„Frábær standard á þessu alveg hreint,“ sagði nemandi við Háskóla Íslands eftir að hafa horft á fyrirlestur Freydísar. Nokkur atriði í fyrirlestrinum vöktu upp spurningar hjá nemandanum sem tjáði sig um málið á samfélagsmiðlinum Twitter. Það fyrsta sem nemandinn nefndi var að Freydís talaði um að kynhneigð væru oft flokkuð í þrjá flokka, gagnkynhneigð, samkynhneigð og tvíkynhneigð.
Ástæðan fyrir því að þetta vakti athygli nemendans er líklega sú að undanfarið hefur umræða um kynhneigðir verið öðruvísi, talað er um að kynhneigðir séu mun fleiri.
Annað sem vakti athygli nemendans var að Freydís talaði um áhrif streitu mæðra á meðgöngu. „Þegar mæður upplifa mikla streitu á miðjumánuðum meðgöngu þá er líklegra, ef að um karlkyns fóstur er að ræða, að það verði samkynhneigt,“ sagði Freydís í fyrirlestrinum sem um ræðir.
Þá vakti það einnig athygli nemendans að Freydís hafi sagt að flestir „stelpulegir“ strákar verði samkynhneigðir. „Ein rannsókn sýndi að stór hluti drengja sem voru álitnir stelpulegir á barnsaldri verða samkynhneigðir eða 75% þeirra,“ sagði Freydís.
Ekki náðist í Freydísi við gerð fréttarinnar sem birt var fyrr í dag. Eftir að fréttin var birt hafði hún samband við DV og benti á athugasemd sína undir fréttinni. Hún vildi þó ekki ræða málið frekar við DV. „Í þessum fyrirlestri var verið að fjalla um rannsókn á upplifunum samkynhneigðra,“ segir Freydís í athugasemdinni og útskýrir mál sitt.
„Fjallað var um það í upphafi fyrirlestursins að Alfred Kinsey hafi komið með þá tilgátu um miðja síðustu öld eftir umfangsmiklar rannsóknir að kynneigð lægi á skala fremur en að vera í flokkum eða allt frá því að vera alveg gagnkynhneigður og til þess að vera alveg samkynhneigður en það var um miðja síðustu öld. Önnur viðamikil rannsókn var nefnd sem gerð var árið 1993 þar sem verið var að endurtaka þessa rannsókn Kinseys.En þessi rannsókn hefur ekki verið endurtekin síðan,“ segir Freydís.
Þá segist Freydís ekki hafa verið að útiloka aðrar kynhneigðir þrátt fyrir að hún hafi sagt að þær væru flokkaðar í þrjá flokka. „Í þessum fyrirlestri var ekki verið að útiloka aðrar kynhneigðir heldur voru þær einfaldlega ekki umfjöllunarefni í þessum fyrirlestri þar sem þær tengdust ekki viðfangsefni þeirrar rannsóknar sem ég hafði unnið,“ segir hún.
„Aðrar rannsóknir sem nefndar voru eru rannsóknir sem vitnað er í í nýjustu útgáfu í kennslubók í sálfræði og aðrar nýlegar rannsóknir. Þær benda til þess að erfðir annars vegar og streituþættir á miðjutímabili meðgöngu hins vegar geti haft áhrif á kynhneigð.
Einnig hefur komið fram að taugakerfi samkynhneigðra karla og gagnkynhneigðra kvenna er líkt sem og taugakerfi samkynhneigðra kvenna og gagnkynhneigðra karla. Ný rannsókn sýnir raunar samskonar niðurstöður varðandi transbörn. Þau börn eru þannig líkari því kyni sem þau samsama sig með fremur en því líffræðilega kyni sem þau hafa fengið úthlutað,“ segir hún.
„Fræðsla er til þess fallin að draga úr fordómum og því var komið inn á þessar rannsóknir.“