fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

100 manna glæpagengi umsvifamikið í afbrotum – Vanmáttug lögregla

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 22. september 2020 07:45

Höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV skýrði frá í gær þá koma hrollvekjandi upplýsingar fram í leynilegri skýrslu sænsku lögreglunnar um skipulögð glæpasamtök þar í landi og áhrif þeirra. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þessi skipulögðu glæpasamtök teygi anga sína um allt samfélagið og meðal annars séu fjórir þingmenn tengdir þeim. En hvernig er staðan hér á landi?

Greiningardeild ríkislögreglustjóra gefur reglulega út skýrslu yfir stöðu mála hvað varðar skipulagða glæpastarfsemi. Nýjasta skýrslan var gefin út í maí og í stuttu máli er niðurstaða hennar að áhættan vegna helstu brotaflokka skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi fari enn vaxandi. Samkvæmt áhættulíkani löggæsluáætlunar er niðurstaðan „gífurleg áhætta“ við mat á skipulagðri glæpastarfsemi. Niðurstaðan er í samræmi við mat Evrópulögreglunnar Europol, frá í apríl 2019, að skipulögð glæpastarfsemi sé helsta ógnin við öryggi ríkja álfunnar.

Í skýrslunni segir að þessi niðurstaða sé í samræmi við það sem kom fram í skýrslu greiningardeildar um skipulagða glæpastarfsemi árið 2017 en þá sagði meðal annars:

„Að öllu þessu virtu verður sú ályktun dregin að núverandi aðstæður séu, að öllu óbreyttu, ekki til þess fallnar að hamla gegn skipulagðri brotastarfsemi í landinu.“ . . . „Að framangreindu má ljóst vera að dregið hafi úr getu lögreglu til að sinna mörgum þeirra málaflokka sem falla undir hugtakið „skipulögð glæpastarfsemi.“

Greiningardeild ríkislögreglustjóra gerir reglulega áhættumat varðandi skipulögð glæpasamtök. Mynd: Fréttablaðið/Valli

Kveðið er á um fjögur áhættustig í líkani löggæsluáætlunar en það eru lítil áhætta, möguleg áhætta, mjög mikil áhætta og gífurleg áhætta. Notast er við litina grænt, gult, rautt og svart til að tákna alvarleika, rautt og svart tákna efstu stig áhættumatsins. Í skýrslunni er fjallað um fimm brotaflokka og eru þeir allir í rauðum eða svörtum þrepum hvað varðar þá áhættu sem lögreglan telur að skipulögð brotastarfsemi valdi.

Hvað eru skipulögð glæpasamtök og hvaða afbrotum tengjast þau?

Greiningardeildin styðst við skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna frá 2000 um hvað telst vera skipulagður glæpahópur en samkvæmt skilgreiningunni er það „hópur þriggja eða fleiri einstaklinga sem starfar um tiltekinn tíma og vinnur í samræmi við það markmið að fremja glæpi í hagnaðarskyni.“

Hóparnir eru fjölbreyttir sem og starfsemi þeirra. Framboð og eftirspurn ræður ríkjum á tilteknum sviðum glæpastarfsemi og skipulagðir glæpahópar endurspegla oft þá menningu og verðmætamat sem ríkir þar sem þeir eiga sér uppruna. Með þessu flyst brotastarfsemin, aðferðir, áherslur, afstaða til samfélagsins (þar á meðal til lögreglunnar) og fleira með fólki á milli staða. Dæmi um þetta má sjá í umfjöllun DV frá í gær um skýrslu sænsku lögreglunnar, þar segir meðal annars:

„Það er mat lögreglunnar að félagar í Södertälje-samtökunum telji sig ekki vera afbrotamenn, heldur verktaka. Markmið og þarfir glæpagengisins skipta mestu en sænsk lög og reglur eru aukaatriði.“

Þetta er í samræmi við orð sænska vararíkislögreglustjórans sem tjáði sig um skipulögð glæpagengi þar í landi í samtali við Sænska ríkisútvarpið nýlega. Þá sagði hann meðal annars:

„Núna eru að minnsta kosti 40 fjölskylduglæpagengi í Svíþjóð. Svokölluð gengi. Þau eru komin til Svíþjóðar, að því er ég tel, eingöngu til að stunda skipulagða glæpastarfsemi.“

Hann sagði Svía einnig vera ansi bláeygða hvað þetta varðar:

„Öll fjölskyldan, öll ættin, öll klíkan elur börn sín upp til að þau geti tekið við stjórn gengisins. Þessi börn hafa ekki í hyggju að vera hluti af samfélaginu, allt frá fæðingu stendur metnaður þeirra til að taka við stjórn glæpastarfseminnar. Við erum ansi bláeygð hér í Svíþjóð.“

Fíkniefnabrot eru umfangsmikill hluti af starfsemi margra glæpagengja en þau einskorða oft ekki starfsemi sína við þau og teygja anga sína víða. Þá er rétt að hafa í huga að skipulögð glæpastarfsemi er oft fjölþjóðleg og teygir anga sína yfir landamæri. Í skýrslu greiningardeildarinnar kemur fram að upplýsingar sýni að þannig sé það hér á landi. Einnig kemur fram að slík alþjóðleg tenging sé ekki nauðsynleg til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi.

Íslendingar og útlendingar

Greiningardeildin telur að skipulögð brotastarfsemi sé einna greinilegust í innflutningi, framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Miklir fjármunir fylgja þessum brotum og er starfsemi sumra hópanna þaulskipulögð. Almenn séð samanstanda hóparnir af Íslendingum eða útlendingum en einnig sé þekkt að Íslendingar og útlendingar starfi saman.

„Tiltækar upplýsingar benda til þess að umsvif erlendra glæpahópa fari vaxandi á sviði fíkniefnaviðskipta. Með hugtakinu „erlendur glæpahópur“ er átt við hóp sem samanstendur af einstaklingum sem flust hafa til Íslands eða koma tímabundið til Íslands til að skipuleggja og/eða stunda afbrot. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tengdust á annað hundrað manns fíkniefnamálum á árunum 2015-2017 sem flokkast undir skipulagða brotastarfsemi, innflutning, framleiðslu og sölu. Íslenskir karlmenn eru meirihluti gerenda en hlutur erlendra ríkisborgara er umtalsverður. Í rúmlega þriðjungi mála eru sakborningar útlendingar,“

segir í skýrslu greiningardeildarinnar.

Umsvifamikið glæpagengi útlendinga stendur að baki þaulskipulagðri glæpastarfsemi

Lögreglan telur að aukning á innflutningi á kókaíni sé merki um aukin umsvif skipulagðra glæpasamtaka hér á landi. Í skýrslu greiningardeildarinnar segir að vitað sé að hópur erlendra afbrotamanna sé stórtækur í kókaínsölu hér á landi og selji sérstaklega hreint og öflugt efni.

Þessi hreinleiki efnisins setur neytendur í hættu því þeir fá sterkari efni en þeir eru vanir og taka því inn of mikið magn. Segist greiningardeildin hafa upplýsingar um að tugir manna látist árlega af völdum fíkniefna hér á landi.

Mynd úr safni.

Umræddur hópur er sagður smygla kókaíni til landsins og reka öflugt net sölumanna, stundi skipulögð brot á vinnumarkaði, standi fyrir innflutningi vændiskvenna til landsins, stundi skattsvik og peningaþvætti. Greiningardeildin telur að rúmlega 100 manns hafi tengst þessum hópi og séu vísbendingar um að hann sé að eflast.

„Að mati greiningardeildar ríkislögreglustjóra stendur hópur þessi fyrir þaulskipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og telst hann vaxandi ógn við einstaklinga og samfélag,“

segir í skýrslunni.

Hvað varðar innflutning og sölu amfetamíns þá kemur fram að erlendir glæpahópar stundi innflutning og framleiðslu á amfetamíni og amfetamínbasa hér á landi. Telur lögreglan að erlendu hóparnir séu í ráðandi stöðu á amfetamínmarkaðnum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að erlend glæpagengi séu viðriðin flest svið afbrota hér á landi, til dæmis vændi, mansal, smygl á fólki og svo framvegis. Íslendingar koma einnig við sögu en í mun minni mæli.

Veikburða lögregla

Í skýrslu greiningardeildar kemur fram að ef engar áherslubreytingar verða séu litlar líkur á að markverður árangur náist í baráttu við skipulögð glæpastarfsemi hér á landi. Þörf sé á auknum rannsóknum og frumkvæðislöggæslu.

Fjöldi lögreglumanna hefur ekki haldist í hendur við þróun samfélagsins. Lögreglumönnum, sem vinna að rannsóknum á fíkniefnamálum og öðrum birtingarmyndum skipulagðrar brotastarfsemi, hefur fækkað á undanförnum árum.

„Ljóst er að staða löggæslumála er með þeim hætti að geta hennar til þess að takast á við skipulagða brotastarfsemi er mjög lítil. Núverandi staða hefur kallað á mikla forgangsröðun brýnustu verkefna og hefur það komið mikið niður á frumkvæðislöggæslu við afbrotavarnir,“

segir í skýrslu greiningardeildarinnar þar sem einnig er bent á að hvað varðar rannsóknarmöguleika hafi lögreglan ekki sömu möguleika og lögreglan á hinum Norðurlöndunum.

„Einnig verður að hafa í huga að eftirlitsgeta stofnana er lítil og samstarf lögreglu og annarra eftirlitsaðila er takmarkað og vafi getur verið um heimildir til upplýsingaskipta. Þá er skipulag lögreglu með þeim hætti að það kann að vera að við þessari ógn verði ekki brugðist nema með myndun rannsóknardeildar vegna skipulagðrar brotastarfsemi sem starfi á landsvísu. Geta íslensku lögreglunnar til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi telst lítil. Þeir veikleikar sem hér hafa verið raktir eru til þess fallnir að auka líkur á skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi og magna neikvæðar afleiðingar hennar. Þar með verður áhættan meiri,“

Segir greiningardeildin um getu lögreglunnar til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

Vandinn sem við er að etja hér á landi er að mörgu leyti sambærilegur þeim sem nágrannar okkar á Norðurlöndunum standa frammi fyrir. Sífellt meiri umsvif skipulagðra glæpasamtaka sem láta að sér kveða á mörgum sviðum samfélagsins. Spurningin er hvort við séum jafn bláeygð og Svíar þegar kemur að umsvifum skipulagðra glæpasamtaka?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri