fbpx
Föstudagur 11.apríl 2025
Fréttir

Opnar sig um erfiða reynslu af COVID – Var haldið sofandi á gjörgæslu í fimm daga – „Enginn á að þurfa að upplifa það að óþörfu“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 31. ágúst 2020 12:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

William Thomas Möller smitaðist af COVID-19 við upphaf seinni bylgju heimsfaraldursins hér á landi. Hann varð mjög veikur og þurfti að dvelja á gjörgæslu þar sem honum var haldið sofandi. Hann skrifar í pistli sem birtist á Facebook um þessa erfiður lífsreynslu og biður fólk um að fara varlega og huga að viðkvæmum hópum því það að liggja á gjörgæslu í öndunarvél sé ekkert grín.

Hann gaf DV góðfúslega leyfi til að deila frásögn hans með lesendum.

„Mig langaði aðeins að skrifa um það sem kom fyrir mig í byrjun Ágúst. Þetta getur kannski hjálpað einhverjum þar sem við erum enn þá stödd í miðjum heimsfaraldri, þegar hann/hún fær alvarleg einkenni eða einhverjir ástvinir og þá er hægt að skilja hvað þarf að ganga í gegnum til að verða heill á ný!“

Haldið sofandi á gjörgæslu

William smitaðist af COVID og lungnabólgu í byrjun ágúst og varð fljótlega mjög veikur.

„Jenný var í vinnunni og ég var byrjaður að hósta þangað til ég kúgaðist og þá ældi ég vatni. Jenný var að klára verkefni en kom heim að mig minnir um ellefuleytið, þá hafði ég ælt næstum hálfum skúringadalli af vatni á minna en 4 tímum. Ég var byrjaður að heyra ofheyrnir og jafnvel sjá ofsjónir, enda súrefnið í heilanum orðið lítið.“

William var þá skutlað á bráðamóttöku. Þar kom í ljós að hann var með litla súrefnismettun svo gripið var í það ráð að svæfa hann.

„Ég fékk engan tíma til að undirbúa mig, skammast mín, verða reiður, hræddur eða neitt. Fékk bara tíma til að hringja í Jenný og segja henni stöðuna.“

William var tengdur við alls konar tæki og tól. Á meðan á svæfingunni stóð dreymdi William, en allt í allt var honum haldið sofandi í fimm daga.

„Svo fékk ég legg í slagæð, tvo í vinstri hendina. Eftir að ég er svæfður þá fæ ég þvaglegg og annan legg í hálsinn. Ég var tengdur við allskonar tæki til að fylgjast með önduninni og hjartanu. Nú hef ég verið svæfður oftar en flestir munu verða svæfðir á ævi sinni og aldrei hefur mig nokkurn tíman dreymt fyrr en núna. Í drauminum er alltaf myrkur, og ég er fastur á spítalanum, oftast er ég fastur í rúminu og eina sem ég get talað við er hjúkrunarfræðingur sem talar portúgölsku. Stundum man ég eftir mér á hlaupum á ganginum. Ég man að það voru gluggar í draumnum en úti var alltaf allt svart. Ég var sofandi í fimm daga.“

Raunverulegar martraðir

William vaknaði fimm dögum síðar á gjörgæslunni.

„Ég man lítið eftir þegar ég vaknaði, ég man að ég var á gjörgæslu, ég man að ég hélt að ég hafði skitið svona 20 sinnum á mig áður en ég þorði að segja við hjúkrunarkonuna að ég væri í vandræðum og þegar hún ætlaði að laga mig þá var engin kúkur, en þá hóstaði ég og ældi svo mikið og útum allt, upp í loftið og á öll tækin fyrir framan mig. Hversu klikkað er að eina sem þú telur raunverulega hafi gerst á gjörgæslunni er þetta?“

Annað man William ekki fyrr en komið var að síðasta deginum hans á gjörgæslu. Þá upplifði hann miklar ofsjónir og ofsóknarbrjálæði.

„Martraðir sem voru svo raunverulegar og svo hræðilegar að í dag finnst mér ennþá eins og þær hafi gerst. Ég man þegar ég vaknaði eftir síðasta einum of raunverulega drauminn (ofsjónina) að ég var svo hræddur, þarna voru allar ofsjónir farnar allt í einu en þegar hjúkrunarkonan byrjaði að taka leggina af mér og ég fékk að borða í fyrsta skiptið og hún sagði mér að ég væri að fara á almennu deildina klukkan að eina sem ég gat hugsað var: þau eru að koma að ná í mig, þau ætla að klára þetta. Ég var á gjörgæslu í þrjá daga minnir mig.“

William var svo færður yfir á almenna deild og þegar þar var komið var hann nokkuð einkennalaus. Hann var hins vegar afar einmana.

„Ég var mjög einmana þar en það var hugsað frekar vel um mig þannig að þetta var bærilegt svona mest framan af. Ég var á almennu deildinni í rúmlega viku.“

Bakslag í bata

William segist telja að fólk lesi fréttir af öðrum sem hafa verið útskrifaðir af gjörgæslu og þyki það gleðitíðindi án þess að gera sér grein fyrir því hversu erfið reynsla liggur þar að baki.

„En mín upplifun er sú að þetta er ógeðslega erfitt, það er öll vinnan eftir þegar spítalavistinni er lokið.“

Eftir að hann kom heim af sjúkrahúsinu hefur hann verið duglegur að hreyfa sig. En batinn hefur ekki gengið áfallalaust.

„En í gær kom smá bakslag í endurhæfingu minni. Ég byrjaði að fá mikil einkenni í brjósti og hjartanu ásamt svima og öðrum einkennum og þetta var svo nýtt fyrir mér að ég hélt að ég væri að fá hjartaáfall. Ég fór á bráðamóttökuna klukkan 2 aðfaranótt laugardags þar sem ég var í stanslausum blóðprufum og skönnum í 9 tíma þangað til ég var útskrifaður þar sem mér var sagt að það væri ekkert alvarlegt að mér. Ég kem heim klukkan 11 en þá byrja ég að fá hausverk og dofa í hendurnar ásamt miklum innri skjálfta í magan og brjóstið. Klukkan 15 fer ég aftur á bráðamóttökuna þar sem ég hugsaði með mér: okey ef þetta er ekki hjartaáfall þá hlýtur þetta að vera heilablóðfall eða blóðtappi eða eitthvað.“

Það reyndist þó ekki raunin. Læknar telja að William glími við alvarleg einkenni streitu og þunglyndis í kjölfar svæfingarinnar og legunnar á gjörgæslu.

„Eftir lífsreynslu mína varðandi svæfinguna, að vera næstum dáinn, gjörgæsluna og einmanaleikann sem fylgir þessu öllu að eiga bara samskipti við fólk með grímur og svo framvegis.“

William deilir sögu sinni til að minna alla á að halda áfram að gæta sín í faraldrinum, sérstaklega í samskiptum við þá sem tilheyra áhættuhópum.  Helst vill hann að enginn annar þurfi að fara inn á gjörgæslu eða í öndunarvél vegna COVID.

„Enginn á að þurfa að upplifa það að óþörfu.

Við þurfum að halda áfram að passa okkur, sérstaklega nálægt viðkvæmum hópum. Við þurfum að setja kröfu, sem eitt ríkasta land í heiminum að efla nýsköpun og rannsóknir í heilbrigðiskerfinu, að efla laun hjá þeim sem þar starfa. Ekki bara varðandi COVID, það er svo margt annað sem við getum sigrað til að fleiri og fleiri fá tækifæri til að lifa lífinu sínu með heilbrigði í sem lengstan tíma.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Elín Metta komin heim
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Tveimur samningsbrotamálum gegn Íslandi vísað til EFTA-dómstólsins

Tveimur samningsbrotamálum gegn Íslandi vísað til EFTA-dómstólsins
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Arna Magnea birtir hatursfull skilaboð frá þekktum einstaklingum

Arna Magnea birtir hatursfull skilaboð frá þekktum einstaklingum
Fréttir
Í gær

Bláskógabyggð sögð skaðabótaskyld

Bláskógabyggð sögð skaðabótaskyld
Fréttir
Í gær

Kristinn svarar pistli blaðamanns: „Ég var að biðja þessar ungu konur að færa fórn“

Kristinn svarar pistli blaðamanns: „Ég var að biðja þessar ungu konur að færa fórn“
Fréttir
Í gær

Umdeildur fyrirlesari á leið til Íslands – „Einn versti zíonistinn á netinu“

Umdeildur fyrirlesari á leið til Íslands – „Einn versti zíonistinn á netinu“
Fréttir
Í gær

Skítafýla skekur Skagamenn – „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þetta er ógeðsleg lykt“

Skítafýla skekur Skagamenn – „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þetta er ógeðsleg lykt“