„Í „Sögu handa börnum“ segir frá móður sem af ást og undanlátssemi við börn sín leyfir þeim að skera af sér eina tá. Uppátækið vindur hins vegar upp á sig og ekki líður á löngu uns börnin fá að fjarlægja úr móður sinni heilann sem geymdur er í spritti í glerkrukku í stofunni eins og hvert annað stáss.“
Sif minnir á að á morgun, þann 4. október, eru liðin 90 ár frá fæðingu Svövu Jakobsdóttur heitinnar. „Skáldsögur og smásögur Svövu setja mark sitt á íslenska bókmenntasögu, en hún var einkum þekkt fyrir að fjalla um reynsluheim kvenna á hrákaldan en húmorískan hátt,“ segir Sif.
Svava varð þingmaður fyrir Alþýðubandalagið árið 191. Sif segir frá fyrsta þingmáli Svövu en það var frumvarp til laga um Jafnlaunaráð sem tryggja átti jöfn laun karla og kvenna. „Það er spá mín, að þegar farið verði að líta á konur sem jafnréttháa fyrirvinnu og karla og vinnu þeirra sem jafnverðmætt vinnuafl í þjóðfélaginu, þá muni slík stofnun sem Jafnlaunaráð verða óþörf,“ sagði Svava í ræðu fyrir frumvarpið á sínum tíma.
Þetta frumvarp Svövu var samþykkt árið 1973.„ Svava hefði líklega ekki getað gert sér í hugarlund að árið 2020 biðum við enn þess tíma er slíkrar stofnunar gerðist ekki lengur þörf,“ segir Sif. „Enn síður hefði hún getað séð fyrir að meira en hálfri öld eftir að hún skrifaði „Sögu handa börnum“ bæri smásagan skuggalegt vitni um stöðu kvenna í heiminum.“
Þá talar Sif um að við upphaf COVID-19 faraldursins hafi Sameinuðu þjóðirnar varað við bakslagi í jafnréttisbaráttu kvenna um heim allan. „Hætta er á að sá litli árangur sem náðst hefur í jafnréttisbaráttunni síðasta áratug muni þurrkast út,“ sagði í skýrslu samtakanna um málið.
„Samtökin virðast ætla að verða sannspá,“ segir Sif. „Neikvæð efnahagsáhrif faraldursins eru meiri fyrir konur en karla, ofbeldi gegn konum hefur aukist, ólaunuðum vinnustundum kvenna inni á heimilum fjölgar og í vikunni bárust fréttir af því að á Íslandi missi nú fleiri konur vinnuna en karlar.“
Í sögu Svövu sem Sif talar um svipta börnin móður sína útlimum og andanum þar til ekkert annað en flatneskja líkama og sálar er eftir. Sif segir að eins og börnin í sögunni þá sverfur kórónuveiran nú alla anga af persónum kvenna sem sölna í skugga álags og aldagamalla hugmynda um kynjahlutverkin.
„Það fer illa fyrir móðurinni í „Sögu handa börnum“. Börnin flytja að heiman og koma sjaldan í heimsókn. Umkomulaus og einmana bregður móðirin á það ráð að skera úr sér hjartað. Með blóðugt líffærið í greipum sér gengur hún milli barna sinna og býður þeim að eiga það,“ segir Sif. „En börnin vilja ekki sjá það. Móðirin hrökklast heim, framlag hennar gleymt, ævistritið einskis metið, þakkirnar tómlæti.“
Sif botnar pistilinn með mikilvægum skilaboðum. „Allt of lengi var framlag kvenna til samfélagsins álitið sjálfsagður hlutur, sem hvorki krefðist viðurkenningar né umbunar. Það er okkar allra að tryggja að arfleifð COVID-19 verði ekki afturhvarf til þess ástands sem Svava Jakobsdóttir varpaði svo lipurlega ljósi á í Sögu handa börnum.“