fbpx
Þriðjudagur 01.apríl 2025
Fréttir

Lögreglustjórakapallinn á Suðurnesjum – Ásakanir um einelti og uppreisn matarklúbbsins

Tobba Marinósdóttir
Föstudaginn 4. september 2020 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðrómur hefur gengið innan embættis Lögreglustjórans á Suðurnesjum síðan í maí á þessu ári um að Ólafur Helgi Kjartansson væri á „leiðinni út“ og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá embættinu, yrði næsti lögreglustjóri. Fyrr í sumar var tilkynnt að Ólafur Helgi myndi ljúka störfum í lok ágúst og hefja störf í dómsmálaráðuneytinu og kom það því mörgum að óvörum þegar hann hætti skyndilega þann 21. ágúst. DV ræddi við tug heimildarmanna sem starfa hjá lögreglunni og skyldum embættum. Lýstu þó nokkrir starfsmenn lögregluembættisins á Suðurnesjum yfir gífurlegri vanlíðan og töluðu um „eitrað andrúmsloft“ og báru við hræðslu og ógnarstjórn.

Dularfulli skjalaskápurinn

DV hefur fjölda heimilda fyrir því að á skrifstofu mannauðsstjóra lögreglunnar á Suðurnesjum sé skjalaskápur sem hafi að geyma viðkvæm mannauðsgögn sem ekki eru skráð í hið hefðbundna GoProkerfi. Þeim gögnum hafi fráfarandi lögreglustjóra ekki tekist að fá aðgang að. Umræða hefur átt sér stað síðustu vikur um ráðningarmál í embættinu og meinta spillingu í þeim málum en gögnin þykja geta varpað ljósi á stöðu þeirra mála. DV greindi frá því fyrir tveimur vikum að Ólafi Helga hafi verið gert að láta þegar af störfum þarsíðasta föstudag. Heimildarmenn DV sögðu að það væri vegna þess að Ólafur Helgi ætlaði sér að komast inn í skjalaskápinn í gögnin sem hann hefur að geyma, en honum aðgang. Hafði hann fengið þau svör frá lögfróðum að hann, sem lögreglustjóri, ætti að eiga möguleika á að komast í gögnin, ef ástæður mæltu með því. Mun Ólafur þá einnig hafa viljað kanna starfskjör aðstoðarsaksóknara, sem hann taldi rökstuddan grun um að væru óeðlileg. Eins er skýrt kveðið á um í lögreglulögum að undirmönnum lögreglustjóra beri að hlýða yfirboðara sínum.

Barst þá símhringing frá dómsmálaráðuneytinu og var Ólafi tilkynnt að ráðuneytisstjóri væri á leiðinni og hann væri að ljúka störfum þá þegar. Ólafur Helgi staðfesti í samtali við DV að ráðuneytisstjóri, Haukur Guðmundsson, hafi mætt á starfsstöðina, en það þykir furðulegt í ljósi þess að Ólafur sjálfur og ráðuneytið halda því fram að starfslok hans hafi átt sér stað í mesta bróðerni. Hins vegar ber heimildum DV saman um að Ólafur sé í viðkvæmri stöðu og geti því ekki leyft sér að tjá sig í óþökk ráðuneytisins.

DV hafði samband við Grím Hergeirsson, settan lögreglustjóra á Suðurnesjum, og spurði út í skjalaskápinn og hvort lögreglustjóri ætti ekki að hafa aðgang að þeim gögnum sem þar eru geymd. Grímur benti á að forstöðumenn ættu að komast í gögnin ef gætt sé að málefnalegum ástæðum og gert með lögmætum hætti. „Hér hjá embættinu eru upplýsingar er varða starfsmannamál geymdar í málaskrárkerfi þess og í sérstakri hirslu þar sem aðgangsstýring er viðhöfð. Ekkert mælir gegn slíku fyrirkomulagi enda sé öryggi upplýsinganna tryggt í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga.“

Sjá einnig: Uppnám á starfsstöð lögreglustjórans á Suðurnesjum

Matarklúbburinn

Uppreisnin gegn Ólafi Helga er rakin til svonefndra fjórmenninga, eða „matarklúbbsins“ líkt og heimildarmenn og fjölmiðlar hafa vísað til hans. Er síðara viðurnefnið rakið til reglulegra hittinga Öldu Hrannar og félaga hennar sem eru saman í matarklúbbi.

Fjórmenningarnir samanstanda af Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, mannauðsstjóranum Helga Þ. Kristjánssyni, yfirlögregluþjóninum Bjarneyju Annelsdóttur og fjármálastjóranum Pétri Ó. Jónssyni.

Alda Hrönn

Alda Hrönn hóf störf á Suðurnesjum árið 2017 eftir að hafa tímabundið verið í verkefnum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þarna hafði Alda nýlega verið sökuð um brot í starfi og hafði um tíma stöðu sakbornings í svonefndu LÖKE-máli. Einnig kom Alda við sögu í máli lögreglumanns sem var ranglega sakaður um spillingu, mál sem ríkið þurfti í tveimur aðskildum tilvikum að greiða bætur vegna.

Alda vann um árabil náið með Sigríði Björk Guðjónsdóttur, sem í dag er ríkislögreglustjóri. Í júlí greindi Vísir frá því að ótilgreindur fjöldi starfsmanna hafi leitað til dómsmálaráðuneytisins með skriflegar kvartanir undan fyrirhugaðri hallarbyltingu „matarklúbbsins“. Var þar greint frá því að fjórmenningarnir beittu sér fyrir því að upplýsingum væri haldið frá Ólafi Helga og að ætthygli ætti sér stað í ráðningarmálum. Bréfritari tekur fram að Alda Hrönn hafi talað illa um starfsmenn við Ólaf Helga og lýsir bréfritari því að honum líði almennt illa í vinnunni og finni fyrir óöryggi.

Helgi Þ. Kristjánsson

Helgi var ráðinn inn sem mannauðsstjóri hjá embættinu haustið 2018. Áður hafði hann starfað sem mannauðsstjóri rannsóknarsviðs hjá Landspítalanum, en þar starfaði og starfar enn Bára Hildur Jóhannsdóttir, tvíburasystir Öldu Hrannar. Þegar Helgi tilkynnti um nýju stöðuna á Facebook skrifaði Bára af því tilefni: „Frétti af einni sem var mjög ánægð að fá þig til starfa, og annarri sem mun sakna þín í starfi en óskar þér alls hins besta.“ Þykir þetta lýsa nánum tengslum Helga og Öldu.

Staða yfirlögregluþjóns losnaði við embættið árið 2018. Einn umsækjandi um það starf telur Öldu Hrönn hafa haft óréttmæt áhrif á ráðningarferlið og segir í bréfi sem sent var yfirstjórn embættisins að Helgi sé verulega vilhallur Öldu og fullt erindi sé að taka ráðningarferli hjá embættinu til skoðunar. Haustið 2019 var staða yfirlögregluþjóns á Keflavíkurflugvelli auglýst. Helgi sá þá um hæfnismat, en það mat hefur nýlega vakið mikla athygli þar sem í því var fimm ára lögfræðimenntun eins umsækjanda metin til jafns við markþjálfunarnám eiginmanns Öldu Hrannar. Samkvæmt vefsíðu Háskólans í Reykjavík er hægt að fá markþjálfun metna til 7,5 ECTS eininga í meistaranámi í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði. Fimm ára háskólanám í lögfræði samanstendur af 400 ECTS einingum.

Sjá einnig: Stórfurðulegt hæfnismat Lögreglunnar á Suðurnesjum

Bjarney Annelsdóttir

Sú sem fékk stöðu yfirlögregluþjóns í kjölfar auglýsingarinnar árið 2018 var Bjarney Annelsdóttir. Ber heimildum DV saman um að Bjarney sé ákaflega hæf í starfi. Hins vegar hafi annar umsækjandi um starfið tilgreint fjóra umsagnaraðila og framvísað meðmælabréfi, en engu að síður hafi mannauðsstjóri farið þá leið að fá Öldu Hrönn til að veita umsögn, þó hún hafi ekki verið meðal tilgreindra umsagnaraðila. Umsögn Öldu Hrannar var hörð og umsækjanda var ekki veittur andmælaréttur. Ekki hafa fengist skýringar á því hvers vegna Alda var fengin til að veita umsögn og hvers vegna ekki var leitað til tilgreinda umsagnaraðila eða tekið tilliti til skriflegrar umsagnar.

Bjarney fékk stöðuna, en hún er góð vinkona Öldu samkvæmt fjölmörgum heimildum DV og þar að auki má sjá það af samfélagsmiðlum þeirra Öldu og Bjarneyjar að eiginmenn þeirra virðast jafnframt vera vinir. Eiginmaður Bjarneyjar vinnur einnig hjá embættinu og í bréfi sem ótilgreindur fjöldi starfsmanna sendi á dómsmálaráðherra sagði að faðir Bjarneyjar hafi nýlega fengið stöðuhækkun og frænka hennar fastráðningu. DV hefur óskað eftir upplýsingum um þá starfsmenn sem ráðnir hafa verið í stöður hjá embættinu undanfarin ár, við bæði Grím lögreglustjóra og embætti ríkislögreglustjóra. Svör höfðu ekki fengist þegar blaðið fór í prentun.

Óli Ásgeir Hermannsson

Óli Ásgeir Hermannsson er aðstoðarsaksóknari við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Hann er búsettur í Frakklandi. Þetta fyrirkomulag hefur vakið nokkra athygli, þó svo Óli sé ekki talinn með í áðurnefndum „matarklúbbi“.

Heimildum DV ber saman um að ekkert sé út á störf Óla Ásgeirs að setja, hins vegar hafi honum boðist kjör sem engum öðrum standi til boða. Það er, hann fær að gegna sinni stöðu við embættið þrátt fyrir að búa ekki á landinu og embættið hefur greitt allan ferðakostnað hans til og frá landinu. Mun hann hafa komið til Íslands eina viku í hverjum mánuði áður en COVID-19 faraldurinn skall á. Síðan þá hefur hann alfarið verið í fjarvinnu, eða þar til hann fór í veikindaleyfi á svipuðum tíma og Alda Hrönn og Helgi.

Ekki er talið að samþykki lögreglustjóra hafi fengist fyrir fyrirkomulaginu og hefur verið greint frá því að málið hafi verið tilkynnt ríkisendurskoðanda. Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi staðfesti í samtali við DV að hafa mál í rannsókn sem tengist embættinu.

„Lögreglustjórinn á Suðurnesjum óskaði eftir athugun á ákveðnum þáttum í fjárhagsbókhaldi embættisins fyrir fáum vikum. Gagnaöflun er hafin í málinu en ekki er unnt að segja til um hvenær athuguninni lýkur.“

Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins var það fjármálastjóri embættisins sem kvittaði undir reikningana.

Meint einelti

Greint var frá því í júlí að tveir starfsmenn lögreglunnar á Suðurnesjum hafi leitað til fagráðs lögreglunnar og kvartað undan einelti á vinnustað sem þeir töldu sig hafa mátt þola frá Öldu Hrönn og Helga. Fagráð skilaði niðurstöðu sinni á mánudag og komst að þeirri niðurstöðu að þó ekki væri um einelti að ræða þá væri ljóst að pottur væri brotinn innan embættisins og mælt var með utanaðkomandi aðstoð til að leysa úr þeim vanda, þá sérstaklega þeim vanda sem upp væri kominn á lögfræðisviði – sviðinu sem Alda Hrönn er yfir

Fagráð greinir frá því að vinnustaðurinn sé skiptur í fylkingar, sem er í samræmi við fyrri fréttir sem hafa borist af aðstæðum á Suðurnesjum. Hins vegar væri það ekki nóg að Ólafur Helgi væri farinn. Meira þurfi að koma til svo hægt sé að leysa úr óásættanlegum aðstæðum á vinnustaðnum

Alda Hrönn, Helgi og Óli fóru í veikindaleyfi tveimur dögum eftir að kvartað var til fagráðs og tilkynntu lögreglustjóra það ekki. Hann komst að því þegar hann fékk sjálfvirk svör frá netföngum þeirra.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Alda Hrönn hefur verið sökuð um einelti og hefur fagráði í að minnsta kosti einu öðru tilviki borist kvörtun vegna hennar. Var það í tilfelli aðila sem var sagt upp störfum að ósekju, en ríkislögmaður hefur viðurkennt bótaskyldu ríkisins vegna uppsagnarinnar en ekki var samþykkt að um einelti hafi verið að ræða.  Umræddur aðili var á þeim tíma sem honum var sagt upp störfum að sækja um sama starf og eiginmaður Öldu, Gestur K. Pálmason.

Gestur K. Pálmason

Gestur er lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Þeir heimildarmenn sem DV ræddi við gátu ekki svarað til um hvaða hlutverki hann gegnir innan embættisins. Virðist hann mæta á vinnustöð eftir hentisemi, alls ekki daglega, og virðist leynd hvíla yfir því hvaða verkefnum hann á að vera að sinna. DV hafði samband við Grím Hergeirsson, settan lögreglustjóra, sem gat upplýst að Gestur sé skipaður lögreglumaður við embættið og starf hans heyri undir flugstöðvardeild.

Hins vegar vildi Grímur að öðru leyti ekki tjá sig um stöðu Gests, þar á meðal hvort Gestur hafi fengið leyfi fyrir aukastarfi sínu við markþjálfun.

Gestur er markþjálfi og heldur úti íslenskum armi breska ráðgjafarfyrirtækisins Complete Coherence undir nafninu Samstilla. Samstilla býður upp á teymisþjálfun, stjórnendaþjálfun og greiningar. Hann er líka í stjórn faghóps um leiðtogafærni, hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um markþjálfun og notar gjarnan feril sinn í löggæslu til að auglýsa starfsemi sína. Í lögreglulögum segir:

„Áður en lögreglumaður hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar, ber honum að skýra lögreglustjóra frá því. Innan tveggja vikna skal lögreglumanni skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg stöðu hans og honum bannað að hafa hana með höndum.“

Vill ekki tjá sig

DV hafði samband við dómsmálaráðherra vegna málsins. Dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vildi lítið tjá sig og sagði málið í höndum setts lögreglustjóra.

„Líkt og áður hefur komið fram opinberlega hafa málefni embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum verið til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu að undanförnu. Í gangi hefur verið vinna með utanaðkomandi ráðgjöfum til að greina stöðu mála. Ólafur Helgi Kjartansson hefur tekið við stöðu sérfræðings í ráðuneytinu. Settur lögreglustjóri, Grímur Hergeirsson, og settur aðstoðarlögreglustjóri, Margrét Kristín Pálsdóttir, hafa fengið það hlutverk að stýra embættinu næstu mánuði en jafnframt hefur verið auglýst eftir nýjum lögreglustjóra sem ráðgert er að verði skipaður frá 1. nóvember nk. Hlutverk þeirra Gríms og Margrétar Kristínar lýtur öðru fremur að því að tryggja að starfsemi lögreglunnar á Suðurnesjum geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti. Þeim er einnig ætlað að kanna og koma með tillögur til ráðuneytisins varðandi þann samskiptavanda sem verið hefur innan æðstu stjórnar embættisins undanfarna mánuði.

Ég tel hvorki rétt né tímabært að tjá mig frekar um viðkvæm starfsmannamál. Nýir stjórnendur hafa komið til starfa og ég treysti þeim vel til að fara í saumana á og vinna úr þeim málum sem lúta að embættinu.“

DV hafði einnig samband við Öldu Hrönn og Ólaf Helga en hvorugt vildi tjá sig að svo stöddu.

Í helgarblaði DV sem kom út í dag er fjallað meira um málið og þar rakin atburðarrásin sem talin er hluti ástæðunnar fyrir ólgu innan lögreglunnar á Suðurnesjun. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Afllítið gos – Ekki útilokað að gjósi á fleiri stöðum

Afllítið gos – Ekki útilokað að gjósi á fleiri stöðum
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Hvernig fjandsamleg yfirtaka Bandaríkjanna á Grænlandi myndi fara fram – „Ekki svæði sem hentar vel til innrásar“

Hvernig fjandsamleg yfirtaka Bandaríkjanna á Grænlandi myndi fara fram – „Ekki svæði sem hentar vel til innrásar“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Ráðleggja Evrópubúum að birgja sig upp – Óttast neyðarástand

Ráðleggja Evrópubúum að birgja sig upp – Óttast neyðarástand
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Pútín hefur sett „samningaleikhús“ í gang – Það er í 5 hlutum og Trump kom til sögunnar í öðrum hluta

Pútín hefur sett „samningaleikhús“ í gang – Það er í 5 hlutum og Trump kom til sögunnar í öðrum hluta