Forbes sagði frá því í dag að verðmæti eignasafns Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafi rýrnað um 600 milljónir Bandaríkjadollara á einu ári. Það jafngildir um 78 milljarða tapi á 12 mánuðum.
Trump hangir enn inni á lista yfir 400 ríkustu Bandaríkjamennina, en hann er nú í sæti 339 og hefur fallið um 64 sæti á tímabilinu. Samkvæmt umfjöllun Forbes er þar fyrst og fremst kórónaveirufaraldrinum um að kenna en margar eignir hans eru sérstaklega viðkvæmar fyrir áhrifum faraldursins á efnahagslífið. Hann á til að mynda ríkulegar eignir í stórborgum sem hafa farið illa úr Covid-19, sem og hótel.
Til dæmis á hann 30% hlut í 1290 Avenue of the Americas, sem er metin á 342 milljónir Bandaríkjadollara. Verðmætið rýrnaði um 109 milljónir dala á síðasta ári og er hlutur Trumps í því tapi einu um 32.7 milljónir Bandaríkjadala. Þá tapaði Trump um 70 milljónum á Trump Tower í New York, þar sem hann jafnframt heldur heimili, og 65 milljónum á 40 Wall Street.
Heilt yfir er rýrnun á verðmæti fasteigna í eigu Trumps um helmingur taps Trumps, eða um 326 milljónir dollara. Verðmæti aðeins einnar eignar jókst á undanförnu ári. Nam sú aukning um tveimur milljónum dollara.
Sömu sögu er að segja af golfklúbbum Trumps sem hrundu í verði undanfarið. Eftir sem áður hefur verðmæti Mar-a-Lago klúbbsins í Palm Beach í Flórída aukist, enda Trump duglegur að stunda klúbbinn og má ætla að það eitt og sér trekki talsverðan fjölda að.