Fiskistofa hefur lokið við úthlutun aflaheimilda fyrir fiskveiðiárið 2020/2021, sem byrjar á morgun, 1. september.
Heildarúthlutun að þessu sinni er 353 þúsund þorskígildistonn, sem er ögn minna en í fyrra. Þorskur er um 202 þúsund tonn og dregst saman um 13 þúsund tonn á milli ára. Á móti eykst ýsukvóti lítillega.
Guðmundur í Nesi er það skip sem mestu aflamarki er úthlutað þetta árið, en skipið er í eigu Útgerðafélags Reykjavíkur (áður Brim). Guðmundur í Nesi fær 13.714 þorskígildistonnum úthlutað sem er um 3.000 tonnum meira en næsta skip, sem er Sólbergið.
Í tilkynningu Fiskistofu segir að fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur rétt rúmum 90% af því sem til úthlutunar er. Alls eru 326 fyrirtæki um kvótann í ár og er Brim (áður HB Grandi) lang stærsta sjávarútvegsfyrirtækið, með um 9,6% af heildarkvóta Íslands. Næst á eftir kemur Samherji með um 6,9% og FISK Seafood með 6,3%.
Athygli vekur að 10,45% af aflaheimildum næsta árs fara til Vestmannaeyja. Það eru rúm 36 þúsund tonn. Reykjavíkurflotinn fær í sinn hlut rúm 40 þúsund og Akureyri um 16 þúsund tonn.