Margrét Friðriksdóttir frumkvöðlafræðingur hefur verið ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni. Er henni gefið að sök að hafa sparkað í vinstri kálfa lögreglumanns við skyldustörf á heimili hennar sumarið 2019. Áverkavottorð lögreglumannsins sem Margrét hefur sent DV leiðir í ljós að engir áverkar eða ummerki um árás voru á lögreglumanninum eftir atvikið. Segir í vottorðinu að hann finni fyrir vægum verk en geti gengið óhindrað. Ekki sjáist mar á kálfanum og engin eymslu séu við þreifingu.
„Þetta er svo mikið bull og þvæla og í raun níðingsskapur af hálfu lögreglunnar og héraðssaksóknara,“ segir Margrét og segir ákæruvaldið hafa breytt máli sem er í raun fjölskylduharmleikur í líkamsárásarmál að ósekju.
Texti ákærunnar er örstuttur en þar segir að Margrét sé ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa á heimili sínu sparkað í kálfa á vinstri fæti lögreglumanns sem var við skyldustörf með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið mjúkvefjaáverka á kálfanum.
Skömmu eftir atvikið fór Margrét í áfengismeðferð og viðurkennir hún að hafa verið ofurölvi þetta kvöld. Hún hafi hins vegar ekki verið í neinu ástandi til að sparka í nokkurn mann og um það vitni dóttir hennar. Árásin á að hafa átt sér stað inni í eldhúsi en Margrét segir að dóttir hennar hafi verið þar allan tímann og ekki séð neitt slíkt til hennar.
Þetta kvöld drakk Margrét romm á fastandi maga með slæmum afleiðingum. Hún hafi ekki verið vön að drekka sterkt áfengi á þessum tíma þó að hún hafi átt við ofdrykkjuvandamál að stríða sem hún tók á og er laus við í dag. Þegar dóttir hennar kom heim um miðnætti frá handboltamóti í Svíþjóð sá hún móður sína ofurölvi og ósjálfbjarga, hún datt hvað eftir annað í gólfið og gat ekki gert sig skiljanlega.
Margrét segir að dóttir hennar hafi óttast um sig og þess vegna hafi hún hringt í Neyðarlínuna og beðið um sjúkrabíl.
„Þeir ljúga svoleiðis af sér rassgatið,“ segir Margrét um framburð lögreglu í skýrslutökum vegna málsins, en þar sé staðhæft að dóttirin hafi hringt á lögreglu. „Ég fékk afrit af símtalinu og hún biður tvisvar um sjúkrabíl en aldrei um lögreglu,“ segir Margrét. „Hún hringdi eftir sjúkrabíl en hingað komu hins vegar lögregluþjónar á lögreglubíl og svo kom varðstjórinn á sínum eigin bíl,“ segir Margrét.
Inni í íbúðinni spurðu lögreglumennirnir dótturina út í ástand Margrétar. Segir Margrét að mitt í þessu hafi hún klætt sig úr peysu vegna þess að henni var heitt og það hafi verið lögreglumönnunum tilefni til að ráðast á sig, handtaka og fara með sig í fangageymslu. Dóttur hennar hafi verið mjög brugðið því hún hafi verið að hringja eftir hjálp fyrir móður sína.
„Ég svaf úr mér í fangaklefa. Þegar ég vaknaði var minnið mjög gloppótt. Ég spurði hvers vegna ég væri þarna og þeir voru dónalegir við mig, svöruðu mér þurrlega að ég hefði verið handtekin fyrir ofbeldi gegn valdstjórninni,“ segir Margrét.
Margrét átti hins vegar mjög góð samskipti við lögregluyfirvöld í kjölfar atviksins og er því mjög sár yfir því að fá þessa ákæru núna sem hún telur vera tilefnislausa. „Það var í rauninni lögreglan sem kom mér í meðferð. Ég hélt að þeir væru að hjálpa mér og þess vegna er mjög sárt að fá þetta í bakið,“ segir Margrét sem vonast eftir því að málið verði fellt niður eða því vísað frá.