Guðný H. Guðmundsdóttir mun láta af störfum sem forstöðumaður hjúkrunar á hjúkrunarheimilinu Skjóli í lok þessa mánaðar. Þetta kom fram á starfsmannafundi sem haldinn var í síðustu viku. Á fundinum, sem stýrt var af hjúkrunarfræðingum, var starfsfólki boðið að tjá sig um málefni Skjóls, starfsskilyrði þar og það sem fram hafði komið í fjölmiðlum um starfsemina á Skjóli.
Verkefnisstjóri hjúkrunar og deildarstjóri annarrar hæðar á Eir stýrðu fundinum sem þær sögðu „óformlegt spjall,“ og sögðu hann koma í kjölfar blaðagreinar DV. Eins og fram kom í frétt um málið fyrir helgi hafði póstur verið sendur af stjórnendum Skjóls á aðstandendur heimilisfólks á Skjóli þar sem fréttaflutningi DV var vísað til föðurhúsanna, og hann sagðir falskur.
„Finnst ykkur eitthvað rétt í þessari grein, eða finnst ykkur þetta alveg út í bláinn,“ spurðu stjórnendur fundarins fundarmenn. „Nei, þetta er það ekki,“ svaraði starfsfólkið. „Það er margt í greininni sem er bara rétt, umtalið og annað, mórallinn, ofbeldið og svona,“ svöruðu fundarmenn.
Á fundinum viðruðu starfsmenn jafnframt miklar áhyggjur af manneklu sökum ítrekaðra veikinda starfsfólks og erfiðum starfsskilyrðum. „Það eru bara allir dauðþreyttir og fólk er bara búið á því,“ sagði ónefndur starfsmaður á fundinum.
Í skriflegum svörum Skjóls til blaðamanns DV kom fram að Skjól stendur fyrir öflugri kennslu og að nýir starfsmenn fara í svokallað aðlögunarferli er þeir hefja störf á Skjóli. Á starfsmannafundinum kom hins vegar fram að starfsmönnum sé ítrekað „hent í djúpu laugina,“ eftir aðeins tvo daga í starfi. Einn starfsmaður hafði á því orð að mannskapur sé ekki til staðar til að fylgja aðlögunarstefnunni eftir. „Við höfum ekki einu sinni mannskap til þess að hafa þau mjög lengi í aðlögun, það er yfirleitt bara sorrí, geturðu farið í djúpu laugina núna, bara eftir tvo daga í aðlögun. […] Ég man ekki eftir að fólk hafi fengið fulla aðlögun.“ Enn fremur sagði starfsfólk ekki fá nægilega nógu góða fræðslu um Alzheimer sjúkdóminn.
Svör starfsmannanna virðast hafa komið fundastýrum nokkuð á óvart. Það rímar við fyrri orð Guðnýjar og annarra stjórnenda Skjóls þar sem fram kemur að stjórnendur séu hissa á því að gripið sé til þess úrræðis að fara með málið í blöðin án þess að það sé rætt eftir réttum ferlum innanhúss á Skjóli.
Hið rétta er að haldnir hafa verið fundir milli starfsmanna og deildarstjóra. DV hefur það eftir fjölda starfsmanna Skjóls. Aðgerðaleysi í kjölfar þeirra funda varð svo til þess að starfsmenn leituðu til stéttarfélags þeirra. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, staðfesti þetta í samtali við blaðamann DV fyrir helgi. Sagði hún að kvartanir hafi meðal annars beinst að starfsanda, verkefnum sem umönnunarfólk var látið sinna og samskiptum við stjórnendur.
Landlæknir sinnir lögum samkvæmt eftirliti með starfsemi hjúkrunarheimila. Síðasta úttekt á starfsemi Skjóls er síðan 2012 og því átta ára gömul. Í fyrra var gerð hlutaúttekt á Skjóli sem, samkvæmt Landlækni, átti að fylgja eftir á þessu ári. Eftirfylgninni var svo frestað vegna Covid-19 faraldursins.
Í lok fundarins kom það fram að Guðný H. Guðmundsdóttir myndi, sem fyrr sagði, láta af störfum næstu mánaðamót. Léttist talsvert andrúmsloftið meðal umönnunarstarfsfólks við þessar fréttir, enda ljóst að mestan styr virðist standa um störf Guðnýjar. Kvartað var yfir Guðnýju til Persónuverndar í maí í fyrra vegna meintra njósna hennar. Í kvörtuninni kemur fram að Guðný „notar öryggismyndavélar til að njósna um fólk og hefur gert í tvö ár.“ Segir sá sem kvartar hafa eitt sinn farið inn á skrifstofu hennar og séð mynd af sér á skjá þar. Enn fremur kemur fram í kvörtuninni að aðrir hafi kvartað yfir meintum njósnum Guðnýjar.
Þá hafa heimildarmenn DV einnig lýst því að Guðný fari í gegnum persónulega fataskápa starfsmanna og skammist í þeim sem hafa of mikið af vinnufatnaði til umráða. Mun Guðný hafa tekið sérstaklega fast á óléttum starfsmanni eitt sinn og öskrað á hana svo aðrir heyrðu. Sakarefnið var þá að hafa of margar vinnuflíkur á sínum snærum.
Guðný hefur starfað á Skjóli frá upphafi og verið forstöðumaður hjúkrunar þar frá árinu 2009. Áður starfaði Guðný á Landspítalanum og gegndi þar m.a. aðstoðardeildarstjórastöðu. Guðný er hjúkrunarfræðingur og lauk námi í rekstri og stjórnun í heilbrigðisþjónustu frá endurmenntun HÍ árið 2003.