Stjórnendur Skjóls hafa boðað allt starfsfólk sitt á starfsmannafund vegna umfjöllunar DV um starfsemi fyrirtækisins. Vegna vaktavinnu starfsmanna verður fundinum skipt upp í nokkra fundi og fara tveir þeirra fram í dag. Herma heimildarmenn DV að yfirmenn á Skjóli, og þá helst Guðný H. Guðmundsdóttir, forstöðumaður hjúkrunar á Skjóli, leiti nú logandi ljósi að „uppljóstrara DV.“ Að sögn heimildarmannanna er lögð mun meiri áhersla á að þefa uppi þann sem „talað hefur við dagblaðið,“ en að skoða hvort ásakanirnar eiga við rök að styðjast.
Guðný sendi, fyrir hönd stjórnenda Skjóls, tölvupóst á aðstandendur heimilismanna á Skjóli. Tölvupósturinn er birtur í heild sinni hér að neðan. Þar heldur Guðný því fram að umfjöllun DV eigi ekki við nein rök að styðja og að þau byggja á misskilningi. Ásakanirnar kallar Guðný enn fremur „fráleitar.“
„Mest af öllu,“ segir Guðný, „þykir okkur þó miður, að heimildarmenn DV skuli vera úr röðum starfsmanna Skjóls.“ Að lokum biður hún aðstandendur um að „hafa ekki áhyggjur,“ af umfjölluninni og að „lífið gangi sinn góða vanagang“ á Skjóli.
DV áréttar að umfjöllun er byggð á samtali við fjölda heimildarmanna sem allir hafa mikla þekkingu á starfsemi Skjóls og í kjölfar birtinga hefur DV borist enn fleiri skeyti og ábendingar frá fólki þar sem það m.a. tekur undir umfjöllun DV. Samkvæmt samtölum við þessa heimildarmenn er ljóst að alvarlegt ástand ríkir í starfsmannamálum Skjóls og að það hefur varað talsvert lengur en kom fram í fyrri umfjöllun. Ljóst er að mikill styr stendur um stjórnunarhætti stjórnenda Skjóls og að gríðarlegt vantraust ríki á milli starfsstétta innan hjúkrunarheimilisins. Yfirmenn hafa lítið gert annað en að kynda undir þessa stéttaskiptingu, að sögn fjölda heimildarmanna DV. Þannig eru til dæmis borðum í starfsmannaaðstöðu Skjóls skipt upp eftir stéttum. Umönnunarstarfsfólk situr ekki með hjúkrunarfræðingum o.s.frv.
Samkvæmt viðmælendum DV stendur mestur styr um stjórnunarhætti Guðnýjar hjúkrunarforstöðumanns og Unnar Berglindar Friðriksdóttur, deildarstjóra hjúkrunar á 3. hæð Skjóls. Hafa heimildarmenn DV haft það á orði að sú tilfinning sé til staðar að fjölskylda Guðnýjar komi víða að í rekstri Skjóls. Einn viðmælandi orðaði það svo: „Engu líkara en að Guðnýju hafi tekist að koma sér upp fjölskyldufyrirtæki.“
Í samtali við DV staðfesta Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Ólason, aðstoðarframkvæmdastjóri, að leitað hafi verið til stéttarfélagsins vegna skilyrða á Skjóli. Þau segjast vera meðvituð um ástandið þar og að þau séu með mál skjólstæðinga sinna á Skjóli til skoðunar. Helst beinist athyglin að starfsskilyrðum þeirra og samskiptavanda við yfirmenn sína. „Ljóst er að verkefnin hlaðast upp á umönnunarstéttinni eftir því sem starfsfólki fækkar,“ sagði Sólveig. Eins og sagt var frá í helgarblaði DV síðustu helgi hefur verið ætlast til þess að ófaglært umönnunarstarfsfólk sinni lyfjagjöf, að þau búi um lík látins heimilisfólks og taki vaktir bak í bak þegar ekki tekst að manna næstu vakt.
„Mál er varða Skjól eru ekki ný af nálinni,“ segja þau, en eftir sem áður hafa stéttarfélög engin úrræði nema að beina málum í stjórnsýslulegan farveg til viðkomandi eftirlitsstofnunar. Þó hafa fundir átt sér stað milli stjórnenda Eflingar og stjórnenda Skjóls vegna kvartana starfsfólks þar.
Heimildarmenn DV staðfesta enn fremur að leitað hefur verið út fyrir Skjól vegna ástandsins, m.a. til Eflingar sem og landlæknis.
Að sögn heimildarmanna hafa hjúkrunarfræðingar og aðrir stjórnendur á Skjóli setið á stífum fundum síðustu daga og andrúmsloftið spennuþrungið eftir birtingu umfjöllunar DV. Gripið hefur verið til smávægilegra breytinga á verklagi við umönnun þeirra sem mestrar athygli umönnunarstarfsfólks þurfa. Á það að hafa glætt vonir starfsfólks um að tekið yrði á óstjórninni í kjölfar umfjöllunar DV. Vantraustið sé þó slíkt að mun meira þurfi að koma til, að sögn heimildarmannanna.
Aðspurðir af hverju viðmælendur DV hafa ekki leitað til yfirmanna sinna, segist þeir allir óttast afleiðingar þess að kvarta undan stjórnarháttunum. Sá sem fyrst leitaði til DV vegna málsins sagði þá leið vera þrautalausn sína. Þó hafa, líkt og fyrr segir, nokkrir starfsmenn leitað til stéttarfélaga sinna.