Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr., eða svokölluð síbrotagæsla.
Í greinargerð saksóknara kemur fram að kærði er grunaður um innbrot í geymslu síðastliðna helgi. Lögregla hafi farið á vettvang og strax hafi beinst grunur að manninum. Lögreglumenn fóru þá rakleiðis á dvalarstað kærða þar sem þeir fundu hluta þýfisins. Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn sé jafnframt grunaður um aðild að fjölda mála sem lögreglan sé nú með til rannsóknar. Hefur maðurinn þegar játað aðild að sumum þeirra.
Í nóvember 2019 er maðurinn sagður hafa brotið vopnalög með því að hafa í vörslu sinni á almannafæri vasahníf með lengra blaði en 12 cm. Á nýársnótt þessa árs er maðurinn svo sagður í félagi við annan hafa stolið bakpoka af manni.
21. febrúar hélt brotaferill mannsins áfram þegar hann er sagður hafa brotist inn á heimili í Reykjavík með því að spenna upp útidyrahurðina með kúbeini. Nokkrum dögum síðar hirti lögregla af manninum smáræði af tóbaksblönduðum kannabisefnum sem hún fann í íþróttatösku í Reykjavík. Enn og aftur er maðurinn sagður hafa brotið gegn fíkniefnalögum í mars, er lögregla fann 1,25 grömm af amfetamíni í buxnavasa mannsins.
Seinna í mars er maðurinn sagður hafa brotist inn í bifreið og stolið þaðan fjórum göngustöfum, ryksugu, gönguskóm og útivistarfatnaði. Daginn eftir, eða 29. mars, braust svo maðurinn inn í verslun í Reykjavík og hafði á brott með sér tíu Canada Goose úlpum að andvirði kr. 1.449.900. Fimm úlpur fundust á dvalarstað mannsins.
Í apríl er hann svo aftur sagður hafa brotið gegn fíkniefnalögum þegar 2,51 grömm af amfetamíni fundust í brjóstvasa mannsins og stolið hjóli úr bílakjallara í Reykjavík. Þá fundust munir í hans vörslu sem eru sagðir vera úr innbroti í bifreið síðan í ágúst í fyrra.
Enn fremur er maðurinn sagður hafa stolið munum úr „nokkrum bifreiðum,“ þann 9. desember í fyrra, brotist inn í geymslur í febrúar á þessu ári og haft með sér þýfi að andvirði þriggja milljóna, stolið enn einu reiðhjólinu í apríl á þessu ári og innbrot strax daginn eftir reiðhjólaþjófnaðinn. Þá glæpi hefur maðurinn alla játað á sig.
Því til viðbótar er maðurinn hafa sagður stolið tveimur reiðhjólum í maí og í ágúst á þessu ári. Bæði reiðhjólin hurfu úr bílageymslum í Reykjavík og fundust í fórum kærða.Að lokum er maðurinn sagður hafa brotist inn 8. ágúst á þessu ári og er grunaður um húsbrot og vopnalagabrot þann 23. ágúst. Fannst maðurinn þá inni í geymslu sem hann hafði brotið sér leið inn í og var þar vopnaður hníf.
Maðurinn fékk 7 mánaða skilorðsbundinn dóm til tveggja ára þann 6. maí 2020, og er því enn á skilorði.