Krabbameinsfélagið hefur ekki fengið gögn frá Sjúkratryggingum Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins. Þar kemur fram að félagið hafi óskað eftir því í gær að Sjúkratryggingar Íslands afhentu félaginu gögn sem vísað var til í Kastljósi síðastliðið fimmtudagskvöld.
Á hádegi í dag höfðu Sjúkratryggingar ekki orðið við beiðninni. Því fór félagið í dag fram á neyðarfund með Sjúkratryggingum vegna þess vantrausts sem fram kom af hálfu fulltrúa Sjúkratrygginga á öryggi starfsemi Leitarstöðvarinnar. Sjúkratryggingar höfnuðu þeirri beiðni.
Krabbameinsfélagið segir ástandið grafalvarlegt og lýtur svo á að Sjúkratryggingar íslands leyni gögnum fyrir sér. Í tilkynningunni segir:
„Tilefni beiðnarinnar er að í Kastljósi var birt viðtal við fulltrúa Sjúkratrygginga í starfshópi um endurskoðun kröfulýsinga vegna skimana fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum. Yfirlýsingar hans komu fulltrúum Krabbameinsfélagsins sem sátu í starfshópnum í opna skjöldu. Efni þeirra hafi heldur ekki komið fram í tengslum við endurnýjun þjónustusamnings félagsins við Sjúkratryggingar um skimanirnar, sem á undanförnum þremur árum hefur verið framlengdur fimm sinnum.
Krabbameinsfélagið telur grafalvarlegt ef heilbrigðisyfirvöld hafa búið yfir mikilvægum upplýsingum um starfsemi Leitarstöðvarinnar án þess að félaginu eða starfsfólki Leitarstöðvar hafi verið gert viðvart.
Það skal ítrekað að Sjúkratryggingar hafa ekki gert neinar úttektir á framkvæmd þjónustusamningsins.
Krabbameinsfélagið vinnur að hagsmunum krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra með það að markmiði að fækka þeim sem greinast með krabbamein, fjölga þeim sem lifa og bæta lífsgæði þeirra sem greinast og lifa með krabbamein. Öryggi og velferð kvenna sem nýta sér boð um skimun hefur ávallt skipt félagið miklu máli. Hluti af því er að viðhalda trausti á gagnsemi skimana og að þær veiti konum ekki falskt öryggi.
Krabbameinsfélagið hefur upplýst bæði landlækni og heilbrigðisráðuneytið um þá stöðu sem uppi er.“