Jón Egill Sveinsson lést á afmælisdaginn sinn, þann 27. ágúst síðastliðinn, 97 ára gamall. Það þykir hár aldur en langlífi er í ætt Jóns, móðir hans, Sigríður Fanney Jónsdóttir, varð 104 ára gömul.
DV ræddi stuttlega við Þröst Jónsson, einn sex sona Jóns, og að hans sögn var Jón heilsuhraustur alveg þar til í júlí í sumar. Þó var hann sjóndapur á efri árum vegna gláku. Þröstur segir að Jón hafi átt það sameiginlegt með móður sinni að vera skýr í kollinum alveg fram að dánarstundu.
Jón Egill fæddist að Egilsstöðum þann 27. ágúst árið 1923. Hann bjó þar mestan hluta ævi sinnar en námsárum varði hann í Winnipeg í Kanada og Bandaríkjunum. Einnig bjó hann um skeið að námi loknu í Reykjavík. Jón Egill lærði flug í Kanada og flugvirkjun í Bandaríkjunum. Að námi loknum starfaði hann um skeið hjá Flugfélagi Íslands.
Árið 1948 var lykilár í lífi hans því þá ákvað hann að flytja austur á æskustöðvarnar og hefja búskap. Jafnframt giftist hann Mögnu Jóhönnu Gunnarsdóttur, frá Beinárgerði á Völlum. Hún lést árið 2010. Jón Egill og Magna eignuðust sex syni.
„Hann var dugnaðarforkur og gríðarlegur frumkvöðull í landbúnaði, sérstaklega viðvíkjandi allri vélvæðingu. Hann nýtti sér flugvirkjamenntunina til hins ýtrasta og hreinlega smíðaði tækin sjálfur ef þau voru ekki til nógu stór hjá umboðinu. Hann var mikill húmoristi og afskaplega góður faðir barnanna sinna. Sterkur karakter á öllum sviðum.“
Þannig lýsir Þröstur Jónsson föður sínum í stuttu spjalli við DV.
Útför Jóns Egils Sveinssonar verður frá Egilsstaðakirkju þann 4. september kl. 14. Útförinni verður streymt á Youtube, sjá spilara hér neðst, undir fréttinni.
Tengill á Facebook-viðburð útfararinnar.
Hér að neðan er æviágrip Jóns Egils Sveinssonar auk upplýsinga um foreldra hans og afkomendur:
Æviágrip: Jón Egill Sveinsson
Jón Egill Sveinsson fæddist á Egilsstöðum 27. ágúst 1923. Hann lést á dvalarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 27. ágúst 2020, 97 ára að aldri eftir skamma dvöl þar. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Fanney Jónsdóttir f. 8.02.1894 að Strönd á Völlum, d. 14.09.1998 og Sveinn Jónsson f. 8.01.1893 á Egilsstöðum og bóndi þar, d. 26.07.1981. Jón Egill var annar í röðinni af þremur systkinum, en þau voru Ásdís húsmæðrakennari og hótelstjóri f. 15.04.1922, d. 15.08.1991 og Ingimar bóndi á Egilsstöðum og síðar kennari á Hvanneyri f. 27. 02.1928.
Þrítugasta maí árið 1948 kvæntist Jón Egill Mögnu Jóhönnu Gunnarsdóttur frá Beinárgerði á Völlum f. 18.12.1926 d. 27.06.2010. Þau eignuðust sex syni. Þeir eru: 1) Sveinn f. 7.09.1948, byggingaverkfræðingur á Egilsstöðum, maki Jóhanna Valgerður Illugadóttir. Þau eiga 3 börn og 12 barnabörn. 2) Gunnar f. 4.03.1952, bóndi á Egilsstöðum, maki Vigdís Magnea Sveinbjörnsdóttir. Þau eiga 3 börn og 6 barnabörn. 3) Egill f. 13.05.1957, vélaverkfræðingur í Hafnarfirði, maki Anna Guðný Eiríksdóttir. Þau eiga 3 börn og 7 barnabörn 4) Þröstur f. 5.08.1962, rafmagnsverkfræðingur á Egilsstöðum, maki Karen Kjerúlf Björnsdóttir. Hann á 2 börn frá fyrra hjónabandi. 5) Róbert f. 19.08.1966 starfar við Egilsstaðabúið 6) Björn f.16.02.1968, iðnhönnuður í Reykjavík, maki Annamaria Cusenza. Þau eiga 1 barn.
Jón Egill ólst upp við algeng sveitastörf hjá foreldrum sínum á Egilsstöðum. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1942 og lærði síðan flugvirkjun í Bandaríkjunum. Að námi loknu 1945 vann hann um tíma hjá Flugfélagi Íslands. Hann snéri sér síðan 1948 aftur að búskap á Egilsstöðum, fyrst í félagi við föður sinn og Ingimar bróður sinn og síðar í félagi við Gunnar son sinn.
Jón Egill byggði með sínum nánustu upp stórbýli á Egilsstöðum. Hann fylgdist alla tíð vel með tækniþróun, var frumkvöðull í vélvæðingu landbúnaðar og innleiddi þar ýmsa nýja tækni. Hann var hagleikssmiður og smíðaði fjölmargar vélar frá grunni. Þau hjónin, Jón Egill og Magna, höfðu brennandi áhuga á ræktun eins og stór og fagur skrúðgarður, sem þau komu upp við heimili sitt á Egilsstöðum, bar glöggt merki.
DV sendir fjölskyldu og vinum Jóns Egils Sveinssonar innilegar samúðarkveðjur.