fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Fréttir

Kona sökuð um fjárdrátt frá látnum föður sínum – Blaðamanni DV vísað úr dómsal

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 4. september 2020 18:45

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sá óvenjulegi atburður átti sér stað í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að blaðamanni DV sem ætlaði að vera viðstaddur réttarhöld í fjárdráttarmáli var vísað frá dómnum er dómari varð við kröfu verjanda sakbornings um að þinghald í málinu yrði lokað.

Aðalmeðferð málsins var við héraðsdóm í morgun og var málinu í upphafi hennar lýst sem fjölskylduharmleik. Sakborningur er 59 ára gömul kona sem sökuð er um að hafa dregið sér fé af bankareikningi föður síns í kjölfar andláts hans. Maðurinn lést þann 23. október árið 2015 en í ákæru er konan sögð hafa tilkynnt um andlát hans þann 30. október. Í millitíðinni er henni gefið að sök að hafa dregið sér fé af bankareikningi mannsins, í fimm færslum dagana 23. til 30. október 2015, samtals 2,2 milljónir króna.

Systkini konunnar gera einkaréttarkröfur í málinu þar sem krafist er endurgreiðslu fjármunanna í dánarbúið með dráttarvöxtum.

Viðkvæm bréf og kynferðisbrot

Lögmaður hinnar ákærðu, Oddgeir Einarsson, krafðist þess að þinghald yrði lokað vegna viðkvæmra upplýsinga sem væri að finna í málsgögnum og gætu komið fram í málsmeðferðinni. Væri þar meðal annars um að ræða einkabréf og upplýsingar um kynferðisbrot. Þá kæmu fram í málsmeðferðinni viðkvæmar upplýsingar úr dagbók móður hinnar ákærðu. Lýsti hann málinu sem fjölskylduharmleik.

Guðjón St. Marteinsson, héraðsdómari, sagði að ekki væru lagaskilyrði fyrir því að loka þinghaldinu því málið varðaði fjárdrátt en ekki viðkvæmar upplýsingar í málskjali. Oddgeir sagði á móti að þær upplýsingar gætu komið fram í þinghaldinu.

Ásmunda Björg Baldursdóttir héraðssaksóknari tók undir með því viðhorfi að ekki væru lagaskilyrði fyrir að loka þinghaldinu. Guðjón dómari spurði hana hvort hún hefði samt eitthvað við það að athuga að þinghaldið yrði lokað og mátti skilja á Ásmundu að henni væri sama.

Laganemi sat þinghaldið og gerði verjandinn ekki athugasemd við veru þess aðila. Eini áheyrandi var blaðamaður DV.

Guðjón dómari úrskurðaði þá, þvert ofan í það sem hann hafði sagt um skort á lagaskilyrðum fyrir lokuðu þinghaldi, að þinghaldið yrði lokað og bað blaðamann um að yfirgefa dómsalinn. Sagði hann mikilvægt að málið drægist ekki á langinn enda væri það orðið gamalt en meint afbrot voru framin fyrir tæplega fimm árum.

Blaðamaður DV yfirgaf þá dómsalinn.

DV sendir inn kvörtun

Fréttastjóri DV hefur sent kvörtun til héraðssaksóknara vegna sinnuleysis saksóknara þegar óskað var eftir lokuðu þinghaldi í morgun, og einnig formlega beiðni um rökstuðning fyrir lokuðu þinghaldi til dómsstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, enda sé það meginregla íslensks réttarfars að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði. Í 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir: „Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila.“

Hæstiréttur hefur ítrekað áréttað að undantekningar frá meginreglunni um opið þinghald skuli sæta þröngri lagatúlkun. Óvenjulegt hlýtur að teljast að þinghald í máli sem varðar fjárdrátt skuli vera lokað.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einn handtekinn til viðbótar vegna morðrannsóknar á Suðurlandi

Einn handtekinn til viðbótar vegna morðrannsóknar á Suðurlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árni deilir myndbandi af sænskri matarkörfu sinni – Hvað heldur þú að matarinnkaupin kosti?

Árni deilir myndbandi af sænskri matarkörfu sinni – Hvað heldur þú að matarinnkaupin kosti?