Mörgum kann að þykja bandaríska kosningakerfið undarleg smíð. Það er torskilið en skýringar á flóknu eðli þess má finna í sögu þess. Sagan skýrir kerfið, kerfið skýrir flokkana og flokkarnir skýra fólkið.
Aðeins er rétt rúmur mánuður til forsetakosninga í Bandaríkjunum og ljóst að kosningabaráttan er þegar orðin sú litríkasta sem fram hefur farið. Bandarísk stjórnmál eru mikið til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum og áhugi Íslendinga á þeim mikill. Það sýndi sig best í því að þúsundir Íslendinga vöktu fram eftir nóttu á þriðjudaginn til að fylgjast með kappræðum forsetaframbjóðendanna Donalds Trump og Joes Biden. Kappræðurnar stóðu undir væntingum. Lýsingu CNN á kvöldinu verða ekki gerð góð skil nema á móðurmálinu: „Shitshow.“
Mörgum kann að þykja bandarísk stjórnmál furðuleg framkvæmd. Að 350 milljóna manna þjóð sé á fjögurra ára fresti soðin niður í tvo einstaklinga í margra mánaða löngu ferli sem lýkur svo daginn eftir fyrsta mánudag fjórða hvers nóvembermánaðar. Svo þykknar súpan enn frekar þegar það gerist, til dæmis árið 2016, að frambjóðandi sigrar án meirihluta atkvæða.
Í þessu, eins og svo mörgu öðru, er svarið að finna í sögunni. Sagan útskýrir kosningakerfið, kosningakerfið útskýrir tveggja flokka kerfið, og tveggja flokka kerfið útskýrir frambjóðendurna.
Bandaríkin eru stofnuð á veikum grundvelli. Fyrstu 200 árin var fleira sem sundraði ríkjunum en sameinaði þau. Raunar má segja að tungumálið og gjaldmiðillinn hafi verið það eina sem fyrstu 13 ríkin áttu sameiginlegt. Þau byggðu á gjörólíkum efnahagslegum grunni, lífið þar var gjörólíkt, það sem mestu skipti, sýn þeirra á lögmæti þrælahalds var gjörólík. Fyrstu ríkin voru 13, táknuð á bandaríska fánanum sem 13 hvítar og rauðar rendur. Þau ríki komu sér saman um að lýsa yfir sjálfstæði 1776 og sameiginlega stjórnarskrá 1888.
Stjórnarskráin var niðurstaða þriggja mikilvægra málamiðlana milli norður- og suðurríkjanna. Allar snéru þær með einum eða öðrum hætti að þrælahaldi. Tryggja þurfti valdajafnvægi milli landshlutanna og stórra og smárra ríkja og þótti því ótækt að ríkin hefðu jafnt atkvæðavægi. Hins vegar gátu ríkin ekki komið sér saman um hlutfallslegt atkvæðavægi ríkjanna á þinginu heldur. Niðurstaðan varð sú að skipta þinginu í tvær deildir. Fulltrúa- og öldungadeild. Ríki fengi þannig úthlutað fulltrúum í neðri deild eftir íbúafjölda en fjöldi fulltrúa í efri deild var festur í tveimur á hvert ríki, óháð stærð þess. Til þess að frumvarp verði að lögum þurfa báðar deildir að samþykkja það.
Önnur málamiðlunin snéri að framkvæmd manntals sem undirstöðu úthlutunar þingsæta. Suðurríkin óttuðust að fjöldi „frjálsra“ í norðrinu, sérstaklega Massachusetts og Pennsylvaníu, myndi yfirgnæfa fjölda „frjálsra“ í suðrinu. Niðurstaðan var að telja „aðra“ sem þrjá fimmtu af heilum, frjálsum manni. Hér var bersýnilega átt við svarta þræla í suðurríkjunum, en þeir voru um 40 prósent af íbúum ríkjanna.
Þá var það fest í stjórnarskrá að kjósa skyldi daginn eftir fyrsta mánudag nóvembermánaðar. Þetta þótti hæfilegur tími fyrir „frjálsa eignarmenn“ að kjósa. Mánudagar þóttu ótækir í gamla landbúnaðarsamfélagi Bandaríkjanna.
Það var aldrei ætlun höfunda stjórnarskrárinnar að búa til sterkan þjóðhöfðingja. En það var niðurstaðan engu að síður. Í kosningakerfinu sem stuðst er við þegar þjóðhöfðinginn er valinn eimir hins vegar enn af þeirri hugsun að verið sé að velja sameiningartákn ríkjanna, en ekki þjóðarinnar. Því var sú leið valin að kjósa forseta óbeinni kosningu. Kjörmenn skyldu valdir af ríkinu, og eftir atvikum íbúum þess í kosningum. Fyrstu áratugina voru það ríkjaþingin sem völdu fulltrúana. Kosningarnar 1880 voru fyrstu kosningarnar þar sem allir kjörmenn voru kosnir í þeirri mynd sem það er í dag.
Samkvæmt upphaflegum bollaleggingum stjórnarskrárhöfunda átti kosningakerfið að virka svo að hver kjörmaður fengi tvö atkvæði og mætti því velja tvo menn. Sá maður sem fengi flest atkvæði yrði forseti og sá næsti varaforseti. Ef kjörmannakerfið klikkaði skyldi öldungadeildin velja varaforseta og fulltrúadeildin velja forseta. Það er í raun enn þannig í dag.
Öldungadeildarþingmenn eru kjörnir til sex ára og er kosið um þriðjung sætanna á tveggja ára fresti. Þeir eru samtals 100, tveir frá hverju ríki. Kjördæmi öldungadeildarinnar er hvert ríki fyrir sig í heild sinni. Fulltrúadeildarþingmenn eru kjörnir samkvæmt kjördæmaskiptingu hvers ríkis fyrir sig til tveggja ára í senn. Þeir eru í heild 435 og skiptast þau sæti svo til jafnt á ríkin. Þannig fara allar kosningar til alríkisembætta fram á grundvelli einmenningskjördæma.
Kjörmannafjöldi ríkis er þá samanlagður fjöldi þingmanna í efri og neðri deildum. Það gerir 535. Washington D.C. hefur frá miðri 20. öld fengið að taka þátt og fær úthlutaða þrjá kjörmenn. Þannig er heildarfjöldi kjörmanna 538, og þarf því 270 kjörmenn til að vinna kosningarnar.
Til að fá alla kjörmenn ríkis úthlutaða nægir frambjóðanda að fá flest atkvæða í viðkomandi ríki. Þó eru dæmi um vísi að hlutfallskosningu. Þar sem frambjóðanda nægir að fá aðeins einfaldan meirihluta í hverju ríki „falla dauð“ þau atkvæði sem eftir standa. Ef frambjóðandi sigrar í ríki með 51 prósent þá telja 49 prósentin ekki neitt. Þau hafa ekkert vægi. Í kosningunum 2016 atvikaðist það til dæmis í Flórída að Trump vann ríkið með 113 þúsund atkvæðum eða rétt rúmt prósent heildarfjölda atkvæða. Þetta eina prósent olli því að 4,5 milljónir atkvæða Hillary Clinton urðu að engu.
Þetta getur leitt til þess að frambjóðandi sigri án þess að meirihluti kjósenda kjósi hann. Þetta hefur gerst fjórum sinnum, tvisvar á 19. öld, árið 2000 (Bush) og árið 2016 (Trump). Þetta kerfi verður líka til þess að þau ríki þar sem mjótt er á munum milli frambjóðenda fær hlutfallslega meiri athygli enda til mests að vinna þar með minnstum tilkostnaði. Kalifornía er til dæmis „blátt ríki“ og þó það sé langfjölmennasta ríkið og þar af leiðandi með flesta kjörmenn, fær það almennt litla athygli í forsetakosningum. Þessi ríki eru gjarnan kölluð sveifluríki (e. swing states).
Það er gömul saga og ný að einmenningskjördæmi ala af sér tveggja flokka kerfi. Bandaríkin eru líkast til skýrasta dæmið, þó þau séu mun fleiri og víðar. Demókratar og Repúblikanar eru þessir tveir flokkar. Demókratar til vinstri og Repúblikanar til hægri.
Bandarísk kosningalöggjöf og hefð hefur að miklu leyti fest þessa skiptingu í sessi. Þannig miðar löggjöfin oft að þessum tveimur flokkum og leggur grunn að baráttu tveggja flokka, ekki þriggja.
Flokkarnir tveir hafa svo orðið að ríki í ríkinu. Þeir hafa úr milljörðum dala að spila í hverjum kosningum og stjórna að mjög miklu leyti hvernig bandarísk stjórnmálasaga þróast. Fyrr á árum voru ákvarðanir um tilnefningar til embætta að mjög miklu leyti teknar í reykfylltum bakherbergjum en samhliða almennri lýðræðisþróun í Bandaríkjunum hefur orðið breyting á þessu. Nú fara fram fyrirferðarmiklar forkosningar í báðum flokkum þar sem stuðst er við kjörmannakerfi sambærilegt því sem stuðst er við í aðalkosningunum.
Flokkarnir stýra, eftir sem áður, hverjir eru útnefndir. Hefur þetta „vald“ verið nefnt dagskrárvald stjórnmálaflokkanna. Þannig stjórna innmúraðir flokksmenn um hvaða tvo frambjóðendur verður kosið í aðalkosningunum. Á undanförnum árum hefur orðið mikil pólarísering í bandarískum stjórnmálum og gjáin á milli hugmyndafræði flokkanna tveggja dýpkað. Það hefur líka orðið til þess að kjósendur innan flokkanna eru hugmyndalega „fjær“ almennum kjósendum. Það veldur því að frambjóðendur þurfa að höfða til sitthvors kjósendahópsins í forkosningunum annars vegar og aðalkosningunum hins vegar.
Vegna þess að bandarískaralríkiskosningar eru í raun 51 aðskildar kosningar er ekki um að ræða heildstæðan staðal um hvernig haga skuli kosningum. Þannig eru kjörseðlar, talningaraðferðir, fjöldi kjörstaða og kosningalög og -reglur gjörólík á milli ríkja. Sums staðar er kosið í tölvu, annars staðar með stimplum, svo með blýanti á enn öðrum stað. Þessi ólíka framkvæmd hefur verið til umfjöllunar í tengslum við réttindabaráttu svartra. Kjörstaðir eru almennt á forræði sveitarstjórna í Bandaríkjunum og ber þeim lögum samkvæmt að fjármagna atkvæðagreiðslurnar. Þannig eru kjörstaðir gjarnan færri á fátækari svæðum og verr mannaðir. Það leiðir til þess að meiri tíma getur tekið þá íbúa að kjósa en annars staðar. Þar sem kosið er á þriðjudögum hefur þetta sums staðar leitt til þess að fátækir hafa hreinlega ekki kost á því að fara úr vinnu á virkum degi í fleiri klukkutíma til þess að kjósa. Þetta snertir svarta íbúa sérstaklega illa.
Sum ríki gera hreina sakaskrá að skilyrði fyrir kosningarétti og enn önnur svipta þá kosningarétti sem eru með ógreiddar sektir í kerfinu. Þetta er sagt bitna sérstaklega á svörtum íbúum Bandaríkjanna. Til þess að geta kosið þarf viðkomandi að hafa skráð sig á kjörskrá vissum tíma fyrir kosningar.
Til þess að geta skráð sig á kjörstað þarf viðkomandi í flestum tilfellum að hafa fasta búsetu á tilteknum stað. Þetta útilokar þannig heimilislausa frá þátttöku í kosningunum. Enn og aftur snertir þetta minnihlutahópa einstaklega illa.
Kosningaþátttaka var árið 2016 aðeins 55,4 prósent í Bandaríkjunum.
Kosið verður þriðjudaginn 3. nóvember að þessu sinni.