Öll spjót hafa staðið á Donald Trump eftir bíltúr sem hann tók til að heilsa fólki sem safnast hafði saman fyrir utan Walter Reed hersjúkrahúsið í Bethesda, úthverfi Washingtonborgar. Sáust leyniþjónustumenn í bílnum með grímu sitja innan við metra frá forsetanum, sem greindist með Covid-19 um helgina.
Þótti mörgum forsetinn setja leyniþjónustumennina í óþarfa hættu með því að draga þá með sér í bíltúr sem flestum fannst óþarfur.
Í dag birtust svo fréttir í miðlum vestanhafs þar sem haft er eftir leyniþjónustumönnum að þeir séu reiðir. Segja þeir jafnframt að atvikið hafi aldrei átt að eiga sér stað.
Þá hefur The Washington Post eftir einum í leyniþjónustunni að „hann er ekki einu sinni að þykjast vera ekki sama lengur.“ The Hill sagði svo frá því í dag að enn fleiri hafi stigið fram, nafnlaust. Ásaka þeir forsetann um að setja lífverði sína í óþarfa hættu með athæfi sínu. „Þetta átti aldrei að gerast,“ sagði svo enn annar við CNN.
The Hill segir að leyniþjónustufulltrúar megi neita að taka þátt í athæfi sem leggja líf forsetans í hættu, en ekki ef það leggur líf þeirra í hættu. Það er jú þeirra starf.
Afar fátítt er að leyniþjónustumenn tjái sig um sín daglegu störf, meiri að segja án þess að nafn þeirra sé getið. Raunar hefur nafn leyniþjónustunnar Secret Service, oft þótt nokkuð lýsandi um starfsemi hennar. Það á sérstaklega við um þann hluta leyniþjónustunnar sem sér um lífvörslu forsetans og fjölskyldu hans.
CNN hafði einnig eftir öðrum fulltrúa í leyniþjónustunni bandarísku: „Ég hef fylgst með fréttum í dag og það er alveg fáránlegt að segja að forsetinn sé að reyna að drepa okkur,“ sagði fulltrúinn. „Hann er óhefðbundinn, en við klárum okkar verkefni.“
Hvernig sem leyniþjónustunni líður, er ljóst að athæfi forsetans vakti mikla hneyklsan í Bandaríkjunum á sama tíma og hann virtist vera að sanka að sér samúð kjósenda. Ljóst er að svo til ógerlegt er að spá fyrir um langtíma áhrif Covid smits forsetans og tengdra atburða, enda Donald Trump pólitískt ólíkindatól. Hinsvegar má með sanni segja að smit forsetans og eiginkonu hans, Melaníu, hefur sett Covid á kortið og er það svo til það eina sem nú er rætt um í fjölmiðlum vestanhafs. Það gæti skemmt verulega fyrir kosningabaráttu forsetans.