fbpx
Föstudagur 18.apríl 2025
Fréttir

Kannski ekki öll nótt úti

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 30. ágúst 2020 16:45

mynd/frettabladid.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðasta blaði var farið yfir bágt ástand á vinnumarkaði og ærin verkefni sem fram undan eru á vettvangi verkalýðsfélaga. Þó gefa tölur um fjölda starfa og álit sérfræðinga um framhaldið tilefni til bjartsýni.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir stöðuna á vinnumarkaði vissulega erfiða. „En sem betur fer siglum við inn í veturinn og langflestir okkar félagsmanna með tryggðan kjarasamning.“ Hún tekur undir með kollegum sínum að hækka þurfi atvinnuleysisbætur og tryggja framfærslu fólks. Hins vegar segir Sonja mikið tilefni til þess að hafa áhyggjur af skólastarfi í haust og vetur. „Komi til frekari takmarkana á skólastarfi er hætt við að margir séu búnir með sinn frítökurétt vegna sumarfrís og vegna röskunar á skólastarfi fyrr á árinu. Ljóst er að tekjulægstu hóparnir eru viðkvæmastir fyrir þessu og munu eiga erfiðast með að brúa þetta bil,“ segir Sonja. BSRB mun, að hennar sögn, eiga samtal við stjórnvöld um það hvernig hægt sé að bjóða upp á meiri sveigjanleika. Til dæmis með meiri heimavinnu.

Hlutabótaleið hverfandi Þó að nýbirtar atvinnuleysistölur Vinnumálastofnunar fyrir júlí séu ef til vill ekki til þess að hrópa húrra fyrir, er auðvelt að ímynda sér talsvert verra ástand. Til dæmis er ljóst að mjög fáir eru að nýta sér hlutabótaleiðina en hún vegur aðeins 0,9% af heildaratvinnuleysi.

Heildaratvinnuleysið mældist í júlí 8,8%, að frádregnu hlutabótaatvinnuleysinu svokallaða og eftir stendur 7,9% „almennt atvinnuleysi“. Þetta „almenna“ atvinnuleysi var 7,5% í júní og 7,4% í maí. Þar til viðbótar má sjá algjört hrun í nýtingu hlutabótaleiðarinnar. Atvinnuleysi tengt nýtingu hlutabótaleiðarinnar fór úr 10,3% í júní í 0,9% í júlí, sem fyrr sagði. Gekk Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, meira að segja svo langt að segja að ekki væri þörf á að framlengja hlutabótaleiðina.

Taka skal fram að Vinnumálastofnun segir í skýrslu sinni um atvinnuleysistölur júlímánaðar að hún geri ráð fyrir áframhaldandi aukningu á almennu atvinnuleysi eftir því sem áhrifa fleiri hópuppsagna fer að gæta hjá greiðslustofu stofnunarinnar. Á móti spáir hún áframhaldandi lækkun á nýtingu hlutabótaleiðarinnar og að það verði 0,4% af heildaratvinnuleysi í ágústmánuði.

Vinnumálastofnun spáir 8,6% atvinnuleysi í ágúst og að það lækki svo með haustinu þegar fólk hefur nám, en námsmenn eiga ekki rétt á bótum.

Svartnættið ekki svo svart

Þó er ekki öll von úti, því inni á vinnumiðlunarvefnum Alfreð eru nú auglýst 255 störf, og hefur lítið dregið úr þeim fjölda á undanförnum vikum. Störfin eru jafnframt af ýmsum toga. Efst á heimasíðu Alfreðs þegar þetta er skrifað er til dæmis auglýst eftir deildarstjóra bókhalds hjá B&L, leikskólakennara, bifvélavirkja, lögfræðingum hjá Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu og kerfisstjóra hjá Advania.

Enn fremur segir Vinnumálastofnun í áðurnefndri skýrslu að 144 störf hafi verið auglýst hjá vinnumiðlun Vinnumálastofnunar í júlí.

DV tók saman fjölda auglýsinga í nýjasta atvinnuauglýsingablaði Fréttablaðsins og flokkaði störfin eftir því hvort krafist væri háskólamenntunar eða ekki. Í heild voru 28 störf auglýst þar. 17 kröfðust háskólaprófs eða annars konar sérfræðimenntunar, sex kröfðust háskólaprófs og mikillar reynslu og fimm gerðu ekki kröfu um háskólamenntun. Tíu af auglýsingunum 28 voru stjórnunarstörf.

Sambærilega sögu er að segja af Starfatorgi, þar sem laus störf hjá hinu opinbera eru auglýst. Af þeim 83 störfum sem laus voru til umsóknar gerðu 52 kröfu um háskólapróf og 21 ekki.

Kreppan ekki óyfirstíganleg

DV.is sagði frá því fyrr í sumar að Andrés Jónsson, framkvæmdastjóri Góðra samskipta, hefði opnað ráðningarskrifstofu. Þótti fréttin skera sig allnokkuð úr öðrum fréttum á þeim tíma af hópuppsögnum og yfirvofandi atvinnuleysi. Sagði Andrés þá við DV að miklar breytingar væru að verða á hvernig að ráðningum væri staðið á Íslandi og hvernig hæfni væri metin. „Við skiljum betur hvernig við prófum fólk, við styðjumst við raunhæf verkefni í ráðningarferlum og byggjum á miklu meiri upplýsingum en yfirferð á ferilskrám og öðrum aðsendum gögnum.“

Í samtali við blaðamann segir hann að ráðningarskrifstofa Góðra samskipta gangi vel. Engu að síður sé ljóst að fram undan sé kreppa en Andrés segist þó jákvæður. „Þetta er kreppa sem Íslendingar kunna á. Við erum svo vön aflabresti og öðrum skyndilegum ytri áföllum sem ekki tengjast hefðbundnum hagsveiflum.“

Andrés segir íslenska þjóð úrræðagóða og að hún hafi reynslu af því að finna sér nýjar matarholur þegar mest liggur við. Mestar áhyggjur hefur Andrés þó af háskólamenntuðum. Of fá alþjóðleg þekkingarfyrirtæki séu hér á landi sem geti boðið háskólamenntuðum góð laun og áhugaverð verkefni. Það taki tíma að skapa ný slík tækifæri á markaði.

„Við þurfum að taka Dani okkur til fyrirmyndar. Jafnvel þó tekið sé tillit til þess að þeir eru 16 sinnum fjölmennari þjóð en við, eru þeir líklega með 20-30 sinnum fleiri öflug þekkingarfyrirtæki en við,“ segir Andrés.

Íslendingar stóðu síðustu kreppu af sér svo eftir var tekið. Gríðarleg fjölgun varð í fjölda fyrirtækja, einna helst í ferðaþjónustu og upp úr henni urðu til tæknifyrirtæki í geiranum eins og Guide to Iceland og Bókun.

Nú er komið að því að endurtaka leikinn.

 

Þessi grein er seinni hluti greinar um atvinnumál Íslands og birtist í helgarblaði DV síðustu helgi. Fyrir upplýsingar um áskrift má senda tölvupóst á askrift@dv.is.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

KS fyrstir til að nýta nýja varaleið OK um gervihnetti – Styrkir öryggi mikilvægra innviða

KS fyrstir til að nýta nýja varaleið OK um gervihnetti – Styrkir öryggi mikilvægra innviða
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn í Garðabæ: Hin grunaða sögð hafa átt í stormasömu sambandi við foreldra sína

Harmleikurinn í Garðabæ: Hin grunaða sögð hafa átt í stormasömu sambandi við foreldra sína