Jón Ívar Einarsson, prófessor í læknadeild Harvard-háskóla í Boston, hefur kært sérnámslækninn Jón Magnús Jóhannesson til Siðanefndar Læknafélags Íslands. Tilefni kærunnar eru ummæli Jóns Magnúsar um greinar Jóns Ívars um kórónuveirufaraldurinn. Jón Magnús hefur svarað honum í Facebook-færslu og í ummælum í frétt á Vísir.is.
Greinar Jóns Ívars hafa vakið mikla athygli en hann hefur gagnrýnt hertar aðgerðir stjórnvalda á landamærum frá og með 19. ágúst, sem kveða á um tvöfalda skimun með 5-6 daga sóttkví á milli. Þessar aðgerðir hafa valdið hruni á ferðum til landsins með meðfylgjandi tekjuhruni í ferðaþjónustunni eftir að landið tók á rísa í þeim efnum eftir að slakað var á reglum þann 15. júní og skimun á landamærum hófst.
Jón Ívar er raunar sammála tvöfaldri skimum en telur að grípa ætti til heimkomusmitgátar í stað sóttkvíar á milli skimananna. Fram hefur komið í greinum Jóns að hann telur aðgerðir stjórnvalda of harkalegar, þó að faraldurinn sé alvarlegur séu afleiðingar af honum ýktar og bendir hann í því samhengi á að dánartíðni sé 1 á móti 500 miðað við fjölda látinna af völdum sjúkdómsins hér á landi samanborið við fjölda þeirra sem hafa smitast. Jón Ívar bendir á til samanburðar að líkur á því að deyja úr hjarta- og æðasjúkdómum séu 1 á móti 7 og í bílslysi 1 á móti 114.
Í andsvörum sínum hefur Jón Magnús sakað Jón Ívar um að gera lítið úr alvarleika sjúkdómsins og hann segir að ummæli hans um dánartíðnina 1 á móti 500 standist ekki tölfræðilega skoðun því íslenska dæmið sé allt of smátt þegar um er að ræða svo stórtækan faraldur á heimsvísu.
Jón Magnús hefur sagt framsetningu Jóns Ívars vera óverjandi: „Eina talan sem er slengt fram er 1/500. Þessi tala er fengin út frá íslenskum gögnum, sem er alls ekkert viðeigandi í ljósi þess að við erum búin að vera með tiltölulega fá tilfelli, og enn færri dauðsföll. Í tölfræði þá er bara ekki hægt að alhæfa út frá takmörkuðum gögnum. Ef við hefðum verið með risastóran faraldur, með tugi þúsunda tilfella, þá hefði það verið áreiðanlegt,“ segir Jón Magnús í samtali við Vísi um málið. „Þegar maður er með svona stóran sjúkdóm, sem getur smitað tugi þúsunda [hér á landi] áætlar maður ekki líkur á dauða út frá litlum, takmörkuðum faraldri á Íslandi. Það er ekki hægt, það er bara ekki hægt. Að segja að það sé sirka 1/500 á því að deyja af völdum Covid-19 á Íslandi, það er bara ekki rétt,“ sagði hann jafnframt.
Jón Ívar er afar ósáttur við hvað skoðanir Jóns Magnúsar á greinum hans hafa fengið mikið rými í fjölmiðlum. Í lokuðum umræðuhópi lækna á Facebook bendir hann á að Jón Magnús sé meðhöfundur að einni vísindagrein og hafi ekki lokið sérnámi. Hann hafi ekki sérstaka menntun í tölfræði eða faraldursfræði. Jón Ívar sjálfur sé hins vegar auk læknamenntunar með meistaragráðu í lýðheilsufræðum frá Harward háskóla, með doktorspróf frá HÍ og sé prófessor við læknadeild Harward-háskóla.
Jón Ívar segist telja áhugavert að láta reyna á hvort ummæli Jóns Magnúsar brjóti gegn siðareglum lækna og tilfærir eftirfarandi ákvæði úr þeim: „Lækni er skylt að auðsýna öðrum læknum drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum, í ræðu og riti og hann skal forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna.“
Jón Ívar segist telja ummæli Jóns Magnúsar um skrif hans flokkast undir óviðeigandi umræðu um kollega í fjölmiðlum.
Jón Ívar hafnar jafnframt þeim staðhæfingum Jóns Magnúsar að fullyrðing hans um dánartíðnina 1/500 standist ekki þar sem hann miði við of lítið úrtak, sem er COVID-tölur fyrir Ísland. Jón Ívar segir um þetta: „Vissulega er það svo að því færri tilvik, því víðari eru vikmörkin, en það er samt mjög auðveldlega hægt að reikna almenna dánartíðni út frá þeim tölu sem við höfum. Þannig eru vikmörkin 0,2% tíðni dauðsfalla 0.1025 til 0.3930%. Það eru því 95% líkur á því að „sannleikurinn“ liggi einhvers staðar þar á milli. Það er því ljóst að dánarlíkur COVID á Íslandi eru nálægt því marki sem ég nefndi.“
Samkvæmt heimildum DV hyggur Jón Magnús á sérnám í smitsjúkdómalækningum í Bandaríkjunum. Talið er að kæra Jóns Ívars geti spillt fyrir umsókn hans um skólavist.
Jón Magnús staðfestir í samtali við DV að Jón Ívar hafi kært hann til Siðanefndar Læknafélags Íslands. Þar sem það mál sé í ferli vilji hann ekki tjá sig sérstaklega um það. Aðspurður segir hann þó að kæra af þessu tagi geti spillt fyrir frama ungra lækna.
Ekki náðist samband við Jón Ívar við vinnslu fréttarinnar.