fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Læknaprófessor gagnrýndur fyrir ummæli sín um COVID-19 – „Ótrúlega sorglegt að lesa grein eftir Jón Ívar Einarsson“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 30. ágúst 2020 09:43

Jón Ívar Einarsson. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grein sem Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Boston, birti í Morgunblaðinu í gær, hefur vakið mikla athygli. Jón gagnrýnir þar íslensk stjórnvöld fyrir hertar aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirunnar sem tóku gildi í ágústmánuði. Greinin hefur bæði vakið hrifningu og harða gagnrýni. Jón gagnrýndi stjórnvöld fyrir að þrengja að frelsi borgaranna og valda ferðaþjónustunni gífurlegum skaða:

„Þarna er að mínu mati seilst of langt. Vissulega er réttur fólks til eins eðlilegs lífs innanlands og hægt er mikilvægur en það er vandmeðfarið að þrengja að frelsi borgaranna með þessum hætti og sérstaklega ef það á að vara til langs tíma. Það er jafnframt töluverð hætta á að ef of langt er gengið, þá hætti sumir að fara eftir reglum. Þetta hefur sýnt sig bæði hérlendis og erlendis þar sem brot á sóttkví hafa leitt til hópsmita. Sóttkví virkar nefnilega ekki nema fólk fari eftir reglunum, því það er í raun ómögulegt að hafa viðunandi eftirlit með fólki sem kemur til landsins. Skynsamlegra hefði verið að lágmarka skaðann á báða bóga með því að setja alla í tvöfalda skimun en jafnframt að halda áfram með heimkomusmitgát á milli sýna, sem var að mínu mati vel ígrunduð leið til að lágmarka hættu á smiti eftir að lá fyrir að fyrra sýni var neikvætt. Þetta hefði í för með sér mun minni röskun á komum ferðamanna til landsins og myndi minnka þann gífurlega skaða sem ferðaþjónustan og aðrir aðilar eru nú að verða fyrir.“

Jón segir jafnframt að þó að viðbrögð við faraldrinum í Bandaríkjunum hefðu ekki verið til fyrirmyndar og Covid „í raun brunnið þar í gegn eins og sinueldur“ þá gengi lífið þar nú að mestu sinn vanagang, þó að ekki fari það hátt í fjölmiðlum: „… veitingahús full af fólki og sjúkrahús að mestu að sinna hefðbundnum sjúklingum þótt vissulega sé ástandið misjafnt á milli ríkja. Hjarðónæmi myndast ekki í einu vetfangi heldur verður smám saman erfiðara fyrir veiruna að breiðast út og það gæti e.t.v. farið að raungerast vestra á næstu mánuðum,“ skrifaði Jón.

Þá benti hann á að dánartíðni þeirra sem fá COVID-19 væri aðeins  0,21%.

Segir skrifin sorgleg

Meðal þeirra sem gagnrýna skrif Jóns er Brynhildur Einarsdóttir menntaskólakennari sem segir að kröftum hans væri betur varið í Bandaríkjunum þar sem ástandið vegna COVID sé hræðilegt. Jafnframt bendir hún á ferðatakmarkanir til Bandaríkjanna en þangað má enginn koma núna nema bandarískir ríkisborgarar eða handhafar græna kortsins. Brynhildur segir að íslensk stjórnvöld setji velferð landsmann í fyrsta sæti og landinu hafi ekki verið lokað:

„Ótrúlega sorglegt að lesa grein eftir Jón Ívar Einarsson lækni í Morgunblaðinu í dag. Held að kraftar hans ættu meira heima í Bandaríkjunum þar sem ástandið er bæði hræðilegt og sorglegt. Og talandi um ferðahöft, til USA má enginn koma sem ekki er bandarískur ríkisborgari eða græna korts hafi. Og mörg fylki, þar á meðal New York, gera kröfu um 14 daga sóttkví yfir línuna á alla sem koma inn í fylkið, bæði frá útlöndum og öðrum fylkjum.
Við Íslendingar búum blessunarlega við ríkisstjórn sem setur velferð landsmanna í 1,2 og 3 sæti. Hèr hefur engin lokað landinu. Hér geta allir komið og farið, án þess að frelsi þeirra sé afnumið en þú þarft að bíða í fimm daga. Fimm daga!! Og hann segir of langt er seilst. Því miður er þetta ekki eingöngu hans skoðun hef heyrt fleiri vera tala um frelsisskerðingu. Í bókinni Frelsið eftir John Stuart Mill ræðir hann rettlætinguna fyrir því að skerða frelsi borgaranna til að koma í veg fyrir að þeir skaði aðra. En það er akkúrat verið að gera það hér á landi, veiran getur smitast án einkenna og þess vegna þurfa þeir sem eru að koma frá sýktum svæðum að bíða í 5 daga áður en þeir fara út á meðal fólks. Frelsi okkar sem erum Íslendingar er mikivægast. Ekki frelsi ferðamanna. Hér á landi eru landsmenn settir í forgang og þeirra velferð. Við eigum eftir að lifa með covid lengi því minni veira því betra. Við munum aldrei lifa í veirufríu landi, það hefur engin talað um það. En því minna af veirunni því betra fyrir, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, hagkerfið, atvinnulífið, menninguna, listalífið, Allt Líf!“
Í umræðum undir pistli Brynhildar furðar fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason sig á fullyrðingum Jóns um að lífið gangi sinn vanagang í Bandaríkjunum. „Vinir mínir fóru um daginn frá Nashville með syni sína, tvíbura, sem eru að byrja í háskóla í New York. Þeir þurftu að fara í hálfs mánaðar sóttkví. Vinur Kára sem býr í LA er í fjarnámi að öllu leyti.“

Há dánartíðni hjá öldruðum

Vefur Hringbrautar gerir að umtalsefni skrif Jóns Magnúsar Jóhannessonar, sem er sérnámslæknir á Landspítalanum og fyrrverandi starfsmaður COVID-19 göngudeildarinnar. Jón Magnús bendir á að dánartíðni hjá öldruðum sé miklu hærri en þær tölur sem Jón Ívar teflir fram.  „Ein­staklingar milli 70 og 80 ára virðast vera í 5 til 10 prósent líkum á að deyja vegna CO­VID-19. Sömu líkur fyrir 80 ára og eldri eru 10 til 20 prósent,“ segir Jón Magnús. Þetta séu ekki lágar tölur og ennfremur sé aukin hætta til staðar hjá þeim sem hafa undirliggjandi sjúkdóma. „Þetta er þannig gífur­leg hætta á dauðs­föllum í stórum hópi ein­stak­linga,“ segir Jón Magnús. Hann skrifar jafnframt:

„Nú þegar hafa tæpir 850.000 ein­staklingar dáið vegna CO­VID-19 og far­aldurinn er langt frá því að vera búinn. Það er útópía að halda að lífið geti farið í samt horf á næstunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Harris hafi tryggt sér nægilegan fjölda kjörmanna til að hljóta útnefningu sem forsetaefni

Harris hafi tryggt sér nægilegan fjölda kjörmanna til að hljóta útnefningu sem forsetaefni
Fréttir
Í gær

Snorri vekur athygli á óvenjulegu stríði Krónunnar og Bónus – „Greinilega er Bónus í ákveðinni örvæntingu með þetta”

Snorri vekur athygli á óvenjulegu stríði Krónunnar og Bónus – „Greinilega er Bónus í ákveðinni örvæntingu með þetta”