fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Fréttir

Segja erfitt að losna undan viðskiptum við Reebok Fitness – „Ég ætla með þetta lengra, ég fer í Neytendasamtökin“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 5. september 2020 08:00

Frá stöð Rebook Fitness að Lambhagavegi. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkrar umræður spunnust um það í stórum en lokuðum Facebook-hópi í vikunni að erfiðlega gengi að losna undan áskrift hjá líkamsræktarstöðvum Reebok Fitness. Tilboð sem fór í gang rétt fyrir upphaf samkomubanns í mars hefur valdið ruglingi og ekki bætir úr skák að mjög erfitt er að ná sambandi við fyrirtækið.

Reebok Fitness rekur líkamsræktarstöðvar í Holtagörðum, Tjarnarvöllum í Hafnarfirði, Lambhagavegi í Reykjavík, Faxafeni í Reykjavík og Urðarhvarfi í Kópavogi. Þá rekur fyrirtækið sundlaugar í Kópavogi og Hafnarfirði.

Á heimasíðu fyrirtækisins er að finna eyðublað til að hafa samband við fyrirtækið. Þar kemur fram að fyrirtækið sé ekki með síma og að það áskilji sér þann rétt að svara ekki ókurteisum fyrirspurnum. Tekið er fram að öll samskipti við fyrirtækið eigi að fara fram á þessari síðu.

Líkamsræktarstöðvum skellt í lás og hún gat ekki nýtt sér tilboðið

DV ræddi við konu sem segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við Reebok Fitness. „Ég var með kort hjá þeim í einhvern tíma en svo hætti ég. Þá hafa þeir samband við mig í mars og bjóða mér einhvers konar afmælistilboð, tveggja vikna aðgangur á níu krónur. Sölumaðurinn tók fram að ég þyrfti að segja þessu upp ef ég vildi síðan ekki halda áfram. Ég samþykkti þetta en þetta var sama dag og samkomubannið var sett á og öllum líkamsræktarstöðvum var skellt í lás. Ég gat aldrei nýtt mér þetta og ég skráði mig aldrei inn á síðuna þeirra. Svo koma mánaðamót en strákurinn sem seldi mér þetta hafði tekið fram að það þyrfti að segja upp fyrir mánaðamót. Ég reyni það en kemst ekki inn á síðuna þeirra og sendi þá tölvupóst á strákinn sem seldi mér þetta tilboð. Ég fæ póst sem hann segir að þau vilji ekki hafa neina óánægða viðskiptavini og hann ætli að koma þessu til skila. Svo heyri ég ekkert meira frá þeim, en tek svo eftir því núna á mánudaginn að þeir eru búnir að rukka af kortinu mínu þrisvar sinnum.“

Er um að ræða þrjár færslur upp á 6.990 krónur hver. „Ég sendi þeim póst fyrir helgi, bæði á þann sem hafði selt mér þetta og á almenna netfangið þeirra, en fæ svar frá þeim um að ég hafi átt að fá einhvern tölvupóst í lok júní um að ég ætti að segja upp fyrir 1. júlí en þennan tölvupóst fékk ég aldrei og hef ekki getað fundið hann.“

Konunni finnst líka óeðlilegt að enginn hafi skrifað undir þetta svar sem hún fékk við þessum pósti, hún viti ekki við hvern hún er að tala.

Konan segist hafa reynt árangurslaust að segja þessari áskrift upp. „Ég kemst ekki inn á síðuna þeirra og þeir eru ekki með síma. Ég sagði þeim að ég hefði aldrei fengið þennan póst og það væri ekki mitt að passa upp á hvað starfsfólkið segði við mig. Ég ætla með þetta málið lengra, ég fer í Neytendasamtökin.“

Orð gegn orði eftir samskipti við konu í afgreiðslu

Önnur kona sem DV ræddi við segir að dregið hafi verið af kreditkorti hennar í eitt og hálft ár án þess að hún hefði tekið eftir því og án þess hún stigi fæti inn í stöðvar Reebok Fitness. Upphæðin er samtals um 100 þúsund krónur.

„Það var auðvitað aulagangur í mér að fylgjast ekki með heimabankanum mínum,“ viðurkennir konan en hún hefur ekki stigið fæti inn í stöðvar fyrirtækisins síðan 2018, það ár sagði hún upp áskriftinni og afgreiðslukona meðtók þau skilaboð og sagðist hafa fært þau inn í tölvukerfið.

„Því miður þá standa þarna orð gegn orði,“ segir konan en hún telur fáránlegt að ekki sé hægt að ná í fyrirtækið símleiðis.

„Það eru margar konur búnar að lenda í einhverju svona. Reebok Fitness gefur það út að þegar þú segir upp áskriftinni eigir þú að fá staðfestingu um það í tölvupósti. Ég lokaði áskriftinni í gær en ég fékk engan staðfestingarpóst. Þá sendi ég tölvupóst þess efnis að ég væri búin að segja upp áskriftinni og fékk þetta svar til baka: „Já, ég sé það.“ – Þessi svarpóstur frá Reebok Fitness sem konan fékk var óundirritaður.

Konan segir að það sé allt of erfitt og ótryggt að segja upp áskrift hjá Reebok Fitness.

Tilboðið gilti þegar líkamsræktarstöðvar voru lokaðar

DV sendi fyrirspurn vegna málsins til Reebok Fitness. Fyrir svörum varð maður að nafni Ágúst Ágústsson sem skrifar:

„Góðan dag nafni
Ég býst við að þú sért að vitna í umræðu sem var á facebook núna nýlega, ég heyrði einmitt af henni.

Þetta er líklega tilkomið vegna söluátaks sem farið var í í vor og hringt var í fyrrverandi viðskiptavini, þeim boðið að koma aftur í áskrift fyrir 9 kr fyrsta mánuðinn og 6990 eftir það.

Hægt var að segja upp áskriftinni áður en næsta áskriftartímabil hæfist og þannig borga aðeins þessar 9 kr.

Svo kom covid lokun og þá urðu þessar tvær vikur að mánuði sem var tilkynnt með tölvupósti á alla sem þáðu tilboðið. Það voru mjög margir sem þáðu þetta tilboð, einhverjir urðu eftir í áskrift og mæta reglulega, enn einnig fjölmargir sem sáu sér ekki fært að nýta sér aðganginn og sögðu einfaldlega upp.

Síðasti póstur sem var sendur byrjun júní áður en fyrsta rukkun gat átt sér stað:“

 

Þess má geta að líkamsræktarstöðvar voru lokaðar frá 24. mars til 25. maí og því hefur enginn getað nýtt sér nein tilboð á því tímabili. Í boði var að taka þetta út eftir að stöðvarnar opnuðu aftur eins og ofangreint ber með sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ráðuneytið hefur í þrígang skammað Langanesbyggð vegna lögbrota – „Andrúmsloftið er að mínu mati ekki fólki sæmandi“

Ráðuneytið hefur í þrígang skammað Langanesbyggð vegna lögbrota – „Andrúmsloftið er að mínu mati ekki fólki sæmandi“
Fréttir
Í gær

Íslensk kona í haldi lögreglu á Tenerife eftir blóðuga árás – Gekk í skrokk á tengdamóður sinni og mágkonu

Íslensk kona í haldi lögreglu á Tenerife eftir blóðuga árás – Gekk í skrokk á tengdamóður sinni og mágkonu