fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Átökin í Siðmennt: Segir Ingu hafa rekið Jóhann vegna persónulegrar óvildar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 22. september 2020 20:00

Samsett mynd DV. Mynd af Jóhanni Björnssyni: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðilar innan Siðmenntar sem DV hefur rætt við segja að uppgefnar ástæður fyrir uppsögn Jóhanns Björnssonar úr starfi kennslustjóra fermingarfræðslu séu tylliástæður og í raun aðfinnsluatriði sem auðvelt væri að laga ef þau væru raunveruleg. Flokkadrættir og samskiptaörðugleikar hafi verið í félaginu og þeir séu undirrótin að uppsögninni, ekki óánægja með skipulag eða verkstjórn á fermingarfræðslunni. Enginn ágreiningur sé um það innan Siðmenntar að fermingarfræðslan hafi verið til fyrirmyndar undir stjórn Jóhanns.

Frétt DV í gær um starfslok Jóhann Björnssonar sem kennslustjóra fermingarfræðslu Siðmenntar vakti mikla athygli. Tíðindin koma mörgum mjög á óvart, meðal annars grónum félögum í Siðmennt sem sumir hverjir komu af fjöllum. Siðmennt hafði ekki tilkynnt um starfsflok Jóhanns og myndum af honum bregður fyrir í nýlegu kynningarefni um fermingarfræðsluna. Jóhanni var hins vegar sagt upp í júní. Stjórn Siðmenntar tilkynnti ekki um ákvörðunina en Jóhann greindi sjálfur frá tíðindunum í Facebook-færslu um síðustu helgi.

Í viðtali við DV í gær sagði Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, að betri verkstjórn og skipulag séu markmiðin með þeim breytingum sem ákveðið var að gera, en skipað hefur verið þriggja manna kennsluráð sem tekur yfir verkefni Jóhanns sem lúta að námsefninu, en skipulag og verkefnisstjórn fræðslunnar verður færð inn á skrifstofu Siðmenntar í hendur fastráðins verkefnisstjóra. Segist Inga vilja bæta skipulagið en ekkert hafa út á inntak fræðslunnar að setja.

Flestir sem DV hefur rætt málið við vilja ekki koma fram undir nafni. Það gildir þó ekki um fyrirverandi framkvæmdastjóra félagsins, Bjarna Jónsson, sem DV ræddi við í dag, en Bjarni er mjög gagnrýninn á þessa ákvörðun. Hann telur óvild formannsins Ingu Auðbjargar Straumland í garð Jóhanns vera orsökina fyrir uppsögn hans:

„Þessar ástæður sem hún hefur gefið upp fyrir þessari ákvörðun held ég að séu fyrirsláttur, hún hefur lýst því yfir að hún vilji ekki vinna með honum. Mér finnst ansi langt gengið að ýta Jóhanni út með þessum hætti. Hann hefur verið upphaf og endir þessarar fermingarfræðslu í langan tíma. Við skulum hafa í huga að maðurinn er ekki aðeins kennaramenntaður heldur líka heimspekimenntaður,“ segir Bjarni sem telur að menntun Jóhanns í heimspeki og kennslufræðum séu dýrmætir hornsteinar að vel heppnaðri fermingarfræðslu í Siðmennt.

„Mér finnst þetta vera óheillavænlegt fyrir félagið. Jóhann býr að gríðarlega mikilli reynslu á þessu sviði. Ég hef unnið náið með honum og ég skil alls ekki þessar ásakanir formannsins um að hann sé erfiður í samskiptum. Það er fjarri lagi. Samstarfsfólk hans greinir frá allt annarri upplifun.“

Bjarni bendir einnig á að reglulega hafi verið gerðar gæðakannanir meðal fermningarbarna og foreldra þeirra og ánægjuhlutfallið sé alltaf í 98%.

Sprenging hefur orðið í borgaralegum fermingum hjá Siðmennt síðustu 4-5 árin og hefur fermingarbörnunum fjölgað úr nokkrum tugum árlega upp í hátt í 600 árlega. „Velgengni og stækkun félagsins hvílir að miklu leyti á uppganginum í borgaralegum fermingum og þetta félag sem áður var á jaðrinum er núna orðið mjög mainstream,“ segir Bjarni og telur starf Jóhanns Björnssonar eiga mikinn þátt í velgengni Siðmenntar á undanförnum árum, en félagar eru í dag um 3.500 og fer fjölgandi.

Bjarni var framkvæmdastjóri Siðmenntar um skeið en sagði starfinu lausu árið 2018 og sagði sig úr félaginu skömmu síðar. Líkt og aðrir viðmælendur DV telur hann ekki djúpan hugmyndafræðilegan ágreining vera í félaginu heldur megi rekja ósamkomulag og ágreining sem hefur komið upp til persónulegs núnings.

Bjarni ítrekar þá skoðun sína að uppgangur í borgaralegum fermingurinn séu grunnurinn að þeirri velgengni sem félagið hefur notið síðustu ár. Þar sé framlag Jóhanns Björnssonar ómetanlegt.

Jóhann og Bjarni sagðir vera heimaríkir

Aðrir aðilar innan Siðmenntar sem DV hefur rætt við gagnrýna hins vegar Jóhann Björnsson, Bjarna Jónsson, og fleiri framámenn í Siðmennt af eldri kynslóðinni fyrir að hafa verið orðna of heimaríka. Einn bendir á að þó að Jóhann hafi unnið frábært starf í fermingarfræðslunni sé hann ekki upphaf og endir hennar enda hafi fermingarfræðslan hafist árið 1989, allmörgum árum áður en Jóhann gekk í félagið. Hann hafi samt unnið frábært starf í þessum efnum.

Sömu aðlir halda því fram að Bjarni Jónsson hafi í starfstíð sinni sem framkvæmdastjóri farið út fyrir verksvið sitt og viljað stýra málum sem ekki heyrðu undir framkvæmdastjóra. Þá eru Jóhann og Bjarni gagnrýndir fyrir uppákomu sem varð á aðalfundi Siðmenntar fyrir um tveimur og hálfu ári er Jóhann var endurkjörinn formaður félagsins. Mikil óánægja braust út eftir kjörið þar sem Jóhann og félagar voru sakaðir um smölun á fundinn. Jóhann sagði af sér formannsembættinu í kjölfarið til að lægja öldur.

Aðrir aðilar innan Siðmenntar benda blaðamanni hins vegar á að Jóhann hefði ekki verið kjörinn formaður hefði hann ekki notið stuðnings innan félagsins og hvað sem líði smölun geti enginn kosið til formanns eða stjórnar á aðalfundi án þess að vera skráður félagi í Siðmennt í þjóðskrá eða hafa greitt félagsgjald.

Óljósar deilur eða vaxtarverkir

Sem fyrr segir hefur enginn viðmælandi DV bent á hugmyndafræðilegan ágreining innan Siðmenntar heldur nefna flestir persónulegan núning og að sumir vinni betur saman en aðrir. Á áðurnefndum átakafundi afhjúpðust þó deilur um hverjir ættu að fá greitt fyrir vinnu sína innan félagsins og hve háar þær greiðslur ættu að vera. Ekki er hins vegar hægt að tengja þær deilur við þá ákvörðun sem tekin var í sumar, að segja Jóhanni Björnssyni upp sem kennslustjóra.

Einn viðmælandi DV segir að „vaxtarverkir“ séu lykilorðið í lýsingu á þeirri ólgu sem finna megi fyrir í Siðmennt. Þetta séu dæmigerðir vaxtarverkir og innanbúðarátök sem oft eigi sér stað í félögum og samtökum sem vaxa hratt líkt og Siðmennt hefur gert á undanförnum árum.

Þessi sami viðmælandi segir að honum þyki viðskilnaðurinn við Jóhann Björnsson úr starfi hafa verið kuldalegan og einkennst af virðingarskorti. Fara hefði mátt mildilegar að.

Segir að byggt verði á starfi Jóhanns

DV ræddi við Sigurð Hólm Gunnarsson sem lengi hefur starfað innan Siðmenntar og er einn þriggja sem skipuð voru í nýtt kennsluráð Siðmenntar. Sigurður segist ekki vita hvers vegna Jóhann var látinn hætta og hann viti ekki betur en byggt verði á hans starfi við áframhaldandi fermingarfræðslu:

„Ég veit ekki nákvæmlega af hverju Jóhann er hættur. Ég er ekki í stjórn og vil ekki blanda mér í þá umræðu en vísa á stjórn félagsins,“ sagði Sigurður sem hefur ekkert nema gott eitt að segja um framlag Jóhanns til fermingarfræðslunnar:

„Ég var fyrir nokkrum dögum beðinn um að vera með i nýju kennsluráði sem hefur það hlutverk að halda vel utan um það nám sem hefur verið í boði og búa til formlega námsskrá út frá húmanískum hugmyndafræðilegum grunni. Ég hef aldrei heyrt annað en að það eigi að vinna þetta út frá því góða starfi sem Jóhann og fjölmargir aðrir, sem séð hafa um borgaralega fermingu, hafa skilað af sér í gegnum tíðina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt