Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að með ölvunardrykkju sé átt við að fólk drekki fimm eða fleiri drykki í einu. Munur er á milli kynjanna hvað varðar drykkju en mun fleiri karlar greina frá ölvunardrykkju og á það við um í ár og síðasta ár. Það dró þó úr drykkju karla frá janúar fram í ágúst. Hjá konum dró úr drykkju á milli ára á tímabilinu mars til júní en á þessu ári var drykkja þeirra meiri í janúar, febrúar, júlí og ágúst.
Í mars og apríl á þessu ári sögðust 46,6% karla hafa neytt fimm eða fleiri drykkja í einu á síðustu þrjátíu dögum en á sama tíma í fyrra var hlutfallið 56,6%. Hjá konum var hlutfallið 28% í ár en 37,1% á síðasta ári.
Fréttablaðið hefur eftir Valgerði Rúnarsdóttur, yfirlækni á Vogi, að minni eftirspurn hafi verið eftir áfengismeðferð á þessu ári og eigi það einnig við um nýkomufólk, sérstaklega hjá þeim sem eru undir fertugu.
Haft er eftir Valgerði að niðurstöður könnunarinnar passi vel við hennar eigin upplifun af fyrstu bylgjunni.
„Almenningur virðist vera að drekka minna og það sjáum við til dæmis á minni eftirspurn. Við vitum að hjá ákveðnum hópi einstaklinga sem eru með áfengisvanda hefur drykkja aukist en það endurspeglar ekki þjóðina,“
er haft eftir henni.