fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fréttir

Mótmæli við einkaheimili ráðherra á Íslandi aldrei haft ætlaðan árangur – Fjölskyldan varð óttaslegin

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 4. október 2020 10:00

Mótmæli á Íslandi heyrðu til undantekninga fram til ársins 2008. mynd/Daníel

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mótmæli við heimili ráðherra eru óalgeng hér á landi en verða þó. Hingað til hafa þau grafið undan málstað mótmælenda og aukið samúð með þeim sem mótmælin snúa að.

Í síðustu viku sagði DV frá því að mótmælendur hefðu límt myndir af börnum sem Útlendingastofnun hafði synjað um dvalarleyfi í anddyri fjölbýlishúss í Reykjavík þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra býr. Mótmælin virðast hafa haft þveröfug áhrif við það sem var ætlað. Viðbrögðin við frétt DV voru nokkuð afgerandi og virðist fólk taka þá stefnu að heimili sé friðhelgt, líka heimili ráðherra.

Íslendingar hafa frá bankahruni kynnst mótmælum af allt öðru kalíberi en áður. Mótmælt var nokkuð kröftuglega á árunum 2008-2010. Hófust þau kynni þegar vörubílstjórar mótmæltu hækkandi bensínverði. Lokuðu mótmælendur meðal annars Suðurlandsvegi í eitt skipti og kom til átaka við lögreglu. Mótmælin urðu reyndar afdrifarík fyrir aðra en mótmælendur og lögreglumenn. Í beinni útsendingu af mótmælunum heyrðist í Láru Ómarsdóttur fréttamanni biðja mótmælendur um að endurtaka eggjakast í lögreglu svo hún gæti náð því á mynd fyrir sjónvarpsútsendingu. Atvikið kostaði Láru starfið.

Mótmælin lögðu að mörgu leyti grunn að því sem koma skyldi.

Stigvaxandi harka

Fljótlega eftir gjaldþrot og ríkisvæðingu bankanna þriggja í október 2008 fór fólk að hópast saman og mótmæla hvernig komið var fyrir efnahagslífi þjóðarinnar. Mótmælin áttu eftir að stigmagnast dag frá degi. Í nóvember voru mótmælendur orðnir fjögur þúsund. 8. nóvember klifraði einn mótmælandi upp á Alþingishúsið og dró Bónusfána að hún. Mótmælendur komu í veg fyrir að lögregla gæti handtekið manninn.

Hægt og rólega jókst harkan í mótmælendum og beindist reiði þeirra ekki síst að persónum í ráðherraembættunum. Þessi reiði beindist líklega einna helst að Geir H. Haarde forsætisráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra, og Davíð Oddssyni seðlabankastjóra.

Bankahrunið var ekki eini hvatinn að mótmælum á þessum tíma. Árið 2009 birtust mótmælendur utan við heimili Rögnu Árnadóttur, sem var þá utanþingsráðherra í vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Mótmælendur mótmæltu þá brottvísun hælisleitenda frá Íslandi. Á sama tíma var mótmælt við heimili Hauks Guðmundssonar þáverandi forstjóra Útlendingastofnunar.

Friðhelgi heimilisins rofin

Fljótlega eftir útgáfu rannsóknarskýrslu Alþingis þann 12. apríl 2010 birti visir.is fréttina „SMS-mótmæli fyrir utan heimili Þorgerðar Katrínar“. Í dag hefði Facebook gegnt hlutverki SMS í að boða mótmælendur á staðinn.

Var það fyrsta frétt sem sögð var af nokkuð háværum mótmælum utan við heimili Þorgerðar og Kristjáns Arasonar eiginmanns hennar. Beindist reiðin að viðskiptasögu eiginmanns Þorgerðar, en lán sem félag í eigu Kristjáns hafði tekið vegna hlutabréfaviðskipta voru afskrifuð.

Brutu mótmælin utan við heimili Þorgerðar blað í íslenskri mótmælasögu og upp vöknuðu spurningar um hvort rétt væri að blanda saman persónulegu lífi ráðherrans, friðhelgi heimilis hans og fjölskyldu hans, og embættisfærslum. Mótmælendur gengu mjög hart að Þorgerði Katrínu og virðist vel hægt að færa rök fyrir því að samúð almennings hafi fallið með Þorgerði í málinu vegna hörku mótmælenda. Skuldaafskriftum Kristjáns Arasonar og Þorgerðar var ekki mótmælt aftur af svo miklum krafti. Þorgerður Katrín sagði af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum síðar í aprílmánuði 2010. Í viðtali í Fréttablaðinu árið 2018 sagði Þorgerður að mótmælin fyrir utan heimili hennar átta árum áður hefðu verið „ein af allra sárustu stundunum“. „Það var verið að eggja húsið, við vorum að reyna að fara út áður en börnin og nágrannar vöknuðu til að hreinsa. Passa upp á allt fyrir börnin. Það var alltaf það sem maður var að gera, passa að daglegt líf barnanna breyttist ekki,“ sagði Þorgerður jafnframt í viðtalinu.

Sama dag og Þorgerður Katrín sagði af sér fóru mótmælendur að birtast við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og fjölskyldu hennar. Þau mótmæli áttu eftir að standa svo til óslitin í fimm vikur, eða til 24. maí. Steinunn var á þessum tíma fyrrverandi borgarstjóri og þingmaður Samfylkingarinnar. Hún hafði sér til saka unnið að þiggja styrki frá Baugi og FL Group.

Mótmælunum utan við heimili Steinunnar var seinna lýst sem „smánarbletti á íslenskri stjórnmálasögu“ af Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi þingmanni Pírata. Birgitta var sjálf mjög virk í skipulagningu mótmælanna í kjölfar hrunsins. Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór Þórðarson þáðu einnig nokkuð háa styrki frá þessum fyrirtækjum. Mótmælt var fyrir utan heimili þeirra beggja af nokkrum krafti.

Eftirmálum „hrunsins“ var svo víða og oft mótmælt. Þannig brutust út mótmæli við Stjórnarráðið og Seðlabankann þegar Hæstiréttur hafði fellt dóm um ólögmæti gengistryggðra lána. Við tóku háværar deilur um hvaða vexti miða skyldi við í kjölfarið. Til smávægilegra pústra kom milli mótmælenda og lögreglu þann 6. júní 2010 þegar því var mótmælt að ekki skyldi miða við samningsvexti á þeim lánum. Í júlí það ár skvettu mótmælendur málningu á húsakynni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Hverfisgötu, og grýttu svo ráðherra og þingmenn er þeir gengu til guðsþjónustu við þingsetningu 1. október. Ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar fylgdu svo fast á eftir, en 4. október tókst mótmælendum að trufla stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Mótmæli við heimili ráðherra eru óalgeng hér á landi en verða þó. Hingað til hafa þau grafið undan málstað mótmælenda og aukið samúð með þeim sem mótmælin snúa að.

Mótmæli við heimili Bjarna vöktu reiði

Árið 2016 birtust svo mótmælendur fyrir utan heimili Bjarna Benediktssonar. Krafðist hópurinn þess að boðað yrði til kosninga strax. Steinunn Valdís fordæmdi mótmælin og hvatti engan til þess að mæta. Eins sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, að hugmyndin væri hræðileg og að „ráðherra ætti rétt á því að geta verið í friði heima hjá sér“. Eins sagði Gunnar Sigvaldason, eiginmaður Katrínar Jakobsdóttur formanns VG, í ítarlegri færslu á Facebook að hann og eiginkona hans hefðu lent í aðstæðum sem þessum. Þar hefði fjölskyldan „orðið óttaslegin“ og „alls konar fólk“ komið óboðið heim til þeirra. Að mótmæla fyrir utan heimili fjölskylduföðurins Bjarna Benediktssonar „væri einfaldlega rangt“.

Öll tilfelli mótmæla við heimili ráðherra, þingmanna og annarra embættismanna hafa fallið um sjálf sig. Þau hafa án undantekninga dregið athygli frá málstað mótmælenda og úr samúð almennings með honum. Þvert á móti hafa mótmælin svo aukið samúð með persónu ráðherrans, sem virðist svo hafa smitast í embættisstörf hans, enda skilin á milli persónu og embættismannsins oft óljós.

Þessi frétt birtist fyrst í helgarblaði DV. Fyrir upplýsingar um áskrift má senda tölvupóst á askrift@dv.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Ráðgjafi Trump segir að Zelenskyy verði að sætta sig við að Krímskagi sé tapaður

Ráðgjafi Trump segir að Zelenskyy verði að sætta sig við að Krímskagi sé tapaður
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Eftirlýstur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins dregur sig í hlé

Eftirlýstur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins dregur sig í hlé
Fréttir
Í gær

Leigusali í Grindavík ofrukkaði leigjandann eftir hamfarirnar

Leigusali í Grindavík ofrukkaði leigjandann eftir hamfarirnar
Fréttir
Í gær

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt
Fréttir
Í gær

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“
Fréttir
Í gær

Sá sjálfur um lagnirnar og er sakaður um dómgreindarleysi, hroðvirkni og vanrækslu – Þarf að greiða kaupandanum tæpar 15 milljónir

Sá sjálfur um lagnirnar og er sakaður um dómgreindarleysi, hroðvirkni og vanrækslu – Þarf að greiða kaupandanum tæpar 15 milljónir
Fréttir
Í gær

Fangi lést á Litla Hrauni í dag

Fangi lést á Litla Hrauni í dag