Líkt og greint var frá í Fréttablaðinu í gær hefur Arnar Þór Jónsson, lögmaður Steinbergs Finnbogasonar krafist þess af Héraðssaksóknara að lögreglumenn sæti viðeigandi viðurlögum vegna framferðis þeirra við handtöku Steinbergs árið 2016.
Steinbergur var kallaður í febrúar 2016 að skrifstofu Héraðssaksóknara við Skúlagötu vegna yfirheyrslu skjólstæðings síns. Þegar þangað var komið var Steinbergi tilkynnt af rannsóknarlögreglumönnum að hann væri sjálfur handtekinn vegna meints fjárþvættis. Steinbergur var handjárnaður og fluttur í handjárnum að skrifstofu sinni þar sem húsleit fór fram. Var Steinbergur látinn sæta handjárnun á meðan. Í kjölfar húsleitarinnar á skrifstofu Steinbergs, þar sem lagt var hald á umtalsvert magn gagna, var farið að heimili Steinbergs þar sem önnur húsleit var framkvæmd.
Steinbergur var svo fluttur í fangaklefa þar sem hann dvaldi þar til hann var dæmdur í gæsluvarðhald daginn eftir í tvo daga. Þá tvo daga var hann hýstur við bágar aðstæður í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg sem fyrir löngu síðan stóð til að loka.
Rannsókn málsins dróst verulega á langinn og fór svo að lokum að það var látið niður falla 19 mánuðum síðar. Á meðan hafði hann stöðu grunaðs manns í sakamáli. Í millitíðinni úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að lögreglumenn héraðssaksóknara höfðu gengið alltof langt í haldlagningu á gögnum. Var lögreglumönnunum gert að eyða því sem þeir lögðu hald á. Á meðal þeirra gagna voru skjöl er tengdust málsvörn skjólstæðinga Steinbergs og óumdeilt að um þau léki trúnaðar vegna lögmannsstarfa hans.
Steinbergur kærði ríkið vegna harðræðis sem hann var látinn sæta að ósekju. Í dómi Héraðsdóms var var það tiltekið að í valdbeitingu lögreglu gegn Steinbergi hafi falist ólögmæt meingerð. Í meðferð málsins fyrir Héraðsdómi kom upp ágreiningur milli lögreglumanna annars vegar og verjanda Steinbergs og vitna hins vegar.
Lögreglumenn sögðu ýmist að Steinbergur hafi ekki verið settur í handjárn, að þeir mundu ekki hvort hann hafi verið settur í handjárn eða vísuðu í lögregluskýrslu, þar sem ekkert er skrifað um beitingu handjárna. Tvö vitni báru fyrir rétti að hann hafi vissulega verið handjárnaður og mat dómstóll trúverðugleika Steinbergs og vitnanna tveggja meiri en sjö lögreglumanna.
Ríkið var dæmt til að greiða Steinbergi eina og hálfa milljón króna vegna málsins, auk lögmannskostnaðar Steinbergs vegna málarekstursins gegn ríkinu, um tvær og hálfa milljón króna. Samtals þarf ríkið því að greiða um fjórar milljónir í kjölfar dómsins.
Um miðjan ágúst varð það ljóst að þessum dómi héraðsdóms yrði ekki áfrýjað.
Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Steinbergs, hefur nú sem fyrr segir sent kvörtun vegna framferðis lögreglumanna og saksóknara í máli Héraðssaksóknara gegn sér árið 2016 og krafist þess að þeir verði látnir sæta agaviðurlögum.
Segir í bréfinu:
Erindi þess bréfs er að kvarta formlega yfir framangreindum aðferðum saksóknara og lögreglumanna. Tilgangurinn er m.a. að koma í veg fyrir að aðrir, t.a.m. lögmenn, þurfi að sæta sambærilegu verklagi í framtíðinni. Þeir starfsmenn sem komu að umræddum aðgerðum eru eftirgreindir:
Björn Þorvaldsson, saksóknari sem útbjó gæsluvarðhaldsbeiðni og krafðist gæsluvarðhalds yfir umbj. mínum; hafði yfirumsjón með lögfræðilegum þáttum rannsóknarinnar, og ákvað m.a. hversu lengi umbj. minn hafði stöðu sakbornings.
[…], lögreglunúmer 0622, sem kom að rannsókn málsins frá upphafi, þ.m.t. skýrslutökum og ákvarðanatöku um þvingunarráðstafanir.
[…], lögreglunúmer 0518, sem kom að rannsókn málsins frá upphafi, þ.m.t. skýrslutökum og ákvarðanatöku um þvingunarráðstafanir.
[…], lögreglunúmer 9117, sem handtók umbj. minn.
[…], lögreglunúmer 0708, sem stjórnaði húsleitum.
[…], lögreglunúmer 0616, sem var viðstaddur handtöku og húsleit.
[…], lögreglunúmer 0508, sem var viðstaddur handtöku og húsleit.
[…], lögreglunúmer 0319, sem var viðstaddur húsleit.