Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á lögreglulögum þar sem endurskoðun á lögreglulögum eru lögð til ásamt breytingum á hlutverki nefndar um eftirliti lögreglu. Þar er jafnframt ætlunin að lögfesta lögregluráð sem tók til starfa á árinu. Í lögregluráði eiga sæti allir lögreglustjórar á landinu, auk héraðssaksóknara. Ríkislögreglustjóri er formaður ráðsins.
Þá er jafnframt ætlun dómsmálaráðherra að færa lög um valdbeitingu og vopnaburð lögreglu úr vopnalögum og yfir í lögreglulög. Samkvæmt skýrslu um lagabreytinguna sem fylgir með umsagnabeiðninni í samráðsgátt, er með lagabreytingunni „viðkomandi ákvæðum eðli máls samkvæmt fundinn betri staður í lögum.“
Eins og venjan er í samráðsgátt er almenningi boðið að senda inn umsagnar um frumvarpið. Það er hægt að gera hér.
Um vopnaburð lögreglu er í dag raunar lítið fjallað um í íslenskum lögum. Í vopnalögum segir einfaldlega að lögin gilda ekki um vopn sem í eigu eru Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa, erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða undir stjórn lögreglu. „Ráðherra setur um þau sérstakar reglur.“ Það sama er uppi á teningnum í lögreglulögum.
Reglugerð sem tekur á vopnaburði lögreglu gengur undir því þjála nafni „Reglugerð um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna.“ Þar er fjallað um notkun handjárna, bensla, fótajárna, kylfa, gas- og úðavopna, sprengivopna og skotvopna.
Frumvarpið sjálft að lagabreytingunni fylgir ekki með í samráðsgáttinni, en DV hefur sent erindi á dómsmálaráðherra þar sem óskað er eftir afriti af drögunum.