„Þetta er eiginlega bara villta vestrið,“ segir Guðmundur Karl Einarsson, íbúi í hverfinu, um málið í samtali við RÚV. „Það er augljóst að þetta getur valdið mikilli slysahættu, fyrir utan hávaðann sem fylgir þessum tækjum. Þriggja ára dóttir mín greip fyrir eyrun um daginn og sagðist vera hrædd við að fara út, því það væri svo mikið af mótorhjólum. Þetta á bara ekki heima á göngustígum þar sem börn og gangandi vegfarendur eru.“
Guðmundur segir að fyrir utan ónæðið þá eru krakkarnir að setja sjálfa sig og aðra í hættu. Ekki þarf próf til að aka þessum bifhjólum en íbúar í hverfinu segja að nauðsynlegt sé að herða reglur um notkun þessara hjóla. „Ekki bíða eftir að það verði alvarlegt slys eða jafnvel banaslys. Gerum það strax, meðan að ástandið er kannski viðráðanlegt,“ segir Guðmundur.
Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að þetta vandamál sé þegar á borði lögreglu. Það flæki þó málin að ósakhæf börn eiga aðild að flestum tilvikunum. Guðbrandur segir að þetta séu börn sem eru oft búin að lofa foreldrum sínum að fara eftir reglunum og gæta sín. „Þegar lögregla ætlar að hafa afskipti virðist það vera að þau verði hrædd og svífist einskis til þess að komast í flótta frá lögreglu,“ segir hann.
Þá er ekki hægt að veita börnunum eftirför þar sem þau keyra um á göngustígum. „Við förum ekki með ljósum og sírenum á eftir gangstígakerfinu þar sem við stefnum þeim og öðrum vegfarendum í stórkostlega hættu,“ segir Guðbrandur.