Haraldur Örn Erlendsson geðlæknir segir rannsóknir á notkun virka efnisins í sveppum og LSD lofa mjög góðu. Þetta kom fram í viðtali við Harald í þættinum Harmageddon á Xinu 97.7 í morgun.
Haraldur sagði geðlæknasamfélagið allt vera að sinna fólki með ýmsa kvilla. „Það sem er sameiginlegt eiginlega öllum sem lenda í þessum vandræðum, er að þau eigi erfitt með að vinna úr hlutunum. Það er þessi hópur sem lendir í klandri með að vinna úr hlutunum, honum gæti gagnast þessi efni vel,“ sagði Haraldur og benti á að svo virðist sem það verði alveg ný tegund af ræsingu í heilanum sem aðstoði hluta heilans að „vinna saman á ný.“ „Menn tengjast við fleiri þætti í sjálfu sér, og tengjast betur öðrum og umhverfinu og alveg niður í það að finna einhverskonar andlega reynslu,“ sagði hann.
Kom þá fram í þættinum að rannsóknir á virkni þessara efna hafi hafist fyrir hálfri öld, en að rannsóknirnar hafi stöðvar við upphaf „stríðsins gegn fíkniefnum,“ í Bandaríkjunum. Haraldur svaraði því að lyfin hafi á fyrri árum verið á opnum markaði og menn hafi á þeim árum verið að þreifa sig áfram hvað varðar meðferð við þunglyndi og kvíði. Haraldur tekur undir sögutúlkun þáttastjórnanda og segir að klínísk vinna tengd þessum efnum hafi farið út í kuldann á þessum tíma. Hún hafi ekki hafist aftur fyrr en mjög nýlega.
Á síðustu 10 árum eða svo hafa svo þúsundir rannsókna verið gerðar á þessum efnum og sagði Haraldur að svo virðist sem að viðfangsefnið hafi farið úr því að vera bannað yfir í að vera „það sem er mest í tísku að rannsaka í dag.“ Aðspurður hverju hægt sé að þakka að þessar rannsóknir hafi „komist aftur í tísku,“ segist Haraldur ekki vita afhverju það sé, en bendir á að aukið frjálslyndi í hugsunarhætti almennings sé hugsnalega að þakka. Haraldur segir jafnframt að mannkyninu hafa gengið illa að vinna bug á algengum kvillum eins og þunglyndi og kvíða og er svo að skilja að þeir erfiðleikar hafi ef til vill ýtt mönnum í átt að óhefðbundnari lausnum.
Haraldur bendir á að efnin sem um ræðir, Psilocybin, LSD og fleiri séu ekki fíkniefni, þau kveiki ekki á fíknivökum. „Menn hafa verið að bera saman Psilocybin og LSD og heróin saman, en staðreyndin er sú,“ sagði Haraldur, „að te og kaffi eru meira ávanabindandi en Psilocybin og LSD.“
Psilocybin og LSD er þannig hvorki fíkniefni né hættulegt, að hans sögn. „Það sem þau gera er að þau vekja upp það sem þú ert hræddastur við, svo það er varla hægt að segja að þetta sé eitthvað svakalega eftirsóknarvert.“ Haraldur segir að ekki hafi verið sýnt fram á með neinum hætti að þetta sé hættulegt. Ljóst er að eiturefnin í sveppum, til dæmis, séu það væg að það myndi þurfa mörg kíló af sveppum til þess að ná upp í það magn sem getur reynst líkama hættulegt.
Haraldur hefur starfað sem geðlæknir í 20 ár. Aðspurður hvort þetta gæti orðið næsta byltingin í geðheilbrigðismálum svarar Haraldur: „Í okkar fagi eru kannski tvö skref sem eru stærstu skrefin í þróun geðlækninga. Fyrst fyrir 200 árum síðan af manni sem var að dáleiða fólk og reka út illa anda. Frá honum komu aðferðir sem Freud og ýmsir aðrir tóku upp og ollu mikilli byltingu sem lagði grunninn að því sem við köllum sálfræðileg meðferð í dag. Svo upp úr 1950, þegar menn voru að gefa ofnæmislyf sem róandi lyf fyrir aðgerðir, kom fyrir tilviljun í ljós að maður í geðrofi varð svona miklu betri eftir að hafa fengið þau lyf. Upp úr því verður bylting í að þróa lyf sem virkar á dópamín og seratónin stöðvar heilans. […] Við því komu lyf sem virkuðu við geðhvörfum, þunglyndi, kvíða og fleira.“
Haraldur bendir á að í gamla daga voru þeir sem voru alvarlega veikir inná hælum, en það sé nú liðin tíð, „eiginlega horfið.“ Haraldur vill meina að þriðji stóri bautasteininn gæti hugsanlega verið notkun á þessum Psilocybin og LSD efnum. Þessu til stuðnings bendir hann á að gríðarlegt magn rannsókna hafa þegar farið fram og segir að á næstu 2/3 árum gæti fjöldi rannsókna orðið nægilegur til þess að hægt verði að fara að markaðssetja þessi lyf sem meðferðarlyf við geðrænum kvillum. Eftir standi þó að lyfin eru ólögleg, sem hamli þróun með margvíslegum hætti.
Haraldur mun halda erindi um þessi mál á málþingi Landssamtakanna Geðhjálpar, „Liggur svarið í náttúrunni,“ sem fram fer í sal Íslenskrar erfðagreiningar. Frekari upplýsingar um málþingið má nálgast í Facebook færslu þess hér að neðan.