fbpx
Föstudagur 04.apríl 2025
Fréttir

Hjúkrunarheimilið Skjól: Ofbeldi, einelti, kynferðislegt áreiti og sinnuleysi yfirmanna

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 1. september 2020 13:00

mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hættulegt ástand hefur skapast á hjúkrunarheimilinu Skjóli vegna manneklu og reynsluleysis starfsfólks. Heimildarmenn DV lýsa ofbeldi, kynferðislegri áreitni og óboðlegum vinnuaðstæðum sem versnuðu til muna í COVID faraldrinum.

Að sögn heimildarmanna DV hefur ástandið snarversnað á undanförnum tveimur árum. Þeir vilja ekki koma fram undir nafni af ótta við verða vikið úr starfi. „Áður var meiri röð og regla á hlutunum, við vorum með trúnaðarmann sem við gátum leitað til, það var haldið utan um starfsfólkið, passað að fólk væri að vinna sína vinnu, yfirmenn fylgdust með að hlutirnir gengu upp.“ Enn fremur segir heimildarmaðurinn að veikindi hafi verið afar fátíð áður fyrr. „Í dag heyrir til undantekninga ef einhver er ekki veikur á hverri vakt.“

Á Skjóli er svokallaður Vesturgangur eyrnamerktur heilabiluðum. Á þeim gangi eru níu einstaklingar og tveir starfsmenn. Af þeim eru fjölmargir sem ítrekað leggja hendur á starfsfólk, segir heimildarmaður DV. „Það eru óteljandi atvik um að starfsfólk fari heim marið og klórað eftir vakt.“ Starfsfólki er ekki veitt nein þjálfun um hvernig eigi að bregðast við slíku ofbeldi. Áður fyrr voru slík ofbeldisverk skráð í atvikaskrá Skjóls, en nú þykja árásir heimilismanna á starfsfólk orðið slíkt daglegt brauð að ekki þykir taka því að skrá þær. Starfsfólk fer því marið, klórað og meitt heim til sín eftir vakt. Dæmi um viðbrögð yfirmanna er hlátur og fliss, „æjj, hann er bara svona.“

„Við höfum þurft að læsa einstakling inni svo hann hlaupi ekki út og lemji starfsmenn eða annað heimilisfólk,“ sagði heimildarmaðurinn. „Stundum hefur þurft fjórar stelpur til að halda niðri einstaklingi á meðan hann er þrifinn að neðan og sett ný bleyja. Þegar einstaklingur er í mjög vondu skapi er bara sett ný bleyja og hlaupið út, án þess að einstaklingur sé þrifinn.“

Mannekla orðin hættuleg heimilisfólki

Mjög fáir karlmenn starfa á Skjóli og lítið er eftir af „reynsluboltum“ á erfiðustu deildunum. „Staðan er sérstaklega slæm á sumrin þegar allt reyndasta starfsfólkið fer í sumarfrí á sama tíma,“ segja viðmælendur DV. „Á Vesturgangi er ekki sérþjálfað fólk og gerist það ítrekað að tveir ómenntaðir umönnunaraðilar séu settir á vakt þar saman.“

Mönnun vakta á Skjóli hefur hrakað til muna á undanförnum árum. „Það þarf enga menntun til að byrja vinna hér,“ segir heimildarmaður DV og bendir á að líklega sé nóg að sækja um í dag til þess að fá vinnu. „Það er til dæmis algengt að fólk sé ráðið inn án þess að hafa líkamlega burði til þess að sinna starfinu. Við þurfum að geta hreyft sjúklinga og erum mikið á fótunum. Þó maður sé hér með líf einstaklings í höndunum virðist hver sem er fá vinnu.“

Ófaglært fólk látið búa um lík og áreitt kynferðislega

Starfsmannahaldi Skjóls lýsa heimildarmenn DV allir þrír sem „komplett kaos.“ Reyndir starfsmenn eru að hætta í hrönnum og nýtt og óhæft starfsfólk ráðið á móti. Enn fremur hefur verið slegið af starfskröfum. Áður fyrr var íslenskukunnátta skilyrði, nú er það ekki og margt starfsfólkið talar enga íslensku. Nýja starfsfólkið fær litla sem enga þjálfun. „Því er gefin mappa þar sem kemur fram hvar hlutir eru, bleyjur og lín, auk helstu starfsaðferða, en það er enginn undirbúinn undir það mannlega sem gerist á deildinni, til dæmis að eiga við ofbeldisfullt heilabilað fólk. Það krefst þjálfunar og hæfni að eiga við heilabilað fólk sem beitir ofbeldi. Þetta er fólk sem veit ekki hvað það gerði fyrir þrem sekúndum,“ segir viðmælandi.

Að sögn heimildarmannsins kemur það fyrir að ófaglært umönnunarfólk þurfi að búa um lík. Þá sé yfirleitt um að ræða heimilismenn sem umönnunarfólk hafi þekkt vel og sinnt í langan tíma. Undir þetta sé starfsfólk algjörlega óundirbúið og því standi engin aðstoð til boða. „Það er ekki boðið upp á sálfræðiaðstoð eða trúnaðarmann sem maður getur rætt við í tengslum við slíkt áfall.“ Enn fremur segir viðmælandinn að það eigi alls ekki að vera sett í þá aðstöðu til að byrja með. Verkefnið er mjög krefjandi andlega og líkamlega.

Vanræksla á undirbúningi starfsmanna undir verkefnin á Skjóli lýkur ekki þar. Heimildarmaður segir að heimilismenn káfi reglulega á sér og öðru kvenkyns starfsfólki og að engin undirbúi starfsfólk undir þess konar áreiti. „Enginn lætur þig vita eða býr þig undir að það sé gripið í kynfæri þín eða rass og káfað á
þér. Viðbrögð yfirmann eru „svona er hann bara,“ eins og það sé ekkert eðlilegra en að það sé káfað á þér í vinnunni. Það hafa allir lenti í því hér enda nánast daglegur viðburðir.“

Lyfjagjafir í ólestri og alvarleg slys óútskýrð

Einn heimildarmaður DV segist hafa þá upplifun af starfseminni að fólkinu sé ekki veitt geðmat eða neinskonar lækning við sínum vandamálum. „Það er bara nóg af róandi. Fólkinu er ekkert sinnt af læknum. Hingað kemur læknir einu sinni í viku og þá er bara skellt í skammt af róandi.“

Enn fremur segja allir þeir sem DV hefur rætt við, að oft komi fyrir að ómenntað starfsfólk í umönnun sé falið að gefa heimilismönnum lyf. Þetta stangist á við verklagsreglur Skjóls að sögn heimildarmanns. Um er að ræða sterk og lyfseðilsskyld róandi lyf. Að sögn viðmælandi á lyfjagjöf að vera sinnt af hjúkrunarfræðingi en aðeins einn hjúkrunarfræðingur sé á vakt og verkefnastaðan yfirleitt slík að ekki nokkur leið sé fyrir hjúkrunarfræðinginn að komast yfir það allt saman, að sögn heimildarmannsins.

Komið hefur fyrir að gefin hafa verið vitlaus lyf og að lyfjagjöf hafi gleymst. „Það hefur gerst frekar oft. Sem betur fer hefur ekkert alvarlegt gerst og sjúklingar aldrei liðið alvarlega fyrir það.“ Slík atvik eru staðfest í atvikaskrá Skjóls.

„Þetta starf krefst þolinmæði, og þolinmæðin er algjörlega þrotin hjá flestum,“ segir heimildarmaðurinn. Óþolinmæði starfsfólks sé fyrir löngu farin að bitna á heimilismönnum. Segist hún hafa orðið var við aukna hörku hjá sumum starfsmönnum. „Lamaðir einstaklingar eru rifnir á fætur. Tvisvar hefur það komið fyrir að kona hefur lærbrotnað og enginn veit hvað gerðist.“ Í annað skipti var um konu í hjólastól að ræða og því ljóst að um óútskýrðan atburð er að ræða. „Þetta var ekkert skoðað neitt betur,“ segir heimildarmaðurinn. Lögregla var ekki kölluð til.

Í skriflegu svari stjórnenda Skjóls varðandi lærbrot skjólstæðinga sinna segir: „Eins og annars staðar í samfélaginu geta slys orðið á hjúkrunarheimilum. Þau geta borið að með ýmsum hætti, en ástæða slysanna er ávallt greind. Fullyrðing um óþekkta ástæðu á því ekki við rök að styðjast.“ Starfsfólk Skjóls sem DV ræddi við hefur, sem fyrr segir, ekki fengið upplýsingar um ástæður þessa slysa.

Fundnir haldir en ekkert breytist

Heimildarmenn vanda yfirmönnum sínum ekki kveðjurnar. „Starfsfólki er aldrei hrósað eða hampað. Vinnuandinn sem eitt sinn var góður er núna kominn í algjört rugl. Hér hefur alvarlegt einelti verið liðið og aldrei gripið í taumana á neinu. Nú er svo komið að allir eru þreyttari, búnir á því og fólk er að sinna vinnunni sinni verr en áður og færri hendur vinna sömu verkefnin.“ Kvartað hefur verið til yfirstjórnar vegna ofbeldisins. Fundir hafa verið haldnir, en ekkert gerst. „Starfsfólk upplifir sig yfirgefið.“

Heimildarmaðurinn segir yfirstjórnina hafa mestan áhuga á því að allt líti út fyrir að vera í lagi og segir yfirborðskennd viðbrögð yfirstjórnarinnar koma niður á gæðum þjónustunnar. „Þá sjaldan sem við hittum yfirmann, þá eru þeir komnir hingað til þess að öskra á okkur og skamma vegna þess að hlutirnir  líta ekki út fyrir að vera í lagi, skiptir þá engu hvort við séum að sinna sjúklingunum betur. Hér á allt að líta út eins og það sé allt í himnalagi.“ Þetta „leikrit“ yfirstjórnarinnar er sagt vera til þess að gefa aðstandendum sjúklinganna góða tilfinningu þegar þeir koma í heimsókn. Aðstandendum er jafnframt ekki sagt frá ofbeldinu sem þeir beita starfsfólk deildarinnar. „Þau [aðstandendurnir] gera sér engan veginn grein fyrir því hvað er í gangi, hversu mikið ofbeldi starfsfólkið er beitt. Svo ef við náum ekki að klára að sinna einstaklingi vegna ofbeldisins þá er það vanræksla af okkar hálfu. Fólk hér (aðstandendur) er í afneitun eða þau vilja ekki trúa manni.“

Mannekla var mikil og versnaði svo

Mannekla hefur lengi verið vandamál hjá Skjóli. Þolmörkum hafi verið náð fyrir löngu síðan og staðan bara versnað eftir það. „Morgunvaktin er ein með um sex manns. Sú vakt klæðir heimilismenn í föt, burstar tennur fólksins, fer með það á klósettið og skiptir á bleyjum eftir þörfum. Ef það gerist að kona fer að gráta eða einhver þarfnast sérstakrar aðhlynningar þá þarf bara að skauta fram hjá þeim einstaklingi. Um leið og einstaklingur er kominn á fætur þarf bara að hlaupa í næsta einstakling.“

Skjól langt undir viðmiðum Landlæknisembættis

Rekstur Skjóls er háður eftirliti Embættis landlæknis sem tekur starfsemina reglulega út. Síðasta stóra úttekt á starfsemi Skjóls er dagsett 2012, eða fyrir átta árum. Hlutaúttekt var gerð í fyrra. Þar kemur fram að „áhersla sé lögð á að skrá öll atvik.“ Samkvæmt skýrslunni eru í atvikaskrá 2018 13 „lyfjaatvik“ og átta ofbeldisatvik.

Í kröfulýsingu velferðarráðuneytis fyrir hjúkrunarrými og dvalarrými er æskilegur fjöldi umönnunarstunda á hvern íbúa sagður vera 5,34 klukkustundir á sólarhring og lágmarksfjöldi 4,65. Samkvæmt hlutaúttekt Embættis landlæknis frá því í fyrra stendur fjöldi umönnunarstunda á hvern íbúa á Skjóli í 3,6. Það er aðeins 67% af því sem talið er æskilegt.

Sömu sögu er að segja af mönnunarstöðu Skjóls. Í kröfulýsingu velferðarráðuneytis er það sagt æskilegt að hlutfall hjúkrunarfræðinga af mannafla sé 27%. Á Skjóli er það aðeins 17%. Enn fremur er það sagt æskilegt að hlutfall faglærðra í umönnun sé 78% og lágmarkshlutfall 57%. Á Skjóli er það aðeins 41%.

Skýrsluhöfundar Embættis landlæknis 2019 tóku viðtöl við starfsfólk og virðast viðmælendur Embættis landlæknis að flestu leyti ánægðir með starf sitt og starfsumhverfi. Þó komu þar fram áhyggjur af undirmönnun og tungumálaerfiðleikum á vinnustaðnum. Í skýrslunni segir: „Almennt kom fram að starfsfólki fannst að þjónustunni við íbúa hefði hrakað síðustu árin vegna mönnunarvanda.“ Í viðtölum við íbúa sagði: „það [er] svo mikið að gera í umönnun á morgnana að fólk [fær] stundum ekki hjálp til að komast fram úr fyrr en um kl. 11 og þá er maður búinn að vera ansi lengi í rúminu sem ekki er gott fyrir skrokkinn.“

Stjórnendur Skjóls vísa ásökunum á bug

DV leitaði svara hjá Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, forstjóra Skjóls, sem sagðist ekki geta svarað fyrir ásakanirnar og vísaði á Kristínu Högnadóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunarsviðs.

Í skriflegu svari Kristínar Högnadóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunarsviðs, segir að stjórnendum Skjóls komi væntanleg umfjöllun DV og ásakanir sem koma þar fram mjög á óvart. Landlæknisembættið hafi nýlega gert úttekt á starfseminni og komið með „fáeinar“ athugasemdir sem nú er unnið úr. Þó mannekla sé til staðar, að sögn Kristínar, er það sökum almenns skorts á starfsfólki í umönnunarstétt á Íslandi en hefur aldrei leitt til hættulegra aðstæðna.

Kristín segir að nýliðum sé veitt „nýliðafræðsla“ tvisvar á ári þar sem farið er yfir tækni við líkamsbeitingu við umönnun, og að á fræðslufundum sé farið yfir hvernig vinna skal með „órólega einstaklinga með hegðunarvanda.“ Kristín segir það ekki gerast að starfsmaður sé þvingaður til að búa um lík treysti viðkomandi sér ekki til þess og segir það á ábyrgð hjúkrunarfræðings. Það sama eigi við um lyfjagjöf. Hún sé á ábyrgð hjúkrunarfræðings á hverri deild fyrir sig. Kristín neitar því þó ekki að ómenntað umönnunarfólk sinni henni. „Varðandi áfallahjálp fyrir starfsmanninn, þá er hjúkrunarfræðingur alltaf til staðar á hverri vakt,“ sagði Kristín. Þess má geta að hjúkrunarfræðingurinn sem Kristín vísar til er jafnframt yfirmaður umönnunarstarfsfólks. Rauði krossinn og fleiri aðilar hafa ítrekað bent á að best sé að áfallahjálp sé veitt af fagfólki í því, en ekki af kollegum einstaklings sem lent hefur í áfalli eða yfirmönnum. Sambærilegt „kerfi“ er til dæmis til staðar hjá slökkviliðinu þar sem slökkviliðsmenn veita sjálfum sér og vinum sínum áfallahjálp, og gagnrýndu slökkviliðsmenn það kerfi í viðtali við DV í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg.

Í kjölfar birtingar greinarinnar stigu fleiri fyrrum og núverandi starfsmenn hjúkrunarheimila fram. Ein þeirra kom fram í viðtali við DV.is síðustu helgi. Má nálgast það viðtal hér: Anna Karen lýsir skelfingarástandi á hjúkrunarheimili – Ofbeldi starfsmanns gegn sjúklingi var þaggað niður

Þessi grein birtist fyrst í helgarblaði DV. Fyrir upplýsingar um áskrift má senda tölvupóst á askrift@dv.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Óhugnanlegt kynferðisbrot: Tveir menn sagðir hafa tekið nauðgun upp á myndband – Níddust á ólögráða stúlku

Óhugnanlegt kynferðisbrot: Tveir menn sagðir hafa tekið nauðgun upp á myndband – Níddust á ólögráða stúlku
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fundur um öryggis- og varnarmál Evrópu – Beint streymi

Fundur um öryggis- og varnarmál Evrópu – Beint streymi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Vilja ekki sjá Konukot í sama húsi: Hóta því að fara fram á skaðabætur ef viðskiptavinir verða fyrir truflun

Vilja ekki sjá Konukot í sama húsi: Hóta því að fara fram á skaðabætur ef viðskiptavinir verða fyrir truflun
Fréttir
Í gær

Mál Mohamads ekki fyrir Hæstarétt – Taldi gæslu fimm lögreglumanna hafa hrætt dómara

Mál Mohamads ekki fyrir Hæstarétt – Taldi gæslu fimm lögreglumanna hafa hrætt dómara