Óprúttinn einstaklingur hefur þóst vera tónlistarkonan Hildur Guðnadóttir á samfélagsmiðlum. Listakonan hefur víða verið á vörum fólks undanfarna daga í ljósi Óskarstilnefningu hennar fyrir kvikmyndina Joker.
Í kringum velgengni Hildar var stofnaður Twitter-aðgangur þar sem alls konar ummæli voru látin flakka sem komu aðdáendum á óvart sem fylgdust með aðganginum. Á þessum gerviaðgangi hafði umsjónarmaður hans einnig samband við ýmsa fylgjendur og þótti sumum gruggugt að eigandi aðgangsins kynni ekki íslensku.
Þegar Hildur komst sjálf að þessum aðgangi hvatti hún notendur á ósviknu Twitter-síðu sinni til að tilkynna auðkennisþjófnaðinn. Falska aðganginum hefur nú verið lokað.
Hildur hefur átt mjög góðu gengi að fagna á síðasta ári og því nýja, fyrst fyrir tónlistina úr sjónvarpsþáttunum Chernobyl, sem skilaði henni meðal annars Emmy-verðlaunum og Grammy-tilnefningu, og undanfarið hefur verðlaunum og tilnefningum verið hlaðið á tónlist hennar fyrir Joker. Þá hlaut hún Golden Globe-styttuna fyrir Jókerinn á dögunum ásamt verðlaunum gagnrýnenda, Critic‘s Choice Awards. Telja sérfræðingar og veðbankar að Hildur verði líkleg til sigurs á Óskarnum þann 9. febrúar.
Hildur er önnur íslenska konan sem hlotið hefur tilnefningu til Óskarsverðlauna en á undan henni var Björk Guðmundsdóttir tilnefnd fyrir besta frumsamda lagið árið 2001.