Pósturinn varar við svikapóstum sem óprúttnir aðilar standa fyrir um þessar mundir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Óprúttnir aðilar eru að senda tölvupósta í nafni Póstsins í þeim tilgangi að komast yfir kortaupplýsingar fólks. Pósturinn varar eindregið við því að smella á hlekki sem fylgja þessum póstum og undir engum kringumstæðum ætti að gefa upp kortaupplýsingar eða aðrar persónulegar upplýsingar.“
Pósturinn bendir á að þeir sem eigi von á sendingum geti fylgst með ferðum þeirra á heimasíðu Póstsins, posturinn.is.
Haft er eftir Sesselíu Birgisdóttur, framkvæmdastjóra þjónustu- og markaðssviðs að Pósturinn vilji að það komi skýrt fram að þessir tölvupóstur er ekki komnir frá Póstinum.
„Við viljum að það sé alveg skýrt að þessir póstar koma ekki frá okkur, það er mjög leiðinlegt að horfa upp á óprúttna aðila nota nafn Póstsins til að svíkja fólk. Við hvetjum alla til að huga vel að því hvort þeir eigi von á sendingum og minnum á að ef greiða á sendingu á netinu hjá okkur þarf alltaf að skrá sig inn á örugga síðu á minnpostur.is“