fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Hildur ósátt og vill óskerta þjónustu: „Ákvörðunin virðist tekin í tómarúmi“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 22. janúar 2020 09:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir það fullkominn fyrirslátt að sú ákvörðun að stytta opnunartíma leikskólanna miði að bestu hagsmunum barna.

Eins og greint hefur verið frá hefur meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar samþykkt að stytta opnunartíma leikskólanna frá og með 1. apríl næstkomandi. Verður almennur opnunartími frá 07:30 til 16:30 í stað 17:00. Stýrihópur um umbætur og skipulag leikskólastarfs telur að með styttingunni minnki álag á börn, stjórnendur og starfsmenn í leikskólunum.

Fullkominn fyrirsláttur

Hildur skrifar um málið í Fréttablaðið í dag og segir að leikskólar borgarinnar þjóni gríðarlega mikilvægu hlutverki gagnvart fjölskyldum í borginni – þjónustu sem nú stendur til að skerða.

„Ákvörðun um skerta leikskólaþjónustu er sögð miða að bestu hagsmunum barna. Það er fullkominn fyrirsláttur enda ekkert í aðgerðunum sem miðar að bættu leikskólaumhverfi fyrir börn. Leikskólabörn geta áfram átt níu klukkustunda dvalartíma daglega og engar aðgerðir í sjónmáli til að bæta umhverfi barnanna,“ segir Hildur.

8,5 tímar ekki skaðlegri en 8 tímar

Sitt sýnist hverjum um aðgerðirnar og vilja sumir meina að þessi hálftími skipti litlu fyrir börnin. Eyjan fjallaði í vikunni um pistil Steinunnar Gestsdóttur, prófessors í þroskasálfræði og aðstoðarrektors kennslumála og þróunar við Háskóla Íslands, sem sagði meðal annars:

„Ég veit ekki um neinar rannsóknir sem sýna að 8,5 tímar séu skaðlegri fyrir leikskólabörn en 8,0 tímar, en rannsóknir sýna að þegar að hávaði, lítið pláss og mannekla einkennir leikskóla hefur það neikvæð áhrif á börn og starfsfólk – það ætti að vera fókusinn að tryggja að slíkar aðstæður séu aldrei til staðar í leikskólastarfi.“

Óttast keðjuverkandi áhrif

Hildur segir í pistli sínum að með aðgerðunum sé dregið úr svigrúmi fyrir fjölskyldufólk til að skipuleggja eigin hversdag. Nú sé ráðgert að foreldrar vinni allir sams konar vinnudag en Hildur bendir á að  í borginni búi alls kyns fólk í ólíkum störfum með fjölbreyttar þarfir.

„Það er ekki hlutverk hins opinbera að steypa allt vinnandi fólk í sama mót. Við verðum að mæta þessum ólíku þörfum eftir fremsta megni. Við verðum að tryggja sveigjanleika. Ríflega 5.200 fjölskyldur nýta þjónustu leikskólanna í Reykjavík. Ákvörðun um skerta þjónustu virðist tekin í tómarúmi – án samráðs við fjölskyldur sem jafnvel eru þjónustunni háðar. Aðgerðin mun ekki skapa áþreifanlegan þrýsting á vinnumarkað um stytta vinnuviku – enda fleira fólk á vinnumarkaði en einungis foreldrar leikskólabarna,“ segir Hildur sem óttast að aðgerðin komi verst niður á viðkæmum þjóðfélagshópum, svo sem lágtekjufólki, einstæðum foreldrum, þeim sem eiga lítið bakland og vinnandi konum.

„Slæm þjónusta sveitarfélaga getur nefnilega haft keðjuverkandi áhrif á misskiptingu og misrétti. Við þurfum ætíð að huga að bestu hagsmunum barna og draga úr álagi á þau, en það gerum við ekki með aukinni streitu og minna svigrúmi í hversdegi fjölskyldunnar. Við verðum að tryggja öfluga óskerta leikskólaþjónustu og aukið tillit til þeirra sem hafa takmarkað svigrúm í sínu starfsumhverfi. Við verðum að tryggja sveigjanleika til að mæta ólíkum þörfum. Einungis þannig tryggjum við bestu hagsmuni fjölskyldufólks í Reykjavík.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“