fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Fréttir

Faðir krafðist þess að mál sem hann höfðaði sjálfur verði vísað frá dómi

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 2. október 2020 16:56

Mynd/Pexels

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur felldi í dag dóm sinn í harðvígri forsjárdeilu foreldra vegna þriggja barna þeirra. Dómurinn er áhugaverður fyrir það leiti að faðirinn höfðaði upphaflega málið fyrir héraðsdóm og krafðist þess að vera falin forsjá barna sinna þriggja, þar sem hann væri hæfari uppalandi en móðir. Hins vegar var héraðsdómur á öðru máli og dæmdi móður forsjá barnanna þriggja og dæmdi föður mun takmarkaðri umgengni en hann hafði áður notið.

Vildi að hans eigin máli yrði vísað frá héraði

Faðir áfrýjaði málinu til Landsréttar og krafðist þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi sökum þess að sáttameðferð hafi ekki farið fram á milli hans og móður barnanna með fullnægjandi hætti. Hann óskar því í reynd eftir því að Landsréttur komist að þeirri niðurstöðu að málið hafi ekki átt heima í dóm frá upphafi, eða með öðrum orðum að formgalli hafi verið á máli sem var á hans eigin forræði. Í niðurstöðu Landsréttar segir:

„Fyrir Landsrétti gerir áfrýjandi [faðir barnanna] kröfu um að málinu, sem hann höfðaði sjálfur í héraði verði vísað frá dómi þar sem sáttameðferð sýslumanns uppfyllti ekki skilyrði 33. gr. barnalaga n r. 75/2003.“

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að vissulega væri um formgalla á sáttameðferð að ræða, hún hafi ekki farið fram líkt og barnalög kveði á um. Því var fallist á málatilbúning föðurins og málinu vísað frá héraðsdómi. Því fellur þar með úr gildi forsjáin sem móðurinni var dæmt og aftur raknar við fyrra fyrirkomulag þeirra foreldra sem var sameiginleg forsjá þar sem börnin dvelja tvær vikur í senn hjá hvoru foreldri fyrir sig.

Skapgerðarbrestir

Foreldrarnir eiga sameiginlega fjögur börn en elsta barn þeirra er orðið sjálfráða og því ekki um neina forsjá yfir því barni að ræða.

Héraðsdómur rekur málefni fjölskyldunnar nokkuð ítarlega. Móðir sakar föður um mikla stjórnsemi og að hann hafi beitt hana bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi á meðan á hjónabandi þeirra stóð og auk þess beiti hann börnin líkamlegum refsingum til að aga þau, þar á meðal rassskelli hann þau.

Einnig kemur fram að móðir sé með meiri festu á heimilinu, setji börnunum mörk og láti þau fylgja reglum á heimilinu á meðan faðirinn er afslappaðri og leyfi þeim ótakmarkað að eyða frítíma í tölvum og leyfi þeim þar að auki að sofa út þegar þau eigi að vera í skóla.

Dómkvaddir matsmenn voru fengnir til að leggja mat á hæfni foreldranna til að fara með forsjá. Segir í dómi um matsgerð:

„Ljóst er að báðir foreldrar glíma við skapgerðarbresti, eins og lýst er í báðum matsgerðum. Stefnandi [faðirinn] er áberandi stjórnsamir og stefnda [móðirin] hefur augljóslega fengið sig fullsadda af honum.“

Einnig segir:

„Það er meginniðurstaða þeirra beggja að báðir aðilar séu í grunninn vel hæfir til að fara með forsjá barnanna en að það hve illa þeim hefur gengið að setja hagsmuni barnanna í forgang og leggja ágreining sinn til hliðar rýri þó verulega forsjárhæfni þeirra beggja. Báðir matsmenn telja móður ívið hæfari til að fara með forsjá allra barnanna“

Dómurinn tekur fram að þó það sé börnunum fyrir besti að foreldrar geti átt í góðum samskiptum um málefni barna sinna þá verði slíkt ekki knúið fram af hálfu eins foreldris í óþökk annars.

Fram kom að börnin væru vel tengd báðum foreldrum sínum og vildu helst halda fyrirkomulagi forsjár og umgengni óbreyttu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“
Fréttir
Í gær

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“