Karl og kona hafa verið ákærð fyrir alvarlega líkamsárás á fyrrverandi sambýliskonu mannins. Þau eru jafnframt sökuð um brot á barnaverndarlögum þar sem meint árás átti sér stað utandyra fyrir framan þrjú börn mannsins og sambýliskonu hans fyrrverandi.
Málið er á dagskrá Héraðsdóms Vesturlands.
Parið er sagt hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu mannsins fyrir framan þrjú börn þeirra og sambýlismann hennar. Eru þau sögð hafa rifið af henni spjaldtölvu og ráðist á hana með höggum og spörkum, sem og haldið henni nauðugri. Er hún sögð hafa verið kýld ítrekað í höfuðið og líkama, rifið hafi verið í hár hennar, og sparkað og stappað ítrekað á líkama hennar. Er árásin jafnframt sögð mjög ruddaleg gagnvart börnum fólksins sem horfðu á.
Við árásina hlaut konan kúlu á hnakka, mar á báðum upphandleggjum og báðum hnjám, klórför á hægri handlegg, rispur víðsvegar um líkamann, þreifieymsli í hálshrygg, lendhrygg, millirifjavöðvum og kvið, og verki við djúpöndun í framanverðum brjóstkassa.
Héraðssaksóknari krefst þess að parið verið dæmt til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Auk þess gerir konan einkaréttarkröfu á þau um miskabætur að fjárhæð 1 milljón króna.