fbpx
Mánudagur 13.janúar 2025
Fréttir

Jón Ívar segir að við höfum gert mistök og bendir á leiðina út úr kófinu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 6. október 2020 13:00

Jón Ívar Einarsson. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Ívar Einarsson, læknaprófessor hjá Harward-háskóla í Boston, hefði valið þveröfuga leið við þá sem yfirvöld fóru í baráttunni gegn kórónuveirunni í lok sumars. Aðgerðir á landamærum voru hertar þann 19. ágúst og slakað var á samkomubanni innanlands þann 7. september. Jón telur að halda hefði átt áfram hörðum aðgerðum innanlands en ekki taka upp frekari ferðatakmarkanir inn í landið.

Jón Ívar hefur vakið athygli fyrir greinar sínar um kórónuveirufaraldurinn í Morgunblaðinu í sumar, sem og með viðtali í Silfrinu í byrjun september. Hefur framganga hans verið umdeild en hann hefur talað fyrir vægari aðgerðum á landamærum en yfirvöld hafa gripið til. Í nýrri grein í Morgunblaðinu í dag segir Jón:

„Því miður var slakað á aðgerðum innanlands 7. september, smitstuðullinn rauk upp, og þetta olli því að þriðja bylgjan byrjaði viku seinna. Einstaklingsbundnar smitvarnir innanlands skipta nefnilega meira máli en aðgerðir á landamærum. Smit munu alltaf komast inn í landið og mikilvægasta leiðin til að hindra að þau breiðist hratt út er að hafa ekki „frjóan jarðveg“ innanlands.“

Jón telur það hafa verið mistök að slaka á aðgerðum innanlands og við það hafi smitstuðullinn rokið upp. Sóttkví á landamærum hafi jafnframt verið mistök:

„Það hafa flestir áttað sig á að það er tálsýn að halda að Ísland geti verið veirufríttland eða að það sé hægt að lifa alveg eðlilegu lífi þar til faraldurinn er yfirstaðinn. Sóttkví á landamærum skrúfaði fyrir ferðamannastraum sem slökkti lífsneistann í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Þannig hafa á undanförnum vikum verið gerð tvenn afdrifarík mistök í aðgerðum gegn Covid, þ.e.a.s. farið í mjög harðar aðgerðir á landamærum og of mikla slökun á aðgerðum innanlands. Þessi mistök hafa valdið miklu heilsufarslegu og efnahagslegu tjóni.“

Jón telur skynsamlegt að takmarka hópamyndun til langframa og halda sig við þær aðgerðir sem voru í gildi fyrir 7. september. Hann vill hins vegar slaka á aðgerðum á landamærum og leggur til heimkomusmitgát fyrir ferðamenn í stað sóttkvíar, eða fyrri sýnatöku fyrir brottför og þá seinni á landamærum:

„Varðandi landamærin, þá koma ekki ferðamenn hingað ef nýgengi smita er svona hátt. En þegar smitstuðull innanlands hefur haldist undir einum í nokkurn tíma má slaka örlítið á, þ.e.a.s. halda áfram skimun en breyta sóttkví í heimkomusmitgát. Þetta er innan meðalhófs því hætta á veldisvexti er lítil ef smitstuðull innanlands er undir 1.

Önnur leið væri að skima ferðamenn í heimalandi nokkrum dögum fyrir komu og hafa seinni skimun við komu til landsins. Þetta einfaldar ferlið á landamærum og hafa sumar þjóðir þegar tekið þetta upp.“

Jón hefur einnig orð á því hvað miklu færri hafa látist af völdum COVID-19 eftir að sjúkdómurinn náði sér aftur á strik í stórauknum smitum víða um heim. Telur hann það vera verðugt rannsóknarefni. Hann telur líka að yfirvöld eigi að draga úr ótta almennings við COVID-19 og beina athyglinni að öðrum hættulegum sjúkdómum sem hafa staðið í skugganum af COVID undanfarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja