Sátt hefur náðst í deilu nágrannanna að Húsafelli í Borgarfirði. Tekist var á um mannvirki Páls Guðmundssonar listamanns sem hann hafði reist undir legsteinasafn sitt. Í dómi Héraðsdóms Vesturlands í júlí var Páll dæmdur til þess að rífa húsið þar sem það féll ekki að gildandi skipulagi sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafði reyndar áður gefið út byggingarleyfi sem var síðar hnekkt af Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál.
Sjá nánar: Páli gert að fjarlægja legsteinasafn sitt í Húsafelli – Þarf nú að rífa 40 milljóna hús
Málið teygir sig aftur til ársins 2015, þegar Borgarbyggð samþykkti byggingaleyfi fyrir byggingu Pakkhúss á jörð Páls, og svo 2016 þegar bygging húss utan um legsteinasafn Páls var samþykkt. Þessi byggingaleyfi voru kærð til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem úrskurðaði 2018 að deiliskipulagið sem byggingaleyfi Páls byggðu á, væru ógild vegna klaufaskaps af hálfu bæjaryfirvalda í auglýsingu nýja skipulagsins. Var byggingaleyfi Páls fyrir legsteinahús ennfremur fellt úr gildi með úrskurðinum.Samkvæmt dómnum í héraðsdómi frá því í júlí á þessu ári hafði Páll til 14. september til þess að rífa húsið eða að sæta dagsektum.
Samkomulag Páls og nágranna síns gerir ráð fyrir því að unnið verði að varanlegri lausn á deilunni og hafa þeir til 28. september til þess að ná sáttum. Á meðan á þessari vinnu stendur frestast réttaráhrif dóms Héraðsdóms Vesturlands.
Kemur fram á Skessuhorni að nú verði unnið að gerð skipulags fyrir Húsafellstorfuna og leitað allra leiða til þess að sætta sjónarmið nágrannanna. Markmiðið er að ná samkomulagi um skipulag sem allir geti sætt sig við.