Eyjafréttir greindu frá því í dag að öllum starfsmönnum Herjólfs ohf., rekstraraðila ferjunnar Herjólfs, hafi verið sagt upp. Mun þar einnig hafa komið fram að starfsmennirnir vinna nú út þriggja mánaða uppsagnarfrest og mun áætlun ferjunnar því ekki skerðast til 1. desember næstkomandi.
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segir í viðtali við DV að félagið sé, eins og aðrir, í gríðarmikilli óvissu. „Við sjáum fram á að rekstrarhalli félagsins verði umtalsverður og við erum búin að vera að vinna í þessu ferli samkvæmt lögum um hópuppsagnir. Svo gerist það að á fundi stjórnar í gær var tekin sú sársaukafulla ákvörðun að segja upp öllum starfsmönnum Herjólfs ohf.“
Guðbjartur segir að Covid áhrifin séu gífurleg á rekstur ferjunnar, en sértekjur félagsins hafi svo gott sem gufað upp í kjölfar faraldursins. Enn fremur segir hann að ekkert liggi fyrir um ætlanir ríkis eða sveitarfélags að bæta í núverandi þjónustusamning. „Við höfum talað um það að vanti inn í samninginn frá því að hann var gerður. Aðalatriðið er nú samt þessi Covid áhrif,“ segir Guðbjartur.
Guðbjartur þvertekur fyrir að uppsagnirnar nú hafi nokkuð með yfirstandandi kjaradeilur að gera. „Vissulega hafa þær verið á óheppilegum tíma, en þessi ákvörðun hefur ekkert með það að gera. Enda var þar verið að fjalla um einhverja örfáa starfsmenn af heildinni. Þetta er miklu stærra og umfangsmeira verkefni en það.“
Guðbjartur viðurkennir það að samgöngur verði að vera klárar á milli lands og Eyja. „Þetta er okkar þjóðvegur,“ segir hann. „Því miður var á þessum tímapunkti einfaldlega ekkert annað að gera en þetta. Nú heldur vinnan áfram og við þurfum að komast í gegnum þetta og tryggja að þjónusta verði áfram við íbúa bæjarins.“ Guðbjartur segir að aðkoma ríkis verði að koma til.