fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Siðmennt lét kennslustjórann fjúka eftir aldarfjórðung í starfi – „Við þykjum ekki nógu smart“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 21. september 2020 20:34

Jóhann Björnsson. Mynd: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nei, ég get ekki sagt að þetta hafi komið mér á óvart. Þó hefur enginn gert athugasemdir við það sem ég er að gera með krökkunum í tímum, foreldrarnir eru sáttir, krakkarnir sjálfir eru sáttir og hafa lýst yfir ánægju sinni. En með nýju fólki inni í félagið og í stjórnina hefur maður smám saman farið að upplifa að við, þessi eldri, sem erum búin að vaða eld og brennistein fyrir félagið og börðumst fyrir það þegar það var eitt af hötuðustu félögum í landinu, við þykjum ekki nógu smart. Það hafa því ýmsir af minni kynslóð dregið sig í hlé eða sagt sig úr félaginu,“ segir Jóhann Björnsson heimspekingur í viðtali við DV, en  honum hefur verið sagt upp störfum sem kennslustjóri hjá lífsskoðunarfélaginu Siðmennt. Jóhann hefur verið kennslustjóri fermingarfræðslunnar fyrir borgaralega fermingu allt frá árinu 1996 og mótaði þetta starf frá upphafi borgaralegu ferminganna.

Jóhann hefur sinnt þessu starfi sem verktaki og samningur við hann hefur verið endurnýjaður árlega. Í júní var honum tilkynnt að samningurinn yrði ekki endurnýjaður að þessu sinni og ekki væri óskað eftir kröftum hans framar í þessu starfi.

Þegar Jóhann hóf þetta brautryðjendastarf var hann nýkominn frá framhaldssnámi í heimspeki í Belgíu þar sem hann lauk meistaragráðu. Honum líkaði svo vel að kenna fermingarbörnum að hann ákvað að leggja kennslu fyrir sig og fór í kennslufræði og fékk síðan stöðu við Réttarholtsskóla. Aðalstarf hans í dag er heimspekikennsla við Réttarholtsskóla en þar er heimspeki skyldufag. Inntak fermingarfræðslunnar sem Jóhann hefur mótað hjá Siðmennt er húmanismi með heimspekilegum áherslum, til dæmis er mikið fjallað um siðferðileg álitaefni sem nemendurnir hafa mjög gaman af. Enn fremur er lögð mikil rækt við að þroska með fermingarbörnunum gagnrýna hugsun.

Siðmennt var lítið félag þegar Jóhann hóf þetta starf sitt og var litið hornauga í samfélaginu. Núna nýtur það mun meiri viðurkenningar og skráðir félagar eru um 3.500. Fermingarbörnum sem taka borgaralega fermingu hjá félaginu hefur stórfjölgað og starfið í kringum fermingarstarfið er orðið viðamikið.

„Mig grunar að þetta snúist dálítið um vinastemningu, án þess ég geti slegið því föstu,“ segir Jóhann sem kannast ekki við að djúpur hugmyndafræðilegur ágreiningur eða mikil átök séu í félaginu, þó að vissulega takist fólk þar á eins og í öðrum félögum.

Kvartað yfir vinnuskýrslum og vondum samskiptum

Jóhann segir að honum hafi verið nefndar fjórar ástæður fyrir uppsögn hans. „Í fyrsta lagi var kvartað fyrir því að vinnuskýrslum frá mér væri ábótavant. Ég fékk samt engar athugasemdir frá framkvæmdastjórn þegar ég skilaði vinnuskýrslunum. Í öðru lagi var sagt að það væri svo erfitt að ná í mig. Það er nú bara svo að ég stunda kennslu á daginn en ef það er hringt þá hringi ég til baka og ég svara tölvupóstum. Í þriðja lagi var sagt að það væri erfitt að vita hvað væri að gerast á þessum námskeiðum mínum. En samt hefur enginn úr stjórninni komið á þessi námskeið og fylgst með þeim. Í fjórða lagi var sagt að ég væri erfiður í samskiptum. Ég hef ekki upplifað samskiptaerfiðleika innan Siðmenntar og ég hef kennt í Réttarholtsskóla í 20 ár, ef það væru samskiptaerfiðleikar vegna mín þar væri örugglega búið að reka mig.“

Jóhann bendir á að fermingarfræðslan fari ekki fram í húsnæði Siðmenntar heldur í MH og því hafi hann ekki mikið verið á skrifstofu Siðmenntar heldur bara sinnt kennslunni í húsnæði MH og eytt megninu af starfsdögum sínum í Réttarholtsskóla. „Kannski fannst fólki að ég ætti að vera oftar í kaffispjalli á skrifstofunni,“ segir hann, en ekki hafi komið frumkvæði að auknum samskiptum frá stjórninni heldur.

Jóhann tekur uppsögninni með jafnaðargeði en hefur dálitlar áhyggjur af framtíð fermingarfræðslunnar hjá Siðmennt. Kennslustjórnunin verður nú í höndum þriggja manna fagráðs og að sögn Jóhanns er enginn þar með kennsluréttindi. Enginn sé því með þá þjálfun og menntun sem til dæmis þurfi að beita við óvæntar uppákomur í kennslustundum. Vissulega geti fólk lært slíkt með því að reka sig á en þó finnist honum þessi skortur á kennaramenntuðu fólki í kennsluráðinu vera til vitnis um þann hugsunarhátt, að „það sé hægt að bjóða börnum og unglingum upp á hvað sem er í námskeiðahaldi,“ eins og Jóhann orðar það.

Hann hefur líka áhyggur af þeirri óvissu sem honum virðist ríkja varðandi mótun kennsluefnis hjá Siðmennt til framtíðar og virðist honum lítið að frétta í þeim efnum. Þá finnst honum undarlegt að Siðmennt hafi ekki tilkynnt um starfslok hans þó að þau hafi verið ákveðin fyrir næstum fjórum mánuðum. Foreldrar séu enn að hafa samband við hann til að spyrjast fyrir um námskeið vetrarins og skráningar í borgaralega fermingu. Til að freista þess að losna undan slíkum fyrirspurnum birti Jóhann nýlega tilkynningu á Facebook-síðu sinni þar sem hann greindi frá starfslokunum. Tilkynningin er eftirfarandi:

Nú eru skráningar fyrir borgaralegar fermingar 2021 í fullum gangi. Eins og margir vita þá hef ég starfað við fermingarfræðslu Siðmenntar síðan 1997. Ég hef starfað sem kennari, kennslustjóri, höfundur námefnis og námskeiðs og séð um þjálfun leiðbeinenda og kennara. Fermingarnámskeið síðasta vors og tvær fallegar fermingarathafnir þann 17. júní s.l. var það síðasta í fermingarstarfi Siðmenntar sem ég tek þátt í. Ég hef sem kennari og lengst af sem kennslustjóri fermingarfræðslunnar ekki misst ár úr frá árinu 1997 og hefur ávallt verið ánægjulegt að taka þátt í fermingarnámskeiðunum og vera viðstaddur athafnirnar.

Í sumar var ég boðaður á fund formanns og framkvæmdastjóra Siðmenntar. Þar var mér sagt að starfskrafta minna sem kennslustjóra borgaralegrar fermingar væri ekki lengur óskað af stjórn Siðmenntar. Tuttugu og fjögur frábær ár að baki. Fermingarbörnin voru 50 talsins fyrir 24 árum en voru 560 í ár. Margt ánægjulegt hefur gerst á þessum tíma. Það hefur verið frábært að kynnast börnunum á námskeiðunum sem skipta þúsundum út um allt land og einnig í fjarnámi í fjarlægum löndum.

Mikið starf hefur verið unnið við að þróa kennsluhætti og námsefni sem byggja fyrst og fremst á hugmyndinni um að vinna með virka, skapandi og gagnrýna hugsun.
Stjórn Siðmenntar hefur ekki óskað eftir að nýta neitt af því sem ég hef tekið saman og samið fyrir fermingarfræðsluna eins og námsgögn, kennsluaðferðir og kennsluáætlanir. Fermingarnámskeið vormisseris 2021 verða því ekki þau sömu og undanfarin ár. Rétt er að þetta komi fram þar sem fermingarfræðsla Siðmenntar er vel þekkt og eflaust hefur fjöldi foreldra sem átt hafa börn í fermingarstarfinu gert ráð fyrir að sama námskeið yrði áfram í boði. Svo er því miður ekki. Nú ber ég enga ábyrgð á komandi námskeiðum, efnistökum þeirra, námsefni né nokkru sem þar mun fara fram. Í fylgiskjali hef ég tekið saman þann menntafræðilega grunn sem námskeiðin undir minni stjórn hafa byggt á. Þessi grunnur kallast húmanísk menntun. Hvað verður með námskeiðin veit ég ekki en ég tel að verðandi fermingarbörn og foreldrar þeirra eigi rétt á að vita af þessum breytingum.

Þó starfskrafta minna muni ekki njóta framvegis í fermingastarfi Siðmenntar er vissulega ánægjulegt að öll sú þekking og reynsla sem ég hef öðlast á þessum árum muni nýtast áfram við menntun barna og unglinga á öðrum vettvangi. Auk þess mun ég halda áfram að rýna í valda þætti úr kennslureynslu minni úr fermingarstarfinu í doktorsrannsókn minni við Menntavísindasvið H.Í. sem gengur út á hvernig efla megi virka, gagnrýna og skapandi hugsun í menntun barna og unglinga.

Þau börn sem sótt hafa námskeiðin á árunum 1997 – 2020 þakka ég kærlega fyrir þátttökuna. Þau hafa gert mig að þeim kennara sem ég er í dag.

Bæta skipulag og auka fagmennsku

DV hafði samband við Ingu Auðbjörgu Straumland, formann Siðmenntar, og spurði út í ástæðurnar fyrir þeirri ákvörðun að hætta samstarfi við Jóhann Björnsson eftir allan þennan tíma:

„Borgaralegar fermingar hafa vaxið gífurlega og eru núna oðrnar stórt og fjölþætt verkefni með háu flækjustigi. Þetta eru orðnir mjög margir hópar og það er kennt á mörgum stöðum í einu. Þar sem verkefnið hefur stækkað svona að umfangi ákváðum við að gera ákveðnar skipulagsbreytingar og höfum skipað þriggja manna verkefnateymi. Hluti af verkefnum kennslustjóra verður fært yfir á þetta teymi og þau taka við hugmyndafræðilegu yfirsýninni. Síðan réðum við verkefnisstjóra í fyrra inn á skrifstofuna og erum að færa þessi verkefnastjórnunarlegu og skipulagslegu verkefni inn á skrifstofu Siðmenntar og verkefnastjórinn tekur við þeim,“ segir Inga.

Hún segist ekki eiga von á miklum umbreytingum á námsefninu sjálfu þó að eflaust verði einhverjar breytingar. Ekki standi til að kasta því námsefni sem Jóhann Björnsson hefur mótað fyrir róða.

„Kennsluefnið er í höndum kennsluráðs og ég sem formaður ætla ekki að skipta mér af því en ég á ekki von á að þar verði nein umbylting. Það stendur ekki til að snúa neinu við heldur skerpa á verklagi og auka fagmennsku og reyna að búa aðeins betur um umgjörðina á þessu starfi, þannig að auðveldara sé fyrir foreldra að fá upplýsingar um hvað börnin þeirra eru að læra.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“