Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, segir að ásakanir á hendur Samherja í þætti Kveiks í nóvember í fyrra séu byggðar á misskilningi og framsetningin hljóti annaðhvort að vera yfirsjón eða illvilji. Hann trúi því að um yfirsjón hafi verið að ræða.
Í þætti Kveiks var því haldið fram að Samherji ætti aflandsfélag á Marshall-eyjum sem heiti Cape Cod og þangað hafi verið flutt fjármagn úr dótturfélögum Samherja, einnig hafi peningar frá Cape Cod runnið til dótturfélaganna.
Í Samherjaþættinum er fullyrt að þetta sé alrangt. Eini tilgangur greiðslna inn á reikninga Cape Cod hafi verið að tryggja að skipverjar frá Rússlandi og Úkraínu, sem störfuðu fyrir Samherja í Namibíu, fengju launagreiðslur á réttum tíma.
Í þætti Kveiks segir að norski ríkisbankinn DNB hafi lokað á viðskipti við Cape Cod vegna meints peningaþvættis Samherja. Í Samherja-þættinum er þetta sagt alrangt og að ástæðan fyrir áhyggjum DNB hafi verið Krímskagadeila Rússa og Úkraínumanna árið 2014.
Þáttinn má sjá í spilaranum hér að neðan: