Í fyrramálið (þriðjudagsmorguninn 6. október) verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sakamál á hendur Þorláki Fannari Albertssyni fyrir tilraun til manndráps með hnífi. Þorlákur er tæplega 34 ára gamall og dvelst á Litla-Hrauni.
Árásin á að hafa átt sér stað þann 15. júní í sumar, á Langholtsvegi, og er Þorlákur sagður hafa ráðist á konu með löngum hnífi og reynt að stinga hana í höfuð og líkama. Í ákæru segir að Þorlákur hafi veist að konunni með hnífnum „og ítrekað gert tilraun til að stinga hana í höfuð og efri hluta líkama, en hún náði að verjast árásinni með því að bera fyrir sig hendur og fótlegg, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut 3 cm skurð yfir kjálkabeininu hægra megin, 7 cm skurð undir hægra viðbeini, 5 cm skurð þvert yfir miðju bingubeins, 5 cm skurð framan á vinstri upphandlegg, 1 cm skurð á fingurgóma vinstri þumals, 3,2 cm djúpan skurð á efri hluta vinstra læris, 2,2 cm djúpan skurð fyrir ofan vinstra hné og 7 cm djúpan skurð á hægri hendi.“
Þess er krafist að Þorlákur verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Auk þess gerir konan einkaréttarkröfu á hann upp á samtals tæplega 5,4 milljónir króna, annars vegar í miskabætur og hins vegar vegna sjúkrakostnaðar, sérfræðikostnaðar og atvinnutjóns.