Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt til lögreglu um líkamsárás í Garðabæ. Fimm unglingar á aldrinum 16 til 17 ára eru grunaðir um líkamsárás og brot á vopnalögum. Þolendur árásarinnar eru á svipuðum aldrei en árásarmennirnir gáfu þeim rafstuð með Taser. Báðir hóparnir voru á bílum en árásarmennirnir voru farnir af vettvangi þegar lögregla kom. Hins vegar er vitað um nöfn þeirra og mun lögregla hafa samband við forráðamenn. Málið er í rannsókn.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, Þar segir einnig frá því að um níuleytið í gærkvöld var tilkynnt um mann í Tjarnargötu í Reykjavík sem lá á gangstéttinni með stóran hníf í höndunm. Talið var í fyrstu að maðurinn væri slasaður og því var einnig sendur sjúkrabíll á vettvang. Maðurinn var ekki með áverka heldur aðeins í mjög annarlegu ástandi og var hann vistaður sökum ástands síns í fangageymslu lögreglu. Hnífurinn var haldlagður.
Milli klukkan tíu og ellefu í gærkvöld var tilkynnt um hópslagsmál í miðborginni. Voru þrír fluttir með sjúkrabíl á bráðadeild. Ekki er vitað um meiðsli en málið er í rannsókn.
Rétt fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um líkamsárás í Hafnarfirði. Sjö réðust á einn og hlupu síðan á brott. Sjúkrabíll var sendur á vettvang en ekki er vitað um áverka. Er málið í rannsókn.
Um eittleytið var síðan tilkynnt um líkamsárás í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Árásarþoli var með mikið blóð í andliti og sár á höfði. Var hann fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild. Árásarmenn voru farnir af vettvangi en málið er í rannsókn.