1.608 manns eru nú í sóttkví og 1.431 er í skimunarsóttkví. Þá eru 652 manns í einangrun hér á landi og 11 á sjúkrahúsi, þar af 3 á gjörgæslu.
„Við verðum að grípa til harðari aðgerða ef við ætlum að stoppa þetta af,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Vísi í kjölfar frétta af smitunum í dag. Hann segists ætla að skila minnismiða með tillögum um hertar aðgerðir til heilbrigðisráðherra í dag. Hann vildi ekki ræða það nánar hvaða hertari aðgerðir væri um að ræða.
Þá segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að spítalinn sé ekki eins tilbúinn núna og hann var í vor fyrir Covid-19. „Þótt við kunnum betur til verka nú þá er sérstök áskorun í þessum faraldri sú staðreynd að spítalinn er ekki með sama hætti tilbúinn til að mæta mikilli holskeflu verkefna og hann var í vor,“ segir Páll í pistli sínum sem birtist á heimasíðu Landspítalans. Hann segir þetta einkum ráðast af tvennu.
„Annars vegar þá glímdum við í upphafi fyrsta faraldurs við verulegan útskriftavanda, einkum vegna þess að fjölmargt fólk sem var útskriftarhæft beið á spítalanum úrræða annars staðar. Hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg var opnað í lok febrúar og fóru þá frá okkur um 40 einstaklingar þangað og á önnur hjúkrunarheimili,“ ssegir Páll.
„Hins vegar var starfsemi utan spítalans afar takmörkuð og allt þjóðfélagið í hægagangi sem fækkaði hefðbundnum verkefnum á spítalanum þannig að við gátum einhent okkur í COVID-19 tengd verkefni. Staðan er önnur nú, fjöldi einstaklinga bíður þess aftur að komast af spítalanum en ekki verið að opna neitt hjúkrunarheimili. Samfélagið keyrir síðan á því sem næst hefðbundum krafti með auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Til að bregðast við þessu höfum við átt í nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og samstarfsstofnanir sem við gerum ráð fyrir að skili árangri fljótt.“