Fríhöfnin hefur sagt upp 62 starfsmönnum í dag vegna samdráttar í rekstri og óvissu vegna áhrifa COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu sem var send fjölmiðlum rétt í þessu.
„Frá því áhrifa faraldursins fór að gæta hér á landi hefur stöðugildum hjá fyrirtækinu fækkað um tæp 60% og gripið hefur verið til ýmissa annarra hagræðingaraðgerða sem snerta öll svið Fríhafnarinnar,“ segir í tilkynningu.
Haft er eftir Þorgerði Þráinsdóttur, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, í tilkynningu að aðgerðirnar hafi verið óhjákvæmilegar.
„Því miður er staðan þannig að fækkun starfsfólks er óhjákvæmileg. Útlit er fyrir að ferðamenn sem koma til landsins verði afar fáir næstu misserin og erfitt að spá fyrir um hvenær fer að horfa til betri vegar. Við hjá Fríhöfninni höfum gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða frá því að heimsfaraldurinn hófst en því miður er staðan og útlitið verra en spáð var á fyrstu stigum“
Hún segir að mikil óvissa sé fram undan og staðan verði endurskoðuð reglulega.