Flestir hafa með réttu litið á Vesturgötu 7 sem friðsælan stað. Þar er til húsa Heilsugæsla Miðbæjar og eldri borgarar búa þar í góðum húsakynnum, ýmist sem leigjendur eða eigendur þjónustuíbúða. En friðurinn var úti í sumar er borgin leigði íbúð á þriðju hæð hússins miðaldra óreglumanni. Íbúð hans fyllist oft af öðrum óreglumönnum, slagsmál brjótast út, rúður eru brotnar, ásakanir eru um þjófnað frá íbúum og bæði maðurinn og gestir hans eru sagðir hafa gert stykki sín í lyftuna í húsinu.
Í gær brutust út heiftarleg slagsmál í íbúð mannsins og kom lögregla á vettvang. Er DV kannaði aðstæður í dag hafði verið neglt fyrir dyr og glugga að íbúðinni og maðurinn var ekki sjáanlegur. Að sögn íbúa mun hann koma aftur, samkvæmt reynslu, en viðlíka uppákomur hafa orðið áður.
Þess má geta að stæka hlandlykt leggur úr lyftunni í dag. Kona sem starfar í heimahjúkrun varð stuttlega fyrir svörum og staðfesti hún að menn hefðu kastað af sér þvagi ítrekað í lyftunni. Í fylgd hennar var Jóhanna Snorradóttir, íbúi í húsinu, en hún býr í eignaríbúð á sama stigagangi og maðurinn leigir í. Jóhanna segist ávallt hafa lifað í friði og ró þarna að Vesturgötu 7 þar til maðurinn flutti inn í sumar. „Þeim ber skylda til að fjarlægja hann, að mínu mati,“ segir Jóhanna, en hún ber sig þó vel yfir ástandinu: „Ef mér kemur ekki eitthvað við þá loka ég eyrunum, ég hef gert það í gegnum tíðina. En maður hélt að það yrði friður hérna.“
„Hann braut glerið á hurðinni, það voru brotnar sex rúður hérna á einni nóttu,“ segir Jón Karlsson, annar íbúi í húsinu. Jón er 81 árs gamall og býr á næstu hæð fyrir neðan manninn. Þrátt fyrir fjarlægðina hefur hann orðið mikið var við það róstur sem fylgt hefur þessum nýja og óstýriláta nágranna.
„Það eru rónar inni hjá honum, einu sinni taldi ég sjö manns inni í íbúðinni hjá honum,“ segir Jón sem bauð blaðamanni og ljósmyndara inn til sín. Vistarverur Jóns eru merkilegar fyrir þær sakir að þar úir allt og grúir af módelgripum sem hann ýmist smíðar eða gerir við fyrir aðra. Ber þar mikið á fagurlega smíðuðum seglskipum, auk þessu eru rokkar, lítil hús og margt fleira sem prýðir vistarverurnar.
Jón, sem leigir af borginni, segir að sér falli aldrei verk úr hendi og hann vinni oft fram til klukkan þrjú á nóttunni. Á yngri árum starfaði hanni meðal annars við smíðar og sjómennsku.
Jón hefur unað sér afar vel að Vesturgötu 7 allt þar til nágranninn óstýriláti flutti inn. Hann tekur líka fram að starfsfólk á staðnum sé til fyrirmyndar. En íbúarnir verði að losna við þennan mann út. „Við erum að vinna í því að losna við þetta mannhelvíti út,“ segir Jón, ómyrkur í máli.
DV sendi fyrirspurn vegna málsins á Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Samkvæmt svarinu hefur leigjandinn nú yfirgefið húsnæðið fyrir fullt og allt:
„Félagsbústaðir eiga íbúðir að Vesturgötu 7 sem eru í útleigu. Því miður hefur leigjandi einnar íbúðarinnar undanfarið átt við vaxandi neysluvanda að stríða sem hefur leitt til ónæðis frá íbúðinni og óæskilegs umgangs gesta í húsið. Félagsbústaðir hafa brugðist við atvikum í íbúðinni og þeirri þróun sem þar hefur orðið af festu og í samræmi við húsaleigulög. Í gær tryggðu starfsmenn Félagsbústaða að leigjandinn og gestir sem haldið hafa til hjá leigjandanum hafa nú yfirgefið húsnæðið fyrir fullt og allt.“