Landsréttur hefur hafnað kröfum hjóna sem eru í skilnaðarferli um breytingu á forsjá tveggja barna þeirra. Staðfestir Landsréttur þar með dóm héraðsdóms frá því fyrr í sumar. Konan vill að hún fái fullt forræði yfir börnunum en eiginmaðurinn vildi að börnin hefðu lögheimili hjá honum.
Í málflutningi sakað konan manninn um alvarlegt heimilisofbeldi gegn sér, svo alvarlegt að hún hefði þurft að flýja heimili sitt með börnin. Hafi hún orðið smeyk um eigið líf og líf barnanna. Maðurinn neitar þessu en segir að konan hafi með blekkingum laumast af heimilinu með hjálp starfsmanns félagsmálayfirvalda. Hún sakaði manninn jafnframt um að neyta fíkniefna reglulega. Því neitaði maðurinn einnig.
Maðurinn sakaði konuna um að hafa ráðist að sér og brotið rúðu í bíl hans. Sagði hann konuna hafa verið erfiða í skapi, tekið reiðiköst, ráðist að sér og kastað í sig hlutum.
Konan sagðist hafa búið í Kvennaathvarfinu í langan tíma uns hún gat flutt í núverandi húsnæði. Hún telur að það sé börnunum fyrir bestu að hún fái fullt forræði á meðan skilnaðarmál þeirra er í gangi, svo að þau búið við stöðugleika og ró.
Niðurstaða bæði Landsréttar og héraðsdóms var hins vegar sú að forsjáin verði óbreytt, börnin búi viku í senn hjá hvoru foreldrinu, en hafi lögheimili hjá móðurinni, og skal maðurinn borga einfalt meðlag með hvoru barni fyrir sig.