Ivan Svanur er búinn að vera barþjónn í mörg ár á fremstu kokteilabörum bæjarins. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna bæði innanlands og utan fyrir störf sín í faginu en nýjasta verkefnið hans heitir Kokteilaskólinn. Þar kennir Ivan fólki að gera dýrindis kokteila úr auðveldum hráefnum sem allir geta nálgast.
Ivan er einnig einn stofnenda vinsælu kokteilaveisluþjónustunnar Rvk Cocktails. Þá mæta þeir barþjónar í veislur hvar sem er, stilla upp ferðabar og hrista kokteila fyrir veislugesti.
„Markmið námskeiðsins er að kenna undirstöðuatriði í kokteilagerð svo fólk geti endurtekið leikinn síðar.“
Á námskeiðinu gerir hver þátttakandi þrjá mismunandi kokteila og lærir á öll baráhöldin í skemmtilegu og líflegu umhverfi í gullfallega leynibarnum í kjallaranum á veitingastaðnum Snaps.
„Hugmyndin að námskeiðinu kviknaði eftir að ég fór að gera kennslumyndbönd á Instagram síðu Rvk Cocktails þegar samkomubannið skall á síðasta vor. Þá voru náttúrlega ekki mikið um veislur og viðburði svo ég fór að deila ókeypis kokteilaráðgjöf í formi auðveldra kennslumyndbanda.“
Hér að neðan má svo lesa um kokteila vikunnar í boði Ivans, annars vegar er það Old Cuban og hins vegar er það Clover Club.
Old Cuban
50ml – Dökkt romm
25ml – Ferskur limesafi
25ml – Sykursíróp (1:1.5 Vatn:Sykur)
3 dassar – Angostura bitter
Toppað með þurru freyðivíni og skreyttur með myntutopp og lime-sneið
Allt sett í kokteilahristara með nóg af klaka nema freyðivínið og hann hristur vel og vandlega, svo er hann síaður í glas á fæti og skvettu af freyðivíni bætt útí. Að lokum er limesneiðin skorin að miðju og myntutoppnum þrætt í gatið. Svo er limeið sett á barm glasins.
Clover Club
50ml – Himbrimi gin
25ml – Ferskur sítrónusafi
25ml – Sykursíróp (1:1.5 Vatn:Sykur)
3stk – Fersk Hindber
Hálf eggjahvíta
Skreyttur með hindberjum á pinna
Kokteilahristarinn er gerður klár með því að setja öll innihaldsefnin í hann og hann fylltur uppí topp með klaka. Svo hristirðu hann eins og þú eigir lífið að leysa þannig að það myndist þétt froða, þetta er svolítið eins og að handþeyta rjóma með klaka. Að lokum er hann síaður í glas á fæti og skreyttur með ferskum hindberjum á kokteilapinna.
„Ég vill sýna fólki að þetta þarf ekki að vera flókið, það er hellingur til af einföldum kokteilum sem hver sem er getur gert!“ segir Ivan.
Bókanir fara fram á Facebook síðu Kokteilaskólans eða á Instagram síðunni @RvkCocktails.
Myndbönd og uppskriftir af spennandi kokteilum má enn nálgast í highlights á Instagram síðu Rvk Cocktails.