Björn Jónsson er fyrrverandi starfsmaður í ferðaþjónustufyrirtæki en hann er nú í fyrsta skipti á ævinni atvinnulaus. Í áhugaverðri grein á Vísir.is fer hann yfir stöðu ferðaþjónustunnar sem hann telur ekki njóta alltaf sannmælis í umræðunni:
„Vinsælt tónlistarfólk hefur m.a. öskrað hátt á samfélagsmiðlum og háskólaprófessorar sagt nánast að réttlætanlegt sé að fórna ferðaþjónustunni, að því virðist vera án rökstuðnings. Samfélagsmiðlar eru stútfullir af pistlum og athugasemdum um græðgi og frekju fyrirtækjanna í ferðaþjónustu, sem hugsa bara um eigin hagsmuni og vilji einungis græða peninga á erlendum ferðamönnum. Það eina sem þessi fyrirtæki eru þó að reyna, er að bjarga störfum og verðmætum.“
Björn bendir á að til skamms tíma hafi 25.000 manns starfað í greininni og hún hafi skilað þjóðarbúinu milljörðum í gjaldeyristekjum á undanförnum árum, fjármunum sem hafi að hluta til byggt upp hér velsæld og komi sér núna vel í hinum mikla samdrætti sem kórónuveirufaraldurinn veldur. Björn segir:
„Nú er hins vegar búið að skrúfa nokkurn veginn algjörlega fyrir þessa tekjuöflun þjóðarinnar um óákveðinn tíma. Afleiðingarnar eru slæmar og virðist versta niðurstaðan, sem ég leiddi hugann að í vor, vera nú að raungerast. Fullt af góðu fólki er að missa vinnuna, fyrirtæki verða gjaldþrota og önnur loka tímabundið, í von um betri tíð síðar. Eitthvað sem enginn getur sagt til um með vissu hvort eða hvenær verði. Þau fyrirtæki sem eftir standa, verða ekki svipur hjá sjón, miðað við fyrir heimsfaraldur. Ákvarðanirnar sem þessu valda, virðast hafa verið teknar án samtals við þá sem þær bitna einna helst á og áætlun um næstu skref virðist ekki vera til staðar.“
Björn vekur máls á þeirri tilfinningaólgu sem stóraukið atvinnuleysi veldur. Tilhneigingin sé sú að leita sökudólga. Úr geti orðið kjaftasögur sem meiði og særi:
„Veiran hefur svipt marga atvinnunni og möguleikum til tekjuöflunar og þar með skert lífsgæði þeirra. Verst er þó að veiran hefur svipt suma heilsunni og jafnvel lífinu. Fólk hefur misst ástvini. Allt þetta skapar tilfinningar hjá okkur og er eðlilegt að þessar tilfinningar finni sér farveg. Einn farvegurinn er að finna sökudólga, finna einhvern (eða eitthvað) til að kenna um ástandið. Ég er ekki viss um að það hjálpi okkur, í þeirri stöðu sem við erum í, að finna sökudólga. Það mun svo sannarlega ekki leysa vandann eða færa okkur nær lausninni, að benda á allt og alla og skamma einstaklinga eða úthrópa fyrirtækjum, stjórnvöldum eða hagsmunasamtökum. Það að leita sökudólga er í besta falli fóður fyrir kjaftasögur á kaffistofunni, en í versta falli leið til að sundra fólki og særa.“
Greinarhöfundur stendur á tímamótum og í síðustu tveimur málsgreinunum veltir hann fyrir sér hlutskipti sínu og setur það í samhengi við ástandið í samfélaginu. Þrátt fyrir allt er Björn bjartsýnn á framtíðina:
„Þessar hugleiðingar mínar skrifa ég, í stöðu sem ég hef ekki áður verið í á lífsleiðinni, en þ.e. án atvinnu. Ég er einn fjölmargra sem þurfa nú að kveðja frábæran vinnustað, yndislega samstarfsfélaga og góða vini. Það er sárt. Það er líka sárt að lesa um og heyra talað um græðgi ferðaþjónustannar. En eins og áður segir, líður okkur öllum alls konar. Við erum öll að reyna okkar besta. Reyna að fóta okkur í veruleika sem sem við fæst kærum okkur um. Ég er hins vegar sannfærður um að við komumst í gegnum þetta ástand m.a. með auknu umburðarlyndi, færri ásökunum og auknum skilningi á mismunandi aðstæðum. Bóluefni myndi heldur ekki skemma fyrir. Ég er líka sannfærður um það, að fljótlega munum við aftur taka á móti erlendum ferðamönnum, með sama myndarskap og við höfum gert í gegnum árin.
Eftir rúman áratug á besta vinnustað landsins, taka við nýir tímar hjá mér. Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en ég veit þó að hún býður upp á ný tækifæri og valmöguleika. Það er mitt að nýta það. Það er best að takast á við það með jákvæðni, opnum hug og muna að gleyma ekki gleðinni.“