fund þeirra tveggja var ráðist í að breyta reglunum og lýsti Trump sig andsnúinn þeim breytingum. Stuttu seinna greindist Trump með Covid-19 og er nú í einangrun í Hvíta húsinu. Trump hefur reyndar þegar sagst ætla að mæta til leiks í kappræður hans og Biden sem fram eiga að fara næsta fimmtudag. Biden segist ekki ætla að mæta sé forsetinn enn veikur. Í ljósi reynslunnar af herkænsku Donalds Trumps er við hverju sem er að búast.
Ef þetta verða síðustu kappræðurnar er ljóst að fjölmiðlar munu vitna til og vísa í það sem fram fór í þeim kappræðum fram á kjördag. Mikilvægi þeirra gæti því aukist með tímanum. Í því ljósi, tók DV saman nokkur lykilatriði úr kappræðunum.
Frambjóðendurnir Pence og Harris eru gjörólíkir. Uppruni Harris er frá Suður Indlandi og Karabíska hafinu. Pence er frá Indiana í Bandaríkjunum. Harris þykir gríðarlega framsýn og frjálslynd. Pence er andlit bandarískrar kristilegrar íhaldssemi. Harris er fyrrum saksóknari frá einni frjálslyndustu borg í Bandaríkjunum, ef ekki heimi, San Francisco. Pence stýrði áður íhaldssömum útvarpsþætti á kristilegri útvarpsstöð.
Þessi munur kristallaðist í gær, ítrekað, og hafi einhverjir kjósendur þá hugmynd að lítill munur sé á eldri borgurunum Biden og Trump, hljóti þeir hinir sömu að geta fundið aðgreininguna sem þeir þurfa í Harris og Pence.
Trump og starfslið hans eiga sér væntanlega þá ósk eina, að stýra umræðunni frá alheimsfaraldrinum og því gríðarlega manntjóni sem hún hefur ollið auk kreppunnar sem sóttvarnaraðgerðum hefur fylgt. Trump bauðst gullið tækifæri til þess að setja málefni honum að skapi á dagskrá með tilnefningu á Amy Coney Barrett í sæti hæstaréttardómara, en þegar Trump sjálfur greindist með Covid smit varð það að engu. Ekki bara hefur öldungadeildin þurft að fresta nefndarfundum um staðfestingu á Barrett vegna þriggja smita meðal þingmanna, heldur hefur smit Trumps sjálfs dregið til sín alla athygli fjölmiðla og almennings síðustu daga.
Covid er því áfram aðalatriði kosningabaráttunnar. Það er skelfilegt fyrir Donald Trump.
Þar að auki blasa áminningar um „ástandið“ við hvert sem litið er. Þannig voru frambjóðendurnir aðskildir með plastskildum í gær sem setti sterkan svip á útlit kappræðanna.
Trump hefur þó ekki gefist upp á málaflokknum, því hann og málpípur hans keppast nú um að dreifa þeim skilaboðum að bóluefni við Covid-19 sé að vænta fljótlega. Er það liður í að draga úr vægi faraldursins í kosningunum og auka möguleikana á að færa athygli almennings á aðra málaflokka. Málaflokka sem Trump á meiri möguleika á að fanga atkvæði kjósenda með.
Eins og við var að búast voru frambjóðendur bersýnilega með fyrirfram ákveðin svör við líklegum spurningum. Það leiddi til þess að svör frambjóðendanna voru greinilega vel æfð og með vel skipulögðum og taktískum árásum vöfðum inn í fagurortan texta, en spurningum spyrilsins var sjaldnast svarað. Spyrillinn gekk seint og illa á eftir svörum frá frambjóðendum og virtist liggja meira á að klára spurningalista sinn en að fá svör við spurningunum.
Þó umræðan síðastliðna nótt hafi verið yfirveguð og málefnamiðuð, var aldrei langt í skotin á forsetaefnin. Ljóst er að persóna frambjóðendanna tekur mikið í pláss í umræðunni. Pence nýtti hvert tækifæri til að minna fólk á allt það vafasama sem Trump framboðið hefur dregið upp um hann. Biden hefur verið í um hálfa öld í pólitík, þar af lengst í öldungadeildinni, og komið að mörgum málum á þeim langa tíma. Sú reynsla virðist vera dragbítur á honum frekar en hitt. Að sama skapi hnýtti Harris í hverju svari í Trump og reyndi hvað hún gat til að tengja hann við óáreiðanleika. Þegar hún var spurð hvort hún myndi láta sprauta sig með bóluefni þegar það kæmi svaraði hún til að mynda að ef læknar væru samhuga um að bóluefnið virkaði, yrði hún fyrst í röðinni, en ef Donald Trump segði einn að það virkaði, myndi hún ekki koma nálægt því.
Twitter ætlaði á annan endann þegar húsfluga sást sveima yfir höfði Mike Pence og lenda loks á höfði hans. Brandarakarlarnir létu til sín taka víða á internetinu og þegar flautað var til leiksloka birtust myndir af flugnaspaða merktum Joe Biden til sölu á netinu og gerði Biden sjálfur grín að stöðunni með myndbirtingu af sér og flugnaspaða.
Flugan og athyglin sem hún fékk var enn ein vísbendingin um að bandarísk stjórnmál snúa enn að mjög miklu leyti um útlit og hafa gert síðan Nixon mætti Kennedy í fyrstu sjónvarpskappræðum Bandaríkjanna.