Maður sem er mjög virkur í samfélagi íslenskra pókerspilara og er góður kunningi Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf í Dublin í fyrra skömmu eftir pókerspil á hóteli þar, segir að kenning sem viðruð er um afdrif Jóns í írska blaðinu Independent sé bull.
Í írsku fréttinni segir að íslenskum lögregluyfirvöldum hafi verið tilkynnt að Jón hafi verið myrtur „af slysni“ af öðrum Íslendingi. Sagt er að það hafi gerst í kjölfar þess að mennirnir rifust vegna eyðslu á spilapeningum. Segir í fréttinni að maður sem situr í fangelsi hér á Íslandi hafi spilað lykilhlutverk í að koma þessum upplýsingum til lögreglu.
Lögreglunni á Íslandi hafi verið gert viðvart um að Jón hafi tekið þátt í ólöglegum pókerleik á föstudagskvöldinu og tapað þar meira en 4 þúsund evrum, eða um 650 þúsund íslenskum krónum. Þessir peningar hafi verið í eigu íslensks glæpamanns.
Þessar 4 þúsund evrur áttu að fara í fleiri leikmenn en sagt er að Jón hafi keypt sig inn í einn stóran leik og tapað öllum peningnum. Þá er einnig sagt að Jón hafi reynt að fara úr leiknum þegar hann byrjaði að tapa en hafi ekki verið leyft það. Þegar Jón hafi farið út af hótelinu morguninn eftir að hann tapaði peningnum sé talið að hann hafi farið að hitta manninn sem átti peninginn sem hann tapaði kvöldið áður. Hafi síðan komið til átaka milli þeirra.
DV bar þessar upplýsingar undir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjón hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sagði hann í samtali við DV að að málið væri á forræði írskrar lögreglu og íslensk lögregla muni því ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Hann staðfesti þó að ýmsar upplýsingar hafi verið skoðaðar í tilraunum lögreglu til að finna út um afdrif Jóns.
„Það voru engir glæpamenn í þessari ferð. Við komum að vísu daginn eftir að hann hvarf og tókum þátt í þessu móti sem hann var að fara að taka þátt í og það voru engir glæpamenn í hópnum,“ segir maður sem vill ekki láta nafns síns getið en þekkir bæði vel til pókerheimsins og til Jóns.
„Það fóru 10 til 14 Íslendingar á þetta pókermót og það var enginn í þeim hópi sem tengist glæpum. Ég hef spurst fyrir og enginn kannast við að hafa orðið var við íslenska glæpamenn í ferðinni. Þetta voru yfirleitt ungir krakkar sem fóru á þetta mót, við fórum saman út að borða allur hópurinn og það var enginn glæpamaður í hópnum eða einhver tengdur undirheimum. Það er líka bull og vitleysa að hann hafi verið neyddur til að spila áfram, það er enginn neyddur til að spila áfram þarna.“
Maðurinn segir einnig fráleitt að Jón hafi getað tekið þátt í ólöglegu pókerspili á þessum stað en hann spilaði eingöngu á hótelinu nóttina áður en hann hvarf, tveimur dögum áður en hið eiginlega pókermót hófst, og mun hann hafa tekið þátt í einhverjum undanmótum þessa nótt. „Þetta er fyrirtæki sem sér um pókermót alls staðar úti í Evrópu og eitt af mótunum var í Dublin. Síðan eru lítil hliðarmót á undan því og eftir en það eru engin ólögleg pókerspil í gangi.“
Maðurinn segir að allir spilararnir hafi haldið sig allan tímann á hótelinu enda um kortersgangur þaðan niður í miðbæ. Allt í tengslum við pókerspilið hafi farið fram á hótelinu. Segir maðurinn að frásögn ónefnds sakamanns sem sitji í fangelsi á Íslandi hljómi fráleit. Það sé líka mjög undarlegt að sá maður hafi haft samband við þriðja aðila (einkaspæjara) sem átti að flytja upplýsingarnar til fjölskyldu Jóns, hvers vegna hafi hann ekki bara haft samband við lögregluna?
„Það eru líka engir ólöglegir spilaklúbbar í Dublin sem þú getur bara fundið sisvona. Það getur vel verið að eitthvað slíkt sé til þarna en þú finnur það ekki á einu kvöldi,“ segir maðurinn og telur útilokað að Jón hafi getað tekið þátt í ólöglegu pókerspili á hótelinu eða í borginni yfirleitt innan þessa tímaramma.
Maðurinn segir einnig útilokað að Jón hafi komist inn á spilavíti í borginni eftir að hann rauk út af hótelinu því hann hafi skilið vegabréfið sitt eftir og verið án skilríkja. Vegabréfslaus komist maður ekki inn á spilavíti í Dublin.
Eins og DV greindi frá í fyrrasumar telur móðir Jóns Þrastar, Hanna Björk Þrastardóttir, að Jón hafi svipt sig lífi í kjölfar rifrildis við unnustu sína, Jönu Guðjónsdóttur. Hún kom á hótelið eldsnemma morguns og vakti Jón sem var drukkinn og vansvefta eftir spil og drykkju næturinnar. Skömmu eftir að hún kom á staðinn fór Jón út af hótelinu og hefur ekki sést síðan.
„Ég þekki Jón ágætlega og hef verið að spila lengi með honum í spilaklúbbum í Reykjavík. Þetta er einhver yndislegasti drengur sem ég þekki, hann æsir sig aldrei og skiptir ekki skapi. Ef hann á að hafa gert þetta þá hefur verið eitthvert rosalega vel falið þunglyndi að baki.“ – Bendir hann á að enginn sjór sé í næsta nágrenni og það þurfi að aka í bíl í hálftíma til að komast að sjó. „Dublin er sýkjaborg en ekki hafnarborg,“ segir hann, en Dublin er þó skilgreind sem hafnarborg.
„Þetta svæði er þekkt fyrir sprautufíkla og krakksjúklinga. Mig grunar að hann hafi lent á vitlausum stað á vitlausum tíma og einhver hafi reynt að ræna hann,“ segir maðurinn sem telur að Jón hafi verið drepinn af fíkli í hverfinu og vonar hann að lík hans finnist þar fyrr eða síðar.
„Ég trúi því ekki að hann hafi tekið eigið líf. Og miðað við hvernig persónuleiki hann er þá hefði hann aldrei gert slíkt þarna, við þessar aðstæður, og skilið alla eftir í óvissu.“
Loks segir maðurinn að upphæðin sem Jón á að hafa tapað, andvirði um 650 þúsund íslenskra króna, sé óveruleg upphæð fyrir spilara á pókermótum, þeir geri ráð fyrir að geta tapað slíkum upphæðum.