Maður sem grunaður er um að hafa svikið tæplega þrjár milljónir út úr öldruðum manni í Hrísey í sumar er eftirlýstur og talinn vera í felum. Maðurinn fór til Reykjavíkur í sumar strax eftir hinn meinta glæp í Hrísey en ekki liggur fyrir hvar á landinu hann er talinn halda sig núna. Samkvæmt heimildum DV miðar rannsókn málsins vel en eitt mikilvægasta atriðið er eftir, að hafa upp á þeim sem talinn er vera „aðalsprautan í málinu,“ eins og Jónas Halldór Sigurðsson, rannsóknarlögreglumaður á Akureyri, orðaði það í samtali við DV.
Hinn grunaði er um þrítugt og dvaldist í húskofa á lóð 83 ára gamals manns í Hrísey í nokkra sólarhringa í júlí síðastliðnum. Hann kom inn í hús hans til að sinna þrifum. Maður um fertugt, meintur vinur og óformlegur aðstoðarmaður gamla mannsins til langs tíma, hlutaðist til um þessi tengsl. Sá maður hefur, að bæði eigin sögn og gamla mannsins, liðsinnt honum með eitt og annað, meðal annars innkaup. Aðstandendur gamla mannsins fyrir sunnan eru meðvitaðir um málið. Báðir mennirnir eiga sakaferil að baki.
„Helvítis kvikindið læddist í kortið mitt,“ segir gamli maðurinn í samtali við DV, ómyrkur í máli. „Hann vissi að ég ætti [X] milljónir á reikningnum en hann sagðist ekki hafa kunnað við að taka meira. Einhvern veginn þefaði hann uppi pin-númerið. Ég frétti af því að hann hefði sagt að hann væri að hjálpa gömlum manni sem væri farinn að treysta honum fyrir debetkortinu hans, en það er bara lygi,“ sagði gamli maðurinn við DV í sumar.
Jónas Halldór var tilbúinn að upplýsa við DV að rætt væri við fleiri aðila vegna málsins en hann vildi ekkert geta upp um hvort aðrir væru grunaðir um misferli. Ljóst er þó að um er að ræða flóknari gjörninga en einfalda bankamillifærslu. „Peningar færast frá a til b, frá b til c og frá c til d. Þetta eru nokkrir aðilar sem við höfum rætt við og þetta er rannsakað út frá ákvæðum laga um peningaþvætti,“ segir Jónas Halldór.
Jónas Halldór segir einnig að það liggi fyrir hvað mikið fjártjón varð hjá gamla manninum en hann vill ekki veita upplýsingar um upphæðina. Gamli maðurinn sagði við DV í sumar að hinn meinti þjófur hefði stolið af honum 2,8 milljónum.