Fréttir úr Hvíta húsinu skóku heiminn í morgun. 74 ára karlmaður, vel í þyngri kantinum, greindist með Covid-19. Þessi karl er Donald Trump og er forseti Bandaríkjanna.
Nánast um leið fóru stjórnmálaskýrendur, blaðamenn og almenningur um heim allan að spyrja sig – hvað nú? Vangaveltur þeirra fóru um víðan völl en eftir stóð spurningin: Eru dagar Donalds Trumps taldir?
Nei, segir Kári Stefánsson. „Ég held að hann komi ekki til með að deyja,“ segir Kári. „Líkurnar á því að hann komist út úr þessu eru býsna góðar.“ Fyrir þessu hefur Kári sín rök. „25% af þeim sem greinast og eru yfir 80 ára gamlir, deyja. Það þýðir þá að 75% líkur séu að lifa af Covid-19 sjúkdóminn. Donald Trump er töluvert yngri en það.“ Töluverðar líkur eru þó á því að hann verði veikur. „Allir sem sýkjast af þessu geta orðið veikir, sérstaklega offitusjúklingar,“ segir Kári.
Aðspurður um líkamlegt ástand Trumps og hvort það geti ekki spilað inn í lífslíkur hans svarar Kári: „Jú, hann er búttaður vissulega, en hann er greinilega kraftmikill maður. Það þarf orku í að brúka svona kjaft, ég ætti að þekkja það,“ sagði Kári.
Eins og við var að búast þá fóru samsæriskenningarnar á flug. „Hann er ekkert smitaður,“ „Demókratar smituðu hann,“ „samsæriskenning Repúblikanaflokksins.“ Kári segir að gaman sé að velta svoleiðis fyrir sér, og ekki við öðru að búast að svoleiðis sögur fari á flug. „Trump er ólíkindatól,“ segir Kári, „og vissulega vís til hvers sem er.“
Nú er Donald Trump kominn í hóp með Jair Bolsonaro og Boris Johnson, en þessir þrír ráðamenn höfðu hvað hæst í upphafi faraldursins um að ekkert væri að óttast, og gripu hvað seinast til aðgerða í sínum löndum. Nú hafa löndin sem þeir stjórna öll þrjú farið mjög illa úr faraldrinum. Aðspurður hvort þetta sé nokkuð tilviljun segir Kári: „Ef þetta er ekki „poetic justice,“ þá er þetta allavega næsti bær við.“
Það sem við tekur núna hjá Trump er bið eftir einkennum, væntanlega. Aðspurður hvort gæði heilbrigðisþjónustu spili ekki hlutverk í lífslíkum Trumps, svarar Kári að Trump muni líklega fá heilbrigðisþjónustu á borð við þá sem veitt er á Landspítalanum. Í þessu fellst bersýnilega mikið hrós til starfsfólks Landspítalans. „Ef hann verður lasinn fær hann þá sömu veirulyfin og eru gefin Covid-19 sjúklingum á Landspítalanum. Þessi lyf eru ekki fullkominn, en þau eru býsna góð.“
„Landspítalinn hefur í öllum þessum faraldri staðið sig alveg ofboðslega vel, hlúið ofboðslega vel að sínu fólki, og ekki bara að þeim sem verða illa lasnir. Göngudeildin fylgist með fólki út í bæ og hefur tekist að láta fólki finnast eins og það sé verið að passa upp á það. Þetta hefur hann gert af svo mikilli elsku og hlýju, að þetta er búið að vera til algjörrar fyrirmyndar.
Kári segir að hann voni að forsetinn komi úr þessu óskaddaður og læri af þessu. „Það er kannski dæmi um þá sjúklegu bjartsýni sem ég hrjáist af. Ég vona að meira að segja Trump geti lært.“
Kári segir að lokum: „Ég vona heitt og innilega að hann lifi svo hann geti tapað þessum kosningum.“